10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

1. mál, fjárlög 1934

Halldór Stefánsson:

Ég leyfi mér að bera fram aðeins eina brtt. við fjárl. við þessa umr., XI. brtt. á þskj. 366, til Úthéraðsvegar 6000 kr. Ég bar fram nokkrar till. við 2. umr., sem allar hnigu eingöngu í þá átt að bæta lítilsháttar tillagið til nýbyggingar þjóðvega. Ég tók þá þessar till. aftur í samráði við fjvn., og hún tók þær til athugunar á milli umr. og hefir nú borið fram till. nokkuð í þá átt, sem mínar till. fóru fram á, en þó ekki að fullu eins og mínar till. voru við 2. umr. Ég er þakklátur n. fyrir það, sem hún tók til greina og hefir borið fram till. um að þessu leyti, en ég þykist ekki geta komizt hjá því að bera fram lítilsháttar viðbót við till. n. og það er þessi viðbót, þessi Úthéraðsvegur, sem n. hefir ekki séð sér fært að leggja með í till. sínum. Ég get getið þess, að það er að vísu meira, sem n. felldi niður af till. mínum við 2. umr., en til miðlunar og samkomulags við n., þá lét ég niður falla að ítreka till. mínar, nema aðeins að þessu eina leyti. Ég get vísað til þess að mestu, sem ég sagði um þörfina á þessum vegi við 2. umr. Annarsvegar er það hin brýna þörf til samgöngubóta í héraðinu, hinsvegar er þetta að nokkru leyti hugsað sem lítilsháttar atvinnubótavinna fyrir þá menn, sem þarna gætu komizt að til vinnu, og það er alveg í samræmi við hugsun n. og stefnu í sínum till. í vegamálunum, að dreifa fénu, sem fram er lagt, sem allra mest um landið, þar sem þarfirnar eru, en þær eru svo að kalla alstaðar. Þegar litið er á ýmsar till., sem samþ. voru við 2. umr., og á ýmsar þær till., sem hér liggja fyrir við þessa umr., og á ég þar við flestar hinar smærri till., sem fara fram á að veita lítilsháttar fé til einstakra manna eða persónulegar fjárveitingar, sem á alþýðumáli eru oft kallaðir bitlingar, þá trúi ég því vart, að hv. d. geti fellt svona hóflega, litla till. til samgöngubóta í einu stóru héraði landsins, sem jafnframt gæti orðið til atvinnubóta fyrir héraðið. Það eru að vísu fáir, sem heyra mál manna, sem hér tala, en ég hygg, að tilfinning hv. dm. tali fyrir því, að draga nú sem allra minnst úr því fé, sem veitt er til umbóta á högum almennings, og að það sé ekki þrengt svo að, að menn fari að fella svona litla till., því að ég hygg að segja megi um þessa till., að fjárhagur og afkoma ríkissjóðs veltur ekki á því, hvort hún er spöruð eða ekki, en hag þeirra manna og héraðsins, sem hlut eiga að máli, dregur það miklu meira.