31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. síðari kafla (Tryggvi Þórhallsson):

Ég verð að segja, að ég bjóst við því, að meira yrði hnýtt í fjvn. fyrir till. hennar, en raun er á orðin. Þó hefir fjvn. nú orðið að vera afarharðhent á mörgum liðum. En þetta er merki þess, að hv. þdm. viðurkenni stefnu fjvn. og held ég, að hún hafi haft eftir megni samræmi í till. sínum, og vona ég, að meiri hl. hv. þdm. telji, að n. sé á réttri braut. Vænti ég þess, að till. n. nái allar samþykki.

Hv. 1. þm. S.-M. og aðrir hafa vikið að n. fyrir að fella niður styrkinn til útgáfu þjóðsagna Sigfúsar Sigfússonar. Um orð þau, sem látin eru falla í nál. um þetta safn, er það að segja, að þau eru frá mér, og standa þar eiginlega fyrir minn reikning. En nú er Alþ. búið að fresta útgáfu rita, sem ég tel miklu merkari, svo sem Jarðabók Árna Magnússonar og Manntalið 1703, og ætti þá eins að mega fresta útgáfu þessa þjóðsagnasafns. En ég vil taka það fram, að þessi styrkur fer ekki til Sigfúsar sjálfs, heldur hefir hann sinn sérstaka styrk áfram.

Hæstv. dómsmrh. beindi þeirri ósk til n., að hún tæki aftur 1. brtt. við 22. gr., og málið yrði athugað nánar, og fellst n. á það.

Þá talaði hv. þm. G.-K. á móti till. n. um að afnema styrk til Guðmundar Kambans. Hv. þm. gat þess, að það mundi vera einsdæmi að fella niður styrk úr 18. gr. fjárl., en ég held, að það séu líka einsdæmi, að þar séu látnir standa menn, sem hafa hærri laun en íslenzkur ráðh. Því fer nú betur, að hagur Kambans hefir batnað svo, að hann á nú við góð kjör að búa, en sjálfsagt er að taka aftur upp styrk til hans, ef hann missti þessa góðu atvinnu.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að þeim mörgu till., sem fram eru komnar frá einstökum þm. Af till. n. mun flestum verða það ljóst, að ekki er mikil von góðra undirtekta frá n. hálfu við þessar þm.till. Nú er það svo, að flestar þessar till. hafa áður legið fyrir fjvn., og er hún í flestum tilfellum búin að taka sínar ákvarðanir, svo varla er von, að hún geti nú stutt þær til framgangs.

Ég mun þá fyrst snúa máli mínu að till. á þskj. 296, og er þá fyrst XXI. till. Einn af þeim, sem eiga sæti í n., er aðalflm. till., svo að það liggur í augum uppi, að n. er ekki öll á móti þeim. Hinsvegar er það um þetta að segja, að þessir liðir lágu fyrir n., en hún treysti sér ekki til að taka þá upp og mælir því ekki með þeim nú.

Ég vil geta þess viðvíkjandi 3. liðnum í þessari till. hv. 4. þm. Reykv., að þótt n. fallist ekki á það, að tekinn sé upp í fjárlög styrkur, sem veittur sé rektor háskólans sem risnufé, þá viðurkennir hún það, sem hv. flm. sagði, að sá, sem kemur opinberlega fram af skólans hálfu, þarf að hafa yfir nokkru fé að ráða til þeirra hluta. Hinsvegar lágu fyrir n. upplýsingar um það, að rektor háskólans hefði nú þegar nokkurn styrk í þessu skyni, sem hefir verið veittur af fé háskólans, og leggur n. til, að það verði svo framvegis. Annars má geta þess, að á undanförnum árum hefir verið talsverður reipdráttur milli Alþingis og háskólans út af því, hvað ætti að kosta af fé háskólans, þ. e. sáttmálasjóðs og hvað af ríkisfé. T. d. vildi háskólinn ekki kosta rannsóknastofuna af sínu fé, og er nú svo komið, að ríkið hefir tekið þessa rannsóknastofu að sér, svo sem kunnugt er, og veitir til hennar allmyndarlega í fjárlögum.

Um XXIL, XXIII. og XXIV. lið er sama að segja. N. telur sér ekki fært að mæla með þessum utanfarar og námsstyrkjum.

