05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (2497)

119. mál, stjórn varðskipanna

Flm. (Björn Kristjánsson):

Tilgangur okkar flm. með þál.till. á þskj. 212 er tvennskonar. Annarsvegar vakir fyrir okkur sparnaður á útgjöldum ríkisins og hinsvegar það, að koma betri skipun á stjórn varðskipanna.

Það hefir verið upplýst, að skrifstofustjórinn í dómsmrn. hefir fengið 4000 kr. árlega greiðslu fyrir yfirstjórn varðskipanna. Í þeirri yfirstjórn er ekki fólgið reikningshald eða innkaup þeirra vegna, heldur aðeins það, að gefa fyrirskipanir um, hvernig þau eigi að haga strandgæzlunni og björgunarstarfsemi sinni á hverjum tíma. Meðan útgerðarstjóri ríkisskipanna hafði þessa yfirstjórn á hendi, var starfið unnið án nokkurrar sérstakrar borgunar, og þess vegna ríkinu kostnaðarlaust, því að hann hafði aðeins sín föstu laun. Væri yfirstjórn varðskipanna aftur falin skrifstofu ríkisskipanna, mundi starfið áreiðanlega verða unnið kauplaust, á sama hátt og áður, og ríkinu þar með sparað 4000 kr. árleg útgjöld. En sparnaðurinn yrði að öllum líkindum eitthvað meiri en þetta. Eins og kunnugt er, hafa skipin síðustu árin mjög oft verið fengin til þess að bjarga fiskibátum, sem í hættu hafa verið staddir, og er sú björgunarstarfsemi nú orðin mjög þýðingarmikill þáttur í starfi þeirra. Þegar báta vantar í einhverri veiðistöð, er snúið sér til yfirstjórnar varðskipanna, annaðhvort beint eða gegnum slysavarnafélagið, og getur það vitanlega komið fyrir jafnt á nóttu sem degi, að slíkrar hjálpar sé leitað, og er það þess vegna mikil nauðsyn, að hægt sé á öllum tíma dags eða nætur að ná til yfirstjórnar skipanna, því oft geta fleiri eða færri mannslíf oltið á því, að hægt sé að bregða við nægilega fljótt til hjálpar.

Af þessari ástæðu var það fyrirkomulag upp tekið meðan skipaútgerðin hafði yfirstjórn varðskipanna, að hafa mann á verði við símann utan skrifstofutíma, og um nætur var jafnan símasamband við forstjórann. Fyrir þetta var heldur engin sérstök þóknun greidd, því að útgerðarstjórinn og starfsmenn skrifstofunnar töldu þetta skyldustarf og einn þátt í yfirstjórn skipanna, sem þeim bæri ekkert aukagjald fyrir.

Nú er það vitanlega jafnnauðsynlegt eins og áður, að einhversstaðar sé haldinn vörður í þessu augnamiði, enda mun svo vera enn, að starfsmenn skipaútgerðarinnar sjá um það. En hitt er óvíst, að þeir telji sér skylt að annast það starf endurgjaldslaust, eftir að yfirstjórn varðskipanna er öðrum falin, og þykir mér miklu sennilegra, að meðan sú skipun helzt, muni ekki verða hjá því komizt að borga eitthvað fyrir það. Hinsvegar mætti áreiðanlega komast hjá þeim útgjöldum, með því að færa aftur útgerðarstjórnina í hið fyrra horf.

Starfsemi varðskipanna er, eins og allir vita, ákaflega þýðingarmikil fyrir þjóðina, og ef hægt væri að færa sterkar líkur fyrir því, að þeim mundi verða betur stjórnað af skrifstofustjóra dómsmrn., þá væri ekki horfandi í nokkur þúsund kr. aukakostnað. En ég hygg, að því sé ekki svo farið.

Útgerðarstjóri ríkisskipanna er á bezta aldri, ötull og duglegur maður. Hann hefir um mörg ár verið í siglingum kringum landið sem yfirmaður á skipum Eimskipafélagsins og skipaútgerðar ríkisins og hlýtur því að vera mjög kunnugur allri strandlengjunni hér við land. Skrifstofustjórinn í dómsmrn. hefir hinsvegar enga sjómannsþekkingu og er auk þess orðinn aldraður maður og skortir þess vegna að líkindum áhuga og dugnað á við útgerðarstjórann. Virðist samanburður þessara manna síður en svo benda til þess, að stjórn skipanna sé betur komin í höndum skrifstofustjórans. Segi ég þetta ekki af því, að ég efist um góðan vilja hans í þessu efni, heldur vegna hins, að mér sýnist útgerðarstjórinn hafa miklu betri skilyrði til að leysa starfið vel af hendi.

Kröfurnar um aukna björgunarstarfsemi skipanna fara stöðugt vaxandi. Hafa á þessu þingi komið fram í tveim þál.till. áskoranir til stj. um að hafa varðskipin að staðaldri í Faxaflóa og við Vestfirði í þessu augnamiði, og víðsvegar að af landinu berast óskir um svipaða aðstoð. Ef nú vegna sparnaðarráðstafana verður ekki hægt að gera út nema eitt varðskipanna, þá er vitanlega nauðsynlegra en nokkru sinni áður, að yfirstjórn þeirra sé sem bezt og haganlegust.

Hæstv. dómsmrh. hefir óskað eftir því, að umr. um þessa þáltill. yrði frestað og till. vísað til n. Kveðst hann muni leggja fyrir n. ýmsar upplýsingar viðkomandi þessu máli. Hefi ég ekkert á móti þessu og tel það rétt, ef málið gæti á þann hátt orðið betur skýrt. Vil ég því leggja til, að þál.till. verði vísað til allshn.