31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

1. mál, fjárlög 1934

Pétur Halldórsson:

Ég og hv. samþm. minn (MJ) eigum hér 3 till. á þskj. 296, sem eru ákaflega útdráttarlitlar fyrir ríkissjóð. Þær eru allar viðvíkjandi háskólanum. Það er svo ástatt hér á landi, að háskólinn þarf að sækja hvern einasta eyri til sinna þarfa til ríkissjóðs. Víðast hvar annarsstaðar er það svo, að háskólar hafa sjóði, og sumstaðar svo stóra, að þeir eru alveg sjálfstæð stofnun. Hér þarf að sækja hvern eyri til þarfa þessarar stofnunar til ríkissjóðs og undir skilning og velvilja þm. í hvert sinn.

Fyrsta brtt., sem við flytjum, er að veitt verði til viðbótar við það, sem í frv. er, 1000 kr. til þess að halda uppi kennslu í tauga- og geðsjúkdómum, eins og læknadeildin hefir farið fram á. Ég skal ekki neitt fara hér að lýsa því, hver þörf er á því, að læknar og læknanemar hafi kennslu í þessum fræðum, en ég tel það alveg óhjákvæmilegt, að þessi kennsla fari fram í háskólanum.

Matthías Þórðarson fornminjavörður hefir haldið uppi fræðslu í íslenzkum fornfræðum við háskólann, og háskólaráðið hefir mjög beiðzt þess, að þingið vildi veita í þessu skyni 1800 kr. til þess að gjalda honum fyrir. En við flm. höfum ekki farið fram á meira en 1000 kr.

Í þriðja lagi ætlumst við til, að hv. þm. leiðrétti þau rangindi, sem þessari stofnun hefir verið sýnd frá byrjun, þau, að rektor háskólans hefir aldrei verið greiddur nokkur eyrir úr ríkissjóði til þess að standa straum af risnu. Rektor menntaskólans í Reykjavík fær 1500 kr. og rektor lærða skólans á Akureyri 2000 kr. til þess að halda uppi risnu við skólana. Það er svo við háskólann, að rektor er kosinn á hverju ári. Það er því skylda, sem rektorinn tekur að sér, þegar hann tekur við embætti, að taka á móti erl. gestum af sínu eigin fé. Það eru margir erl. gestir, sem hingað koma, t. d. sendimenn til þess að halda fyrirlestra við háskólann, sem komnir eru fyrir góðvild ríkjanna, sem senda þá. Svo koma árlega margir vísindamenn, sem snúa sér gjarnan til rektors háskólans um upplýsingar um land og þjóð. Það er því nokkurskonar skylda rektors að veita þessum mönnum aðstoð og koma fram fyrir ríkisins hönd. Þetta hefir í för með sér talsverðan kostnað, og af þeim lágu launum, sem rektor hefir, er varla hægt að ætlast til, að hann standi straum af því sjálfur.

Þetta mundi að sjálfsögðu verða fjárveiting, sem yrði að halda áfram ár eftir ár í sama skyni, þangað til eitthvert annað skipulag er komið á við háskólann. Mér finnst það vera skylda þingsins að veita þetta fé, og ég vænti þess fastlega, að hv. þm. greiði því atkv. sitt. Kostnaður af þessum liðum, sem við höfum leyft okkur að fara fram á, að veittir verði til viðbótar við háskólann, er ekki meira en 3500 kr. í mesta lagi, sem sparað hefir verið af fjvn. með því að takmarka fjárveitingar til háskólans um meira en það, sem þessu nemur. — Ég vona því, að hv. þm. geti veitt þessu fylgi sitt og samþ. það.