Sama máli gegnir um næstu till. á eftir, sem sé að hækka styrkinn til iðnfræðslu á Akureyri. N. álítur, að í því máli hafi ekki komið fram þau rök, að hún geti mælt með brtt.

Hv. þm. Vestm. ber fram XXVI. till., um að veita styrk til iðnfræðslu í Vestmannaeyjum, og um þá till. álítur n., að sé nokkuð öðru máli að gegna. Hún álítur, að fyrst aðrir kaupstaðir fá styrk til iðnfræðslu, þá sé samræmisins vegna ekki hægt að mæla á móti þessari till. og leggur því til, að hún verði samþ.

N. mælir á móti næstu till., sem er um 2000 kr. hækkun á framlaginu til barnaskólahúsa utan kaupstaða, sem á að ganga til barnaskólans í Aðalvík, því að n. telur ekki fært að veita í því skyni meira en í frv. stendur.

N. getur ekki mælt með styrk til glímufélagsins Ármanns vegna íslenzku vikunnar í Stokkhólmi, þó að kunnugt sé, að þessir menn hafi orðið Íslandi til mikils sóma í þeirri ferð. Þetta íþróttafélag fékk nokkurn styrk til fararinnar, þar sem allir fimleikamennirnir fengu ókeypis fargjald. Ríkið hefir nú orðið fyrir miklum útgjöldum vegna þessarar íslenzku viku, og telur n. ekki fært að auka við þann kostnað með því að samþ. þessa till.

XXIX. till. er tekin aftur.

Um næstu 3 till. get ég verið fáorður. N. hefir ekki getað fallizt á þær. Um XXXII. till., sem er um að niður falli styrkurinn til Hannesar Þorsteinssonar, vil ég taka það fram, að hér er um nokkurskonar samninga að ræða milli ríkisins og þessa manns. Hann hefir unnið að þessu mikla verki sínu, sem ríkið eignast eftir hans dag, en hann hefir aftur á móti fengið þennan árlega styrk.

Hv. sjútvn. hefir borið fram till. um styrk til Árna Friðrikssonar vegna ritstarfa og fyrirlestra um fiskilíf og fiskiveiðar. N. hefir óbundin atkv. um þessa till., en ég vil þó benda á það, að n. hefir lagt til að hækka tillagið til Fiskifélagsins um 10 þús. kr., og var það gert meðfram með tilliti til Árna Friðrikssonar, sem nú er í þjónustu Fiskifélagsins.

Þá kem ég að hinni stóru till. jafnaðarmanna, að veita 1 millj. kr. til atvinnubóta. Fjvn. getur ekki mælt með því, að þessi till. verði samþ. Þetta mál er miklu vandasamara en svo, að hægt sé að afgr. það með slíkri till. sem hér er borin fram. Þetta mál á að taka til meðferðar í kreppun. og ekki koma fram með till. fyrr en málið hefir verið athugað alhliða í kreppunefnd.

Þá hefir landbn. borið fram till. um að lækka annarsvegar fjárveitinguna til framkvæmda jarðræktarlaganna úr 400 þús. niður í 355 þús., en hinsvegar að hækka upphæð þá, sem er áætluð vegna ráðstafana um tilbúinn áburð, úr 30 þús. upp í 70 þús. kr. Viðvíkjandi þeim liðum vil ég geta þess, að n. lítur svo á, að það sé ekki verkefni landbúnaðarn. að bera fram till. um slíkar áætlanir. Vil ég beina því til hv. landbn., að hún taki þessar till. aftur, og mun fjvn. taka þær til nýrrar athugunar til 3. umr.

N. getur ekki fallizt á XXXVI. brtt., frá hv. þm. Ak.

N. er lítið kunnugt um það erindi, sem hv. 1. þm. Árn. flytur í XXXVII. till. Ég vil aðeins geta þess, að Búnaðarfélag Íslands hefir á undanförnum árum styrkt þessa fræðslu af ríkisins hálfu. N. getur ekki mælt með þessari till.

Það ræður af líkum, að n. getur ekki mælt með till., sem hv. 3. þm. Reykv. og fleiri bera hér fram, þar sem n. leggur til, að þessi liður verði felldur niður og þessi stofnun, vinnumiðstöð kvenna, eigi að kosta sig sjálf. Sömuleiðis leggur n. á móti síðari liðnum í þessari till.

