06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

111. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Hannes Jónsson):

Mér finnst dálítið hæpið að slá því föstu, að þó að hækkað yrði útflutningsgjald af beinum, þá myndi verðið innanlands lækka mikið. Mér finnst, að miklar líkur séu til, að verksmiðjurnar geti keypt, ef þær ykju framleiðsluna, þennan 1/3 hluta, sem nú fer til útlanda, jafnháu verði og þá 2/3 hluta, sem þær kaupa nú. Ég veit það a. m. k. með frystihúsin, að því meira, sem fæst í þau, því ódýrari verður geymslan, og það skiptir afarmiklu máli, að hægt sé að fá í þau tvísvar. Það munar miklu á hvert kíló af kjöti. Tilkostnaðurinn minnkar, og vextirnir eru ekki hærri fyrir það, þó að framleiðslan tvöfaldist. Ég er yfirleitt ekki það trúlítill á þessa framleiðslu, að farið verði beinlínis að okra, þó að aðstaðan verði ögn betri. En hv. þm. G.-K. þekkir þetta sjálfsagt betur en ég; ég hefi bara ekki ástæðu til þess að búast við slíku.

Út af því, sem hv. þm. sagði, að það skipti allt öðru máli um útflutningsgjald á kjöti, þá er því til að svara, að það er afskaplegt óréttlæti, að nokkur hluti þess sé tollaður, en hinn ekki. (ÓTh: Það, sem neytt er innanlands?). Já, og það er alls ekki svo lítill hluti. Þeir, sem verða að byggja á útflutningi, eru miklu verr settir en þeir, sem búa að innlenda markaðinum. Þetta er lítt viðunandi. En þrátt fyrir allt, þá er varhugavert að ganga inn á að afnema útflutningsgjald af kjöti, eins og nú standa sakir.

Ég vil svo ekki fara lengra út í þetta að sinni. N. hefir komið sér saman um að verða við beiðni hv. þm. um að taka brtt. bæði við þetta mál og næsta mál á dagskrá aftur til 3. umr., svo að n. geti rætt við hv. þm. út af þessu, og vænti ég, að hv. þm. Vestm. geri slíkt hið sama.