02.05.1933
Efri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

80. mál, dýralæknar

Jón Jónsson:

Ég hefi, eins og frsm. tók fram, skrifað undir nál. með fyrirvara, sem ég ætla að gera nokkra grein fyrir.

Eins og augljóst er af frv., er hér farið fram á að stofna nýtt embætti, m. ö. o. að bæta árlega útgjöldum á rekstrarreikning ríkissjóðs. Það er alltaf ástæða til að hugsa sig tvísvar um áður en bætt er á ríkið föstum gjöldum, jafnvel þótt í smáu séu. Sérstaklega á þetta við nú á þessum örðugu tímum, og þá frekast um þau útgjöld, sem hætt er við, að leiði af sér enn meiri útgjöld. Það væri nú sök sér um þetta embætti, ef ekki þyrfti að búast við, að annar kostnaður flyti í þess far.

Nú skal ég að vísu játa það, að eins og nú stendur er ríkari þörf fyrir dýralækni austanfjalls en viða annarsstaðar. Þó er svo ástatt um vesturhluta Norðurlands, Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu, að þar er enginn dýralæknir. Næsti dýralæknir er á Akureyri, svo að þarna er ekki lítið svæði, sem er verr sett en þau héruð, sem um er að ræða í frv.

Annars hafa verið hér uppi tvær stefnur viðvíkjandi dýralæknum. Önnur er sú, að varla væri hægt að hafa fleiri dýralækna en það, að allir landsbúar gætu leitað til þeirra ráða í síma. Hin er sú, að hægt sé að ná í þá til að stunda einstaka gripi. En slíkt er of kostnaðarsamt miðað við það verðlag, sem er á okkar peningi. Þess vegna hefir skotið upp þeirri skoðun, að það gæti verið ástæða til að koma á fót einskonar námsskeiðum í meðferð á algengustu búfjársjúkdómum. Þessi skoðun virðist hafa nokkurt fylgi, og það hjá dýralæknum landsins.

Þar sem svona er ástatt um skipun dýralækna í landinu og um skoðun manna á þessu máli, þá virðist mér ekki óeðlilegur sá gangur málsins, að ríkisstj. sé falið þetta mál til athugunar og að hún hafi lagt niðurstöðuna af sinni athugun fyrir næsta þing. Þetta virðist mér því frekar ástæða til að gera, þar sem þannig er háttað, að mér vitanlega er enginn dýralæknir til í það embætti, sem nú á að stofna. Því að þeir tveir menn, sem hv. frsm. gat um, munu varla verða tilbúnir alveg á næstunni. Hugsazt gæti, að því minni væri þörf fyrir lækni á Austfjörðum en hér, að flytja mætti hann til og spara embættið. Þetta vil ég þó ekki fullyrða. En sem sagt, mér finnst það eðlilegt, að ríkisstj. sé falin athugun málsins til næsta árs. Ég geri ekki að kappsmáli að flytja slíka till. við þessa umr., en hugsa til þess við 3. umr. Er sá frestur fyrir ósk hv. þm. Árn., sem flytur frv.