Þá hefir hv. þm. V.-Sk. borið fram till. um 2 þús. kr. styrk til þess að ljúka við fyrirhleðslu Skálmar í Álftaveri, gegn 1/3 annarsstaðar að. Ég vil geta þess um þá till., að þar stendur svipað á og um till., sem hv. 1. þm. Árn. hefir borið hér fram, að Búnaðarfélag Íslands hefir með höndum eftirlit með slíkum störfum og hefir veitt styrk til þessara framkvæmda. Ég vil beina því til hv. flm., hvort hann vilji ekki taka þessa till. aftur, svo að hægt væri milli umr. að bera þetta mál undir Búnaðarfélagið.

Þá koma 3 till. um endurgreiðslu ríkissjóðs til viðlagasjóðs. Ég fyrir mitt leyti mætti ef til vill telja vel farið, ef ríkið greiddi skuldir til þeirrar stofnunar, sem ég veiti forstöðu. Hinsvegar er n. það kunnugt um þessar till., að hún álítur, að ef þær yrðu samþ., þá gæti orðið nokkuð langur á þeim halinn, og þó sérstaklega að því er snertir brtt. hv. þm. G.-K. Hún gæti orðið til að skapa allhættulegt fordæmi. Það væri vitanlega gott fyrir Búnaðarbankann, ef ríkið tæki að sér að borga slíkar skuldir, en eins og allir skilja, er ómögulegt að ganga inn á þá braut.

Þá er XLIII. till., frá hv. þm. Mýr., þar sem lagt er til að hækka framlagið til slysavarna um 7 þús. kr. og verja þeirri upphæð til símalagningar að Hjörsey og Straumfirði á Mýrum. Ég veit, að þetta orðalag þykir ýmsum broslegt. Sú aðferð, sem venjulega er höfð til að varna slysum á ýmsum stöðum, er að reisa þar vita, og það er það, sem hér ætti að gera, en ekki að leggja síma til að geta farið þá fyrst að gera ráðstafanir til hjálpar, þegar mennirnir eru að farast. Er hætt við, að sú hjálp kæmi oft nokkuð seint. Fjvn. getur ekki fallizt á að veita fé til þessarar símalagningar með þessum hætti. Þessi símalína á vitanlega að koma í sambandi við aðrar símalagningar, en ekki slysavarnir, en ef á að leiðbeina skipum á þessum slóðum, þá á það að koma í sambandi við vitamál.

Fjvn. getur ekki mælt með XLIV. till., og ekki heldur XLV., þó að einn af fjvnm. flytji hana. Fyrir n. lá erindi frá biskupi, þar sem bann gat ekki fallizt á þessa hækkun. Aftur á móti getur n. fallizt á varatill. hv. þm. V.-Húnv. nr. XLVI.

XLII. till., frá hv. þm. Barð., er tekin aftur. N. getur fallizt á XLVIII. till., frá hv. þm. Dal. KLIX. till. er tekin aftur.

N. fellst ekki á L. till., að kaupa læknisbústað Reykhólalæknishéraðs, og ekki heldur næstu till., að kaupa kvikmynd af Lofti Guðmundssyni. Aftur á móti verður hún samræmisins vegna að fallast á till. frá hv. þm. N.-Ísf., LII. till.

N. getur ekki mælt með að veita Ásmundi Sveinssyni 10 þús. kr. lán til að reisa sér vinnustofu.

Þá eru brtt. við 22. gr. N. hefir athugað till. hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Seyðf. og getur ekki fallizt á þær eins og þær liggja fyrir. Hv. flm. segja um Eskifjarðarábyrgðina, að það sé endurveiting, en skilmálarnir í meginmáli till. eru alls ekki þeir sömu og áður. Áður var t. d. gert ráð fyrir sýsluábyrgð, en nú hefir það verið fellt niður. Ef till. væru teknar aftur, mundi n. taka þær til athugunar milli umr.

N. treysti sér ekki til að mæla á móti till. frá hv. þm. N.-Ísf. um að ábyrgjast lán til Djúpbátsins. Hér er um endurveitingu að ræða, sem n. vill ekki mæla á móti.

