05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (2501)

119. mál, stjórn varðskipanna

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Í þessari till. er farið fram á það að fela skipaútgerð ríkisins að stjórna skipunum við landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi. Nú er það auðvitað, að það getur ekki verið átt við sjálfa stjórnina á skipunum, því hún er falin öðrum mönnum, skipstjórunum, og þá er ekki nema um það að ræða, að það sé skipaútgerð ríkisins, sem á að stjórna því, hvar skipin eru á hverjum tíma, hvar þau eigi að hafa eftirlit og þar fram eftir götunum. Allir vita, að skipaútgerðin hefir með höndum allt, sem við kemur sjálfri útgerðinni á skipunum, annast innkaup og útborganir þeirra vegna. En það eina, sem lagt er undir stjórnarráðið er það að ákveða, hvar skipin séu á hverjum tíma og hvernig þau haga sínu eftirliti.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að varðskipin eru okkar lögregla á sjónum. Það væri næsta hjákátlegt að taka nokkurn hluta lögreglunnar og fela hana skipaútgerð ríkisins. Auk þess er svo það, að það eru fleiri skip, sem annast strandgæzluna hér, en þau íslenzku. Það er danskt varðskip hér mestan hluta ársins, og það verður auðvitað að hafa samband á milli skipanna, til þess að þau séu ekki að flækjast hvert fyrir öðru á sömu slóðum og geri þannig miklu minna gagn. Af þessu leiðir það, að óhjákvæmilegt er fyrir stjórnarráðið, sem ræður ferðum varðskipsins danska, að vita jafnframt, hvar hin íslenzku varðskip eru. Þess vegna væri það ekki nema óþarfa milliliður að fela þetta skipaútgerð ríkisins, og það væri líka ókleift fyrir ráðh.; t. d. um þingtímann og oft endranær, að verða sjálfur að ráða því, hvar skipið er á hverjum tíma. Hann verður að fela það einhverjum sinna starfsmanna, og ég sé ekki, að því sé betur fyrir komið annarsstaðar en í dómsmrn.

Ég hefi líka rekið mig á, að það er engu minni ánægja hjá þeim, sem við skipin skipta, yfir þessu en áður var. Skal ég því til sönnunar lesa hér upp bréf frá Slysavarnafélagi Íslands. Það er svo hljóðandi: „Í tilefni af framkominni till. til þál. í Nd. Alþingis um að fela skipaútgerð ríkisins stjórn varðskipanna, vil ég leyfa mér að taka eftirfarandi fram um björgunarstarfsemi varðskipanna og samvinnu við Slysavarnafélag Íslands í þeim efnum: Vér höfum ávallt fyrirvaralaust getað náð í núverandi skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu, sem hefir haft á hendi stjórn varðskipanna, annaðhvort í skrifstofu hans í ráðuneytinu eða á heimili hans hér í bænum. Vér höfum ávallt fengið glögg og ákveðin svör, þegar til hans hefir verið leitað um aðstoð varðskipanna við eftirlit og leit að bátum í vondum veðrum. Hann hefir jafnan á nóttu sem degi verið fús til þess að láta alla þá aðstoð og hjálp varðskipanna í té í þeim efnum, sem auðvitað hefir verið og óskað hefir verið eftir.

Reynsla og samvinna, sem fengizt hefir í þessu efni, er mjög mikils virði fyrir slysavarnir og hefir margoft komið að notum. Væri hægt að nefna ýms dæmi því til sönnunar. Vér viljum óska, að hæstv. Alþingi vilji lofa þessari samvinnu að haldast og að vér megum framvegis snúa oss til núv. skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu um aðstoð varðskipanna í slysavarnaerindum eins og að undanförnu“.

Þetta sýnir nú það, vænti ég, að slysavarnafélagið hefir ekki neitt út á þessa samvinnu að setja og telur hana eins góða og betri en áður var. Það er líka kunnugt um þann mann, sem hefir þetta starf á hendi, skrifstofustjórann í dómsmálaráðuneytinu, að hann er svo að segja aldrei fjarverandi og því nær aldrei annarsstaðar en í stjórnarráðinu eða heima hjá sér eða þá á leiðinni úr stjórnarráðinu og heim eða á leiðinni heiman að og í stjórnarráðið. Þess vegna er alltaf hægt að ná í hann. Hann hefir símann hjá sér á nóttunni. Þetta staðfestist nákvæmlega af þessu bréfi slysavarnafélagsins. Slysavarnanna vegna er því ekki ástæða til að gera þetta. Því slæ ég hér með föstu. Svo er það viðvíkjandi strandvörn landsins. Þar hefi ég líka yfirlýsingu frá skipherranum á Óðni, þar sem hann lætur í ljós það álit sitt, að fyrirkomulagið sé betra nú en áður. Þetta bréf hljóðar svo: „Þér hafið, hr. dómsmrh., óskað þess, að ég léti uppi álit mitt um þáltill. þá, sem fram er komin um að fela skipaútgerð ríkisins stjórn varðskipanna. Út af þessu vil ég leyfa mér að láta í ljós eftirfarandi: Þar sem starf skipstjóra varðskipanna heyrir að lögum undir dómsmrn., og fyrirskipanir, sem verulegu máli skipta, hlytu að koma þaðan, þá virðist það ekki geta orðið til hagræðis að skapa millilið milli dómsmálaráðuneytisins og skipstjóra varðskipanna, enda tel ég, að fyrri reynsla bendi ekki í þá átt, að leggja beri að nýju stjórn varðskipanna undir umráð skipaútgerðar ríkisins. Með þessu á ég auðvitað ekki við það, að útveganir til skipanna og reikningshald eigi að takast undan skipaútgerðinni, heldur að stjórnin á varðskipunum við landhelgisgæzluna heyri beint undir dómsmálaráðuneytið“.

