06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

111. mál, útflutningsgjald

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég gat ekki verið viðstaddur, þegar þetta mál var afgr. frá n., og ég er alveg ósammála hv. meðnm. mínum um afgreiðslu þess.

Það hefir verið svo til þessa, að nokkur hluti þessarar vöru hefir verið seldur úr landinu, og þá aðallega Norðmönnum. Því er ekki að neita, að út af fyrir sig er ekki æskilegt, að þessi vara sé flutt út óunnin, fyrst fiskmjölsverksmiðjur eru til í landinu. En ef menn athuga, hvers vegna nokkur hluti þessarar vöru er fluttur út óunninn, þá sjá menn, að það er af því, að útlendingar kaupa hana hærra verði en þær innlendu fiskmjölsverksmiðjur. Ég get ekki tekið þátt í því með mínu atkv. að útiloka hina mörgu smáu og fátæku framleiðendur þessarar vöru frá því að sitja við þann eldinn, sem bezt brennur, þó að það yrði til framdráttar nokkrum verksmiðjueigendum hér á landi. Og ég get því síður gert þetta, þar sem þessar verksmiðjur eru að nokkru leyti reknar af útlendingum.

Ég játa hinsvegar, að það er Íslendingum fagnaðarefni, að þessi iðnaður hefir nú færzt inn í landið, og ég vil gjarnan meta það við þá menn, sem hafa lagt fé sitt í þennan iðnrekstur, hvort sem þeir eru innlendir eða útlendir. Ég álít, að langréttasta afgreiðsla þessa máls sé að afgr. frv. eins og það kom frá Ed., nefnil. að lækka útflutningsgjaldið af beinamjöli, en hækka ekki útflutningsgjald af beinum og hausum. Á þann hátt öðlast þær innlendu verksmiðjur, að vísu á ríkissjóðskostnað, betri aðstöðu til að greiða framleiðendunum hærra verð fyrir þessa vöru heldur en nú er gert. Þetta virðist mér það sanngjarnasta, þegar þess er líka gætt, að útflutningsgjald af þessum afurðum, þegar búið er að breyta þeim í mjöl, er eftir núv. verðlagi 4—5%, og er það þrefalt útflutningsgjald á við það, sem greitt er nú af öðrum útfluttum vörum.

Ég heyrði það á hv. frsm., að hann var ekki fjarri því, að þetta, sem ég held fram, væri nú kannske réttasta lausn málsins. Ég er viss um, að það, sem hefir ráðið því, að n. tók þessa afstöðu, er það, að n. vildi hér fremur auka tekjur ríkissjóðs en draga úr þeim. Er það eðlilegt, og ekki sízt nú á þessum erfiðleikatímum. En fyrir hönd þeirra mörgu og fátæku manna, sem þessa vöru selja, vil ég mótmæla því, að réttlátt sé að leggja nú þessa aukningu ofan á þann þrefalda útflutningstoll, sem þeir verða nú að bera samanborið við aðra framleiðendur.

Ég vona því, að hv. d. samþ. frv. eins og það kom frá Ed., og að ef hv. frsm. sér sér ekki fært að gera það, þá vilji hann ganga inn á, að málið verði tekið út af dagskrá, svo að n. öll geti athugað það á ný í þeim anda og því bróðerni, sem verið hefir í þessari n. bæði á þessu þingi og undanförnum þingum.