08.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (2577)

95. mál, alþýðuskóla á Eiðum

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Menntmn. hefir athugað þetta frv. og mælir með því, að það verði samþ.

Í grg. frv. er það tekið fram, að það sé flutt að tilstuðlan skólastjórans á Eiðum. Breyt. eru ekki stórvægilegar og skipta ekki miklu máli. Helztu breyt., sem skipta máli, og þó ekki miklu, eru þessar:

Í fyrsta lagi breyt. á skólatímanum, að stytta skólaárið. Nú er það frá 20. okt. til 10. maí, en í frv. er gert ráð fyrir, að það sé frá sama tíma að haustinu til fyrstu sumarhelgar. Þetta er gert til þess, að nemendur tapi vinnu styttri tíma að vorinu vegna skólanámsins. Mun þessi tími vera í samræmi við það, sem er í öðrum alþýðuskólum.

Þá er svo ákveðið í 1., að haldið skuli við skólann búnaðarnámsskeið haust og vor. Þessi námskeið hafa ekki verið svo vel sótt sem skyldi, svo að vandkvæði hafa verið á að halda þeim uppi. Þess vegna er farið fram á í frv., að ekki sé skylda að halda þessi námskeið, heldur sé aðeins heimild til að halda vornámskeið.

Um námsgreinar er farið fram á þá breyt. í frv., að í stað þess, að danska er nú skyldunámsgrein, skuli svo ákveðið, að eitt af Norðurlandamálunum skuli vera skyldunámsgrein í skólanum, og gæti þá verið valin danska eins fyrir því eins og hvert annað af Norðurlandamálunum.

Eiðaskóli hvílir á stofnl. frá 1917 og breyt., sem gerðar voru á þeim 1. 1921. Í stofnl. er einskonar samningur milli fyrrv. eigenda skólans, Múlasýslnanna, og ríkisins. Múlasýslur ráku þarna búnaðarskóla með styrk frá ríkissjóði. Sýslurnar lögðu niður búnaðarskólann og þá féll af sjálfu sér niður krafan um ríkisstyrk — og afhentu eignir skólans, sem voru allverulegar — nál. 100 þús. kr., ef ég man rétt —, til ríkisins, en ríkið tók að sér að reka þarna alþýðuskóla, samkv. því, sem segir í stofnlögunum.

Nú segir í 9. gr. þessa frv., að hvortveggja lögin séu úr gildi felld, stofnlögin 1917 og breyt. 1921. Hv. flm. hefir tjáð mér, að þótt að forminu til væru felld úr gildi þessi lög, þá væri það hugsun sín og annara, sem að flutningi frv. stæðu, að jafngildur fyrir báða aðilja væri eftir sem áður sá samningur, sem geymist í stofnl., þótt hann sé ekki ítrekaður í þessu frv. Hin nýju lög tækju þá aðeins til rekstrar skólans.

Ég sé, að eftir að málið var afgr. frá n. hafa komið allfyrirferðarmiklar brtt. á þskj. 566 frá hv. 1. þm. S.-M. En þegar á brtt. er litið í heild, þá kemur í ljós, að brtt. eru í raun og veru aðeins um formsatriði, en ekki efnisbreyt. Og ég hygg, að ég megi segja fyrir hönd n., að hún sjái ekki beina ástæðu til að leggjast á móti þessum till., þótt hún telji þær ekki nauðsynlegar, enda eru þær að engu leyti efnisbreyt. Fyrir flm. brtt. mun vaka aðeins það, að skeyta frv. að því leyti, sem í því eru efnislegar breyt., við hin upphaflegu stofnlög. Teldi ég bezt farið, ef brtt. verða samþ., að svo yrði ákveðið, að fella texta frv. inn í stofnlögin og gefa þau út í heild, til þess að lagaákvæða um skólann væri ekki að leita nema í einu lagi.