29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (2634)

130. mál, kaup hins opinbera á jarðeignum

Páll Hermannsson:

Ég skal játa það, að hv. 2. landsk. er laginn stjórnmálamaður og kann að nota heppileg tækifæri til framdráttar stjórnmálaskoðunum sínum. Þó að ég hafi þetta álit á hv. þm., er ekki þar með sagt, að sú hafi verið ástæðan fyrir því, að hann flutti þáltill. þessa nú, að hann vildi nota sér hið erfiða ástand landbúnaðarins, sem nú ríkir. Því verður nefnil. ekki neitað, að allvíða — og þ. á. m. í hópi bænda sjálfra — hefir bólað á þeirri skoðun, sem liggur til grundvallar fyrir þáltill. þessari. Þetta þótti mér rétt að láta hv. 2. landsk. heyra hér í d., og má hann af því ráða, að ekki líta allir svo á, að þáltill. þessi sé einungis hrekkjabragð frá hans hendi.

Eins og kunnugt er, þá er um að ræða þrennskonar ábúð fyrir bændur. Í fyrsta lagi sjálfsábúð, sem er algengust. Í öðru lagi ábúð á jörðum, sem eru í opinberri eign, og í þriðja lagi ábúð á jörðum, sem eru einkaeign. Að undanförnu hefir sú skoðun verið almenn, að bezt færi á því, að hver bóndi ætti sjálfur ábýli sitt. Að þetta hafi verið ríkjandi stefna bæði hjá einstaklingum og þjóðfélaginu, sést bezt á hinni miklu sölu þjóðjarðanna. Á síðustu árum hafa svo nokkuð skipzt skoðanir um það, hvort betra muni fyrir bændur að búa á eignarjörð eða jörð, sem væri opinber eign, og því verður tæplega neitað, að sú skoðun hafi frekar farið í vöxt, að heppilegra myndi fyrir bændur að vera í leiguábúð hjá hinu opinbera heldur en rogast undir stórskuldum vegna ábýla sinna. Ég verð því að telja fyllilega réttmætt, að mál þetta sé athugað í nefnd.

Ég mun alls ekki á þessu stigi málsins fara að ræða það í einstökum atriðum, og það því síður, þar sem ég á sæti í n. þeirri, sem sennilega fær það til meðferðar. Þó get ég ekki varizt því, að láta mér detta í hug, að ábúð á sjálfseign sé ekki svo mjög ákjósanleg, ef sú verður reynslan, þegar á reynir, að þeir kvarti minna, sem á þjóðjörðum búa, heldur en hinir, er búa á sínum eigin jörðum. Mér er það að sjálfsögðu ljóst, að margir þeir, sem eignarrétt hafa á jörðunum, hafa lagt í mikinn kostnað vegna umbóta á þeim og stynja nú undir þeirri byrði. Hvort úr því rætist þegar þær þrengingar hverfa, sem svo mjög þjaka landbúnaðinn nú, er engin vissa. Tel ég sjálfsagt, að mál þetta gangi til landbn. til nákvæmrar athugunar.