08.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

95. mál, alþýðuskóla á Eiðum

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Ég get ekki fundið, að það sé neinn efnislegur ágreiningur um þetta mál, og þar af leiðandi skiptir í raun og veru ekki miklu máli, hvort brtt. eru samþ. eða ekki. Ég fyrir mitt leyti hefi í sjálfu sér talið óþarft að bera brtt. fram, því ég álít, eins og hæstv. atvmrh., að samningsatriði stofnlaganna séu jafnvel geymd, þó þau séu ekki ítrekuð í þessum lögum. Hinsvegar þykir mér réttara að samþ. brtt., úr því þær eru komnar fram og heyrzt hefir rödd um, að draga megi í efa, hvort stofnákvæðin séu í gildi eftir sem áður, ef frv. er samþ. óbreytt. Mér finnst það að vísu ekki nein prýði á frv., fremur en hæstv. ráðh., en ég get ekki fundið, að það sé nein veruleg óprýði að því heldur. Það mætti a. m. k. finna mörg sambærileg lög í löggjöf okkar, sem mundu verða höfð talsvert öðruvísi, ef þau væru endurnýjuð alveg, enda gilda hér ýms æfagömul lög, sem ekki eru einusinni sett af Alþingi, heldur með konungsbréfi eða tilskipun.