05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (2505)

119. mál, stjórn varðskipanna

Jóhann Jósefsson:

Ég er á sama máli og þeir hv. þm. og ráðh., sem telja, að þessi till. sé ófyrirsynju fram komin. Það er ekki neitt nýtt, eins og þegar hefir verið upplýst, að stjórn landhelgisgæzlunnar sé í höndum dómsmálaráðuneytisins. Hún var það að því er Ísland snerti löngu áður en Íslendingar eignuðust nokkurt varðskip. Allar málaleitanir viðvíkjandi varðskipunum verða að ganga gegnum dómsmálaráðuneytið, og varðskipalögin kveða svo á, að þessi gæzla heyri undir dómsmálaráðuneytið, enda er það ekki nema eðlilegt og skiljanlegt, þar sem þetta er löggæzla á hafinu, að hún heyri undir dómsmálaráðuneytið. Mér virðist því, þar sem farið er fram á í till. að fela skipaútgerð ríkisins þetta starf, að það sé alveg í mótsögn við þá eðlilegu framþróun, sem landhelgisgæzlan tekur hér á þessu landi eins og í öðrum löndum. Halda hv. flm. þessarar till., að það viðgangist í öðrum löndum, að yfirstjórn lögreglunnar sé falin á hendur leikmönnum? Halda þeir, að einhverri skipaútgerð sé falið að stjórna þeim mönnum, sem eiga að halda uppi lögum og reglu á hafinu?

Ég hefi talsverða reynslu af því, hvernig er að leita til þeirra manna, sem stjórna landhelgisgæzlunni, með öðrum orðum dómsmálaráðuneytisins eða skrifstofustjórans, sem hefir það mál með höndum. Ég get tekið undir það, sem kemur fram í bréfi Slysavarnafélags Íslands, um lipurð og hjálpfýsi skrifstofustjórans í öllum greinum, sem snerta þau málefni, er ég sem formaður Slysavarnafélags Vestmannaeyja hefi leitað til hans með, annaðhvort snertandi landhelgisgæzlu eða björgun. Og ég vil um leið segja það, að meðan skipaútgerð ríkisins var meir í fyrirsvari, sem var um nokkurt árabil í tíð fyrrv. stjórnar, að þá mætti ég ávallt góðvild í þessu efni. Ég vil taka það fram til þess að forðast allan misskilning. En mér virðist að því er þetta snertir, að það sé ekki nokkur ástaeða til að fara að breyta til úr því horfi, sem er, að dómsmálaráðuneytið sjái um þetta sjálft. Mig minnir líka, að það hafi komið ljóst fram hér á þinginu fyrir nokkrum árum, að skrifstofustjórinn í dómsmálaráðuneytinu þótti sérstaklega heppinn í úrlausn ýmissa mála, sem snertu ýmist þetta starf eða eftirlit með smygli á skipum. Ég hygg, að þessu megi finna stað hér í þinginu, og eins vil ég minna á það, að hæstv. fyrrv. dómsmrh. hefir fundið ástæðu til þess að láta þess getið, að skrifstofustjórinn hafi sýnt mikinn dugnað í þessu starfi.

Þá vil ég aðeins minnast á meðferð þessarar till. hjá sjútvn. Þegar till. kom fram, kom fram í ræðu hjá hæstv. núv. dómsmrh., að hann óskaði eftir því, að áður en nefndin afgreiddi þetta mál fengi hann áheyrn með sitt álit, og þegar n. tók málið fyrst fyrir á fundi 18. apríl, var till. rædd, en þó ekki tekin ákvörðun um hana, og þá drap ég á við form. n., að dómsmrh. hefði óskað eftir því, að við veittum honum áheyrn áður en þetta mál yrði afgr.

Næst var málið tekið fyrir á fundi n. 20. apríl, en þá var svo ástatt, að við 2 sjálfstæðismennirnir í n. vorum fjarverandi. Það var hv. þm. G.-K. og ég. Ég hafði farið heim í páskafríinu, og veiktist ég þá og lá í nokkra daga. Gat ég þess vegna ekki komið, er þess getið í fundarbókinni. Um hv. þm. G.-K. er þess getið, að hann hafi verið á fundi annarsstaðar og þess vegna ekki getað komið. Þetta gæti gefið tilefni til að ætla, að okkur væri sama um þessa till. En svo er alls ekki. Við lítum báðir svo á, að þetta sé eigi einungis óþörf till., heldur sé hún beinlínis til þess að færa úr lagi landhelgisgæzluna.

Sá fundur sjútvn., sem afgreiddi þetta mál, var eini fundurinn, sem okkur báða, mig og hv. þm. G.-K. vantaði á. Við vorum báðir löglega forfallaðir. En meiri hl. hirðir ekki um það, heldur skellir út nál., án þess að bera það undir okkur. Ég vildi geta þessa, þar sem við gáfum ekki út neitt sérstakt nál., heldur kusum að bíða með okkar skýringu þar til málið kæmi fyrir. Mér virðist það koma ljóslega fram, að mái þetta er sótt af meira kappi en forsjá. Og þótt ég teldi reyndar réttast, að málið yrði fellt, þá mun ég þó greiða atkv. með till. hv. þm. V.-Húnv.