Sömuleiðis getur n. fallizt á að ábyrgjast lán fyrir Ísafjarðarkaupstað og Eyrarhrepp til rafvirkjunar, en vill tilskilja, að það sé innanlandslán. N. er kunnugt um, að byrjað er að safna fé í þessu skyni, og fellst því á þessa lánsheimild með þessum skilmálum, og með sömu skilyrðum getur n. mælt með VIII. till. á þskj. 306, frá hv. þm. V.-Sk.

Aftur á móti vill n. ekki mæla með till. um hliðstæða ábyrgð fyrir Hólshrepp. Mér er sagt, að hv. 1. þm. Eyf. hafi tekið sína till. aftur, og þarf ég því ekki að minnast á hana.

Þá eru till. á þskj. 306. N. getur ekki mælt með till. hv. þm. V.-Sk. og fleiri hv. þm., um náms- og utanfararstyrki. Ég vil geta þess, að það var mjög eftirtektarvert, sem hv. þm. V.-Sk. sagði um þetta nám í Þýzkalandi, þar sem hann upplýsti, að nám þar kostaði um 450 kr. á mánuði. Það er ekkert vit í því fyrir þjóðfélagið að kosta marga menn til náms, sem er svo gífurlega dýrt. (LH: Hér er aðeins um eitt ár að ræða). Því miður hefir það oft verið svo, að samþ. hefir verið lokagreiðsla til eins eða annars manns, og næsta ár er aftur samþ. lokagreiðsla honum til handa, og þriðja árið fær hann enn lokagreiðslu. Ég hygg, að þannig sé ástatt um suma af þeim, sem hv. þm. bera nú fram till. um, að þeir hafi áður fengið styrk til að ljúka námi.

Hv. þm. V.-Sk. ber fram till. um að veita einn nýjan styrk til dýralækninga. Slíkar till. koma alls ekki á óvart. Fyrir n. hafa legið margar till. um þetta. Ég hefi upplýst, að líkt stendur á um 5 menn, sem hafa verið á námsskeiði hjá Búnaðarfélaginu. Það má því gera ráð fyrir, að ef farið er að samþ. slíka styrki, þá rigni niður mörgum slíkum styrkbeiðnum, sem geta átt alveg eins mikinn rétt á sér. N. telur því ekki með nokkru móti fært að ganga inn á þessa braut og leggur því á móti till., því að hér er ekki eingöngu um þennan eina mann að ræða, heldur einnig um 10—20 menn aðra, sem áreiðanlega koma á eftir.

Hv. 1. þm. Árn. upplýsti það viðvíkjandi 5. till., sem n. var ekki kunnugt, þegar hún fjallaði um þessa till., að í raun og veru hefði verið gefin heimild til þessa áður, og mun það hafa verið í fjárl. fyrir 1929, en þessu ekki komið í verk vegna einhverrar gleymsku eða framkvæmdaleysis. Eftir þeim gögnum, sem lágu fyrir n., var ekki hægt að sjá þetta, og mætti ath. málið betur milli umr. Skilst mér, að ekki þurfi einu sinni að fá samþ. þingsins, heldur megi koma því í kring með því að fara skrifstofuleiðina. Mér er kunnugt um, að í mörgum slíkum tilfellum hefir þannig verið farið að.

Hv. 2. þm. Rang. ber fram till. um að veita Pétri Sigurðssyni 3500 kr. N. fékk þær upplýsingar, að þessi maður, sem er alls góðs maklegur, er á launum hjá stórstúkunni (SvbH: Aðeins smáþóknun.) og telur rétt, að hún ráði sjálf launum starfsmanna sinna. N. getur því ekki mælt með þessari till.

VII. till. er frá hv. þm. Vestm., að veita Halldóri Brynjólfssyni blinda 350 kr. N. álítur, að það standi alveg sérstaklega á um þann mann, eins og hv. þm. upplýsti, þar sem hann hefir verið blindur í 4 áratugi og alltaf séð fyrir sér og sínum, og álítur því, að ekki sé hægt að mæla á móti því, að hann fái þennan styrk.

Um VIII. brtt. hefi ég talað áður.

Þá hefi ég ekki fleira að segja f. h. n., en vil aðeins endurtaka þá ósk, að hv. d. vilji í aðalatriðunum halda sér við það, sem n. hefir lagt til.