05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

80. mál, dýralæknar

Magnús Torfason:

Af sérstökum ástæðum tók ég ekki þátt í umr. síðast um þetta mál, og var því þá samkv. beiðni minni hleypt til 3. umr., og er mér skylt að þakka það. Nú er komin fram rökst. dagskrá frá hv. 3. landsk. En þau rök, sem hann ber fram, hafa ekki getað sannfært mig um, að ástæða sé til þess að stöðva málið. Ég er í engum vafa um það, að þó að þingið legði til, að athuguð yrði skipun dýralækna, þá yrði ekki hreyft við því, að dýralæknir yrði settur fyrir austan fjall. Við megum ekki gleyma því, að þetta mál er ekki aðeins um skipun dýralækna, heldur er það heilbrigðismál, alls ekki lítilsvert heilbrigðismál, og áhrif þess og þýðing mundi aukast með hverju ári. Ég sé ekki betur en að það gæti orðið til þess að auka stórum reynslu dýralæknanna hér á landi, að þarna verði sett á stofn dýralæknisembætti. Eins og við vitum, hafa dýralæknar mörg störf á hendi, sem ekki koma dýralækningum við, mörg störf, sem hafa hamlað því, að þeir gætu sinnt sínum eiginlegu störfum. Ég þarf ekki að taka það fram við hv. þdm., hversu brýn þörf er á því, að undinn sé bráður bugur að því að fagmenn geti kynnt sér dýralækningar. En þess er nú ekki kostur. Aftur á móti hefði þessi dýralæknir austur frá aðeins þeim eiginlegu dýralæknisstörfum að sinna; þar er ekkert, sem glepur hann frá þeim. Og þarna er svo margt húsdýra, að vænta má, að dýralæknirinn mundi fá miklu meira efni og fleiri skepnur að vinna úr heldur en kostur er á annarsstaðar, þar sem stofnuð hafa verið slík embætti. Ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um það, að ef stofnað yrði þetta nýja dýralæknisembætti, þá myndi það verða til þess að auka stórum þekkingu og kunnáttu á þessu sviði.

Eftir því sem meðferð á búpeningi hefir batnað, eftir því hefir orðið kvillasamara. Því ber ekki að neita, að horinn hafði það gott í för með sér, að hann drap allan þann fénað, sem óhraustur var. Það hraustasta lifði af. En nú á tímum, eftir að menn eru farnir að gera betur við skepnurnar, er sú vörn fallin burtu. Þess vegna fara nú sjúkdómar í húsdýrum óðfluga vaxandi með hverju ári, sem líður, og breiðast mikið út. Sem dæmi má nefna ormaveikina, sem Suðurland var áður laust við, en er nú farin að gera vart við sig og hefir veitt ýmsum þungar búsifjar upp á síðkastið. Ég kenni þetta m. a. aðfluttu fé, sem fengið hefir verið til kynbóta. Vitanlega liggja til þessa líka aðrar ástæður, en breyttir lífshættir þessa fénaðar hafa valdið miklu um fjölgun sjúkdómanna.

Loks vildi ég, að menn gleymdu því ekki, að hér er ekki aðeins um hagkvæmt mál að ræða, heldur einnig mannúðarmál gagnvart húsdýrunum. Áður var farið mjög illa með húsdýr. Þetta hefir breytzt, sem betur fer, til batnaðar á síðari árum, þó að enn skorti mikið á, að vel sé. Þetta frv. er spor í rétta átt.

Að endingu vil ég geta þess, að allir þeir, sem kunnáttu hafa til að bera um þetta mál, hafa eindregið mælt með þessu, ekki sízt þeir, sem að dýraverndun standa hér á landi. Það hefir verið talað um að koma hér á dýralæknanámsskeiði. Hvergi er til þess heppilegri staður en þarna austur frá.

Vona ég svo, að hv. d. sýni máli þessu fulla sanngirni og sjái sér fært að samþ. frv.