14.03.1933
Efri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

95. mál, alþýðuskóla á Eiðum

Flm. (Páll Hermannsson):

Það stendur þannig á frv. þessu, að skólastjórinn á Eiðum hefir farið fram á, að gerðar yrðu breyt. á lögum þeim, er skólinn starfar eftir. Nú þótti gleggra, þar sem lögin voru ekki löng, en áður í tvennu lagi, að semja þau um, steypa þeim í eina heild, heldur en að fara að auka við nýjum viðbæti, svo þau yrðu í þrennu lagi.

Hér er ekki um neinar stórvægilegar breyt. að ræða. Aðalbreytingarnar frá gildandi lögum eru tvær. Fyrst, að niður falli ákvæðin um verklegt búnaðarnám við skólann. Eins og kunnugt er starfaði búnaðarskóli á Eiðum áður en ungmennaskólinn var stofnaður; mun því þetta ákvæði um verklegt búnaðarnám vera leifar frá þeim tíma. Reynslan hefir nú sýnt, að þessi verklegu námskeið við skólann voru alltaf frekar illa sótt, og í seinni tíð voru þau alls ekkert sótt og því ekki framkvæmd. Skólastjórinn telur því rétt að fella niður þessi ákvæði laganna, um hin verklegu námskeið, þar sem þau hafa enga þýðingu.

Hin aðalbreyt. frá núgildandi lögum um skólann er sú, að hér er farið fram á, að skólatíminn verði styttur frá því, sem nú er. Nú er skólaárið frá 20. okt. til 10. maí. Það þykir þegar hafa komið í ljós, að skólaslit 10. maí séu of seint. Hið fátæka námsfólk, sem skólann sækir, þarf að geta komizt í atvinnu sem fyrst að vorinu. Þetta hefir Alþingi líka viðurkennt, er sett voru lögin um héraðsskóla. Hér er því lagt til, að skólaárið verði líkt og í héraðsskólunum, eða frá 20. okt. til fyrstu sumarhelgar. Kemur þessi breyt. til með að stytta skólaárið um 2—3 vikur.

Hér eru ekki tekin upp ákvæðin um afhending Eiðaeignar, þar sem hér er aðeins um að ræða framtíðarstarfsreglur fyrir skólann. Hitt er greinilegt í eldri lögum, á hvern hátt Eiðaeignir afhendist ríkissjóði og með hverjum skilyrðum. — Legg ég svo til, að frv. þessu verði að umr. þessari lokinni vísað til 2. umr. og menntmn.