10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

1. mál, fjárlög 1934

Magnús Jónsson:

Ég er meðflm. að 2 till. að þessu sinni og skal tala fáeinum orðum fyrir þeim. Önnur till. er á þskj. 366 undir XXXI., um að veita nokkurn styrk til Sambands íslenzkra karlakóra. Það hefir komið fyrir áður, að það hafi verið veittur lítilsháttar styrkur til þess að hjálpa karlakórum til þess að hafa kennara og það er í framhaldi af því, að þessi till. er borin fram af okkur 3 þm. Reynslan er sú, að það sýnist ekki vera nokkur grein hljómlistarinnar, sem liggur betur fyrir Íslendingum en kórsöngur, sem meira hefir verið stundaður en blandaður kór. Það er hvorttveggja, að karlakórsöngur hefir reynzt vinsæll hér á landi, hvort heldur í söngsal eða í útvarpi, og líka þegar þessir karlakórar hafa farið til annara landa, hafa þeir vakið á sér töluvert mikla eftirtekt. Er það meiri vinna en almennt er álitið, sem þessir menn leggja á sig, og auk þess hafa þeir lagt á sig mikinn kostnað. Þessi félög eiga við tvö vandamál að fást. Fyrst það, að fá samsönginn svo fullkominn sem auðið er, og svo hitt, að gera einstakar raddir svo þjálfaðar sem með þarf, til þess að söngurinn geti orðið sem fullkomnastur. Ef þessi félög eiga að geta aflað sér orðstírs í útlöndum, verður þetta að vera svo, fullkomið sem frekast er unnt. Ef þau ættu kost á því að veita meðlimum sínum nokkra kennslu, gætu þau eflaust náð all-miklum hróðri í öðrum löndum, þar sem sönglist stendur annars á háu stigi. Og þó að þessi styrkur fengizt, ætlar Samband ísl. karlakóra ekki þar með að varpa af sér öllum skyldum, því að það ætlar að leggja fram jafnmikið fé sjálft, og eins ætlar það sér að hafa í þjónustu sinni bezta söngkennara, sem völ er á, til þess að fara á milli félaganna og kenna mönnum.

Höfum við í till. farið fram á 3500 kr. eða 3000 kr. til vara. Þetta er ekki nema helmingur af kostnaðinum við það að hafa 1 söngkennara í þjónustu sambandsins.

Hin till. mín o. fl. þm. er á þskj. 376 og er þar 15. till., um vinnumiðstöð kvenna. Við, þessir sömu þm., bárum fram samskonar till. við 2. umr., og var hún felld. Höfum við nú lækkað upphæð þá, sem farið er fram á, úr 2000 kr. niður í 1600 kr., og höfum tekið aftur orðin: „gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar að“. Hefir undanfarið mikið verið rætt um atvinnuleysið og talsvert fé verið lagt fram, til þess að bæta úr því. En fyrsta og sjálfsagðasta ráðið er þó að reyna að útvega sem flestum þá atvinnu, sem fyrir hendi er. Þessi till. gengur nú einmitt í þá átt. Þetta hefir líka verið viðurkennt með því, að í þessu skyni hefir verið veitt nokkur upphæð af atvinnubótafé. Það sem hér um ræðir er það, að sett hefir verið á stofn nokkurskonar ráðningaskrifstofa fyrir stúlkur, er vilja fara í vist. Hér hafa undanfarið nokkur þúsund stúlkur haft atvinnu af því að vinna í húsum. Það er oft svo, þegar heimili vantar vinnukraft og stúlka þarf að fá vinnu, að vinnusali og vinnukaupandi ná ekki saman. Úr þessu hefir skrifstofan bætt að mjög miklu leyti, og hefir árangurinn af starfi hennar orðið meiri en nokkurn óraði fyrir í upphafi. Hér liggja fyrir skýrslur um þetta. Vinnutilboð hafa verið 1466 allt starfsárið. Ráðningar, sem skrifstofan hefir annazt, voru um 1100. Þegar ekki er um annað að ræða en venjulega víst og hinsvegar venjulegan vinnusala, þá er hægt að ná saman með auglýsingum og öðru. En þegar um sérstök tilfelli er að ræða, vinnu stuttan tíma, íhlaupastörf, ræstingu á herbergi eða aðra þvotta, þá er nauðsynleg einhver miðstöð, þar sem báðir aðiljar geta fundizt. Slík atvinna, svokölluð dagvinna, hefir verið útveguð í 293 tilfellum. Þó er langt frá, að þessar ráðningar hafi eingöngu komið Reykjavík að gagni. Hefir hún orðið mikil hjálp í því að útvega vinnukonur á sveitaheimili. Hafa farið fram 240 slíkar ráðningar á starfsárinu, 189 á sveitaheimili úti um land og 51 á heimili í umhverfi Rvíkur. Það getur líka komið fyrir, að stúlka leiti sér vinnu, en sé svo veikluð, að um sérstök störf sé að ræða, er hún geti afkastað á fullnægjandi hátt. Verður þá slíku bezt til lykta ráðið á ráðningaskrifstofu. Hefir reynslan sýnt, að vinnumiðstöðin gat í mörgum tilfellum leyst úr slíkum þörfum.

Því má auðvitað halda fram, að slík vinnumiðstöð sem þessi ætti að geta borið sig sjálf. En reynslan hefir sýnt, að erfitt er að koma því svo fyrir. Ef leggja á gjöld á þá, sem leita til miðstöðvarinnar, þá verður það ekki til annars en þess, að fólk hættir að leita þangað. Hér hagar líka svo til, að oft er erfitt að vita, hvort það er í raun og veru vinnumiðstöðin, sem ráðninguna framkvæmir eða ekki. Veit ég um mörg dæmi þess, að stúlkur væru ráðnar af því að vinnumiðstöðin var til, án þess þó, að hún stæði beinlínis fyrir ráðningunni.

Er það áreiðanlegt, að sumir myndu vera svo smásmugulegir að skorast undan því að greiða gjaldið. Stúlkurnar myndu verða tregar á að greiða það, því að þær eru vanar því, að þeir, sem þurfa á vinnukraftinum að halda, auglýsi og beri kostnaðinn. Hefir það alstaðar reynzt svo, að ef slíkar ráðningaskrifstofur eiga að geta starfað, þá verða þær að fá fé frá því opinbera. Verður ekki um þetta deilt. Hv. d. hefir nú samþ. að veita nokkurn styrk, en hann er enganveginn fullnægjandi. Reikningar skrifstofunnar sýna, að árlegur kostnaður er að minnsta kosti 4000 kr. Hljóta þó hv. þm. að viðurkenna, að ekki er sóað fé í þessari starfsemi, eins og áætlunin sýnir. Eftir frv., eins og það er nú, á stofan ekki að fá nema 1600 kr. og þó með því skilyrði, að bærinn leggi fram tvöfalda þá upphæð.

Mun ég svo ekki fjölyrða um þetta mál, en þá finnst mér hv. d. vilja fátt gera til þess að draga úr atvinnuleysinu, ef hún vill ekki stuðla að því með þessari 600 kr. hækkun, sem hér ræðir um, að nokkrir tugir eða jafnvel hundruð stúlkna geti fengið eitthvað að gera.