31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

1. mál, fjárlög 1934

Hannes Jónsson:

Ég á hérna litla brtt. á þskj. 296. Það er styrkur til prófastsekkjunnar Líneyjar Sigurjónsdóttur. Ég hefi ekki gerzt mikilvirkur um það að flytja brtt. við fjárl., og allra sízt um styrki, sem hér er átt við. Vænti ég þess, að d. muni því álíta, að talsverð ríkar ástæður liggi fyrir því, þegar ég fer að flytja brtt. við fjárl. Þessi kona er ekkja Árna prófasts Björnssonar. Þau hjón áttu mörg börn, sem þau kostuðu í skóla, og fé þeirra hefir alveg eyðzt í það. Það má kannske segja, og því er alltaf haldið fram hér á þingi, að þær ekkjur, sem eiga aðstandendur, séu síður þurfandi fyrir styrk en þær, sem ekki eiga neina aðstandendur. Þetta getur náttúrlega verið rétt, en ekki er mér svo kunnugt um efnahag barna þessarar ekkju, að ég geti um það sagt, hvort framtíð hennar sé að öllu leyti trygg. En hitt ætti eigi að síður að vera fært fyrir þingið, að styrkja þær ekkjur, sem hafa komið upp mörgum og mannvænlegum börnum, ekki síður en hinar. Þessar ekkjur, sem þannig hafa fengið styrk hjá þinginu, hafa nú á seinni árum flestar færzt undir svipað form, þannig að fjárveiting til þeirra hefir verið sniðin eftir því, hverjar aðrar tekjur þeirra eru. Þessi ekkja nýtur einskis styrks úr lífeyrissjóði, sem flestar ekkjur hafa að einhverju leyti. Ástæðan til þess mun liggja í því, að ekki muni hafa verið gengið eftir fjárframlagi þessa embættismanns inn í lífeyrissjóð. Það virðist því vera hart að láta ekkjuna gjalda þess og veita henni ekki þennan litla styrk, sem hér er farið fram á og er alveg sambærilegur við styrki, sem ekkjur hafa fengið. Ég skal taka það fram, að mér hefði ekki dottið í hug að gerast flm. þessarar brtt., nema ég hefði talið það sjálfsagt eftir þeirri reglu, sem tekin hefir verið upp um slíkar styrkveitingar. Ég er ekki neitt persónulega kunnugur þessari mætu konu; ég hefi aldrei séð hana. Svo það er ekki af persónulegum ástæðum, að ég flyt þessa brtt. En hitt vissi ég, að það hafði dregizt úr hömlu fyrir henni að senda umsóknir til fjvn., sem ég veit, að hefði tekið styrkveitinguna upp, ef slík umsókn hefði legið fyrir, samkv. venju, sem gilt hefir um afgreiðslu slíkra styrkbeiðna, a. m. k. þann tíma, sem ég átti sæti í n. Mönnum mun kannske þykja það einkennilegt, að ég flyt 2 till. í þessu sambandi, aðra sem varatill. Það mun vera venja, þegar þannig er farið að, að aðaltill. er aðeins sett til að punta upp á, en gengið út frá því; að varatill. verði samþ. En ég vil taka það fram, að það er alls ekki minn tilgangur. Ég álít, að þessi ekkja eigi samkv. undanfarinni venju um styrkveitingar fullkomlega rétt á því að fá 500 kr. upphæðina, en það minnsta, sem hægt er að verja að láta hana fá, eru 300 kr. Og þar sem hér er ekki nema um 200 kr. mismun að ræða, þá vænti ég, að mönnum vaxi það ekki svo mjög í augum og láti hana hafa hærri upphæðina, af því að það eru fullkomlega réttmætar ástæður fyrir því. Annars þýðir ekki að fjölyrða mikið um þetta. Ég ætla ekki að fara að halda hér neina hjartnæma ræðu út af þessu, heldur aðeins segja frá þessu eins og það liggur fyrir, og vona ég, að hv. þm., sem heyra til mín, taki mig trúanlegan, að ég hefði ekki farið að flytja fjárbeiðni fyrir þessa konu, nema ég teldi það sanngjarnt samkv. undanfarinni reglu, sem þingið hefir tekið í þessu efni.

Ég skal bæta því við, að þó börn þessarar ekkju séu öll uppkomin, þá hefir hún þó eina dóttur sína hjá sér, sem er mjög heilsutæp. Og þessari konu mundi áreiðanlega ekki þykja það neitt sérstaklega skemmtilegt að þurfa á sínum efri árum að leita alveg á náðir vandamanna sinna, og væri það því áreiðanlega vel gert af þinginu að veita henni þennan styrk, sem ég vænti fastlega, að verði gert.

Ég skal geta þess, að fjvn. mun hafa afgr. þessa till. á fundi sínum í morgun. Ég gætti þess ekki að láta upplýsingar liggja fyrir hjá henni um þetta, en ég veit það, að hún hefir samþ., að sjálfsagt væri að veita þessari konu nokkurn styrk, en hún hefir óbundin atkv. um hærri upphæðina. En þar sem hér er ekki nema 200 kr. mismunur, þá trúi ég fastlega, að hv. þm. taki gildar þessar upplýsingar mínar og úthluti henni hærri upphæðinni.