Ég hefi líka bréf frá skipherranum á Ægi, en hirði ekki að lesa það upp, því það er nokkru lengra, en gengur í svipaða átt, og get ég lofað að sjá það þeim, sem þess óska.

Ég held, að það sé algengur misskilningur að halda, að það, að fyrirskipa, hvar skipin skuli vera á hverjum tíma, þurfi að vera komið undir sjómennsku. Það hlýtur að vera undir öllum kringumstæðum skipherrans, sem ber ábyrgð á öllu því, sem sjómennsku við kemur. Allar fyrirskipanir úr landi um slíka hluti eru þýðingarlausar. Við skulum taka t. d. björgunarstarfsemi. Hvað getur maður í landi, hversu vel sem hann er að sér í þeim málum, sagt um það, hvenær er hægt að leggja út í að bjarga skipinu og hvenær eigi að hætta við það. Það verður skipherrann að gera og getur enginn annar gert.

Ég breytti til í þessu, af því að ég fann, að það var ekkert annað en óþarfa fyrirhöfn að þurfa alltaf að leita upplýsinga hjá skipaútgerðinni um það, hvar skipin væru og hvernig ferðum þeirra væri háttað. Það var ekkert nema óþarfa milliliður, sem ekki gerði annað en að valda tímatöf.

Hv. þm. (SvÓ) sagði, að till. væri flutt af mönnum, sem orðið hafa sérstaklega varhluta af strandvörnum á síðasta ári. Ég held ekki, að þeir hafi farið þar meira varhluta hlutfallslega en aðrir landsmenn. En það er eins og mönnum stundum gleymist, að út af kreppunni og fjárhagsvandræðunum varð að draga úr strandgæzlunni, og auðvitað hlaut það að koma einhversstaðar niður. Og auðvitað er hægt með rökum að segja, að ekki hafi alstaðar verið jafnmikil gæzla eins og áður var. Hv. þm. sagði, að það vantaði mann við þetta, sem kunnugur væri öllum ströndum landsins. En eru skipherrarnir það ekki? Ætli þeir séu ekki kunnugastir ströndum landsins? Til hvers er að segja varðskipunum að vera þennan og þennan dag í þessari og þessari vík? Það verður að fara eftir atvikum, og skipherrarnir eiga að vera þesskonar menn, að þeir geti hagað ferðum sínum eins og skynsamir og vitibornir menn.

Hv. þm. áleit þörf á að taka það fram, að þessi till. væri hlutlaus. Ég hefi ekkert um það að segja, en ég leyfi mér að efast um það og dreg það af ummælum í grg. till., þar sem verið er að tala um tugi þús., sem gætu sparazt við þetta. En má ég spyrja hv. þm. að því, hvers vegna hann hefir aldrei á undanförnum árum gert neina umkvörtun um, að það hafi verið borgaðar þessar 4000 kr., sem hann nefnir í grg., hvort sem þetta starf hefir verið innt af hendi af hlutaðeigandi manni eða ekki. Það getur ekki verið, að hv. þm. hafi verið ókunnugt um það, því ég upplýsti það hér í d. í fyrra. Nei, mig grunaði það strax, að þessi till. stæði í sambandi við árás, sem blað eitt „Tíminn“ gerði á mig, vegna greiðslu til skrifstofustjórans. En það hefir nokkuð slegið á það síðan ég upplýsti, að þetta hefir verið greitt öll þau ár, sem fyrirrennari minn var í dómsmálaráðh.embætti.

Ég hygg, að ekki sé ástæða til að samþ. þessa till. Veigamestu rökin fyrir þessari till. eru náttúrlega þau, að það þarf að hafa samstjórn á öllum skipum, sem hér annast strandgæzlu, þar á meðal er danska varðskipið. En að skipa því að fara til skipaútgerðar ríkisins er ekki til neins, því það hefir beina skipun frá danska hermálaráðuneytinu um að vera í samráði við íslenzku stj. og enga aðra.