18.05.1933
Neðri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (2674)

175. mál, gjaldþrot Síldareinkasölu Íslands

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Ég hefi leyft mér að bera fram fyrirspurn í þessari hv. d. vegna gjaldþrots síldareinkasölunnar og þess, hvað skeður í því máli og hvaða útlit sé fyrir að niðurstaðan verði.

Á síðasta þingi voru borin upp til staðfestingar bráðabirgðalög, sem þáv. stj. hafði gefið út til að stöðva starfsemi síldareinkasölunnar og taka bú hennar til skipta.

Ég vil drepa stuttlega á, hvað þáv. atvmrh. (TrÞ) sagði um þetta efni. Hann sagði svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Ég vil aðeins rifja það upp, sem öllum er kunnugt, að á fundi þeim, er haldinn var í nóv. 1931 til þess að kjósa stjórn síldareinkasölunnar, kom fram bráðabirgðayfirlit um hag fyrirtækisins, sem var þá þannig komið, að ég varð að líta svo á, að ekki væri líklegt, að fyrirtækið gæti staðið lengur á eigin fótum, ef það ætti að standa við allar sínar skuldbindingar gagnvart lánardrottnum. Einhver meiri eða minni skellur hlaut að verða af rekstri síldareinkasölunnar. Langsamlega hæstu kröfurnar á hendur henni átti ríkissjóður í sínum ábyrgðarskuldbindingum, og svo Landsbankinn, svo að ríkisstj. hlaut að vera hér á verði.

Að öllu athuguðu þótti sýnt, að einkasöluna mundi fyrr en seinna reka upp á sker, og þá þótti það viturlegra að gera til þess ráðstafanir strax, að upplausn hennar mætti verða á sem eðlilegastan hátt og fyrirbyggja það, að harðvítugir kröfuhafar gætu þvingað fram gjaldþrotaskipti á búi einkasölunnar og með því gert henni stóran óleik“.

Þetta eru þá þær ástæður, sem hæstv. ráðh., sagði, að hefðu legið til grundvallar fyrir þessum stjórnarráðstöfunum, sem gerðar voru í desember 1931.

Um málið var mikið rætt á þinginu, sem eðlilegt var. Þm. rifjuðu upp það, sem gerzt hafði allt frá því á Alþingi 1927, þegar einkasalan var stofnuð, og þar til í desember 1931, að stj. sá þann kost vænstan að leggja hana niður og gefa út bráðabirgðalög um það, svo að ekki hlytist af enn meira tjón.

Ég ætla ekki að þessu sinni að rifja það upp, sem sagt var um þetta á síðasta þingi, en vísa í því efni til hinnar skýru og gagnorðu ræðu hv. þm. G.-K., þar sem hann lýsir aðförum þeirra flokka, sem stóðu að lagasetningunni um síldareinkasöluna, Framsfl. og Alþfl. Þessir flokkar stóðu öll þessi ár á móti öllum þeim breyt., sem sjálfstæðismenn vildu gera. Þessi ræða er í B-deild Alþt. 1932, dálki 1150-1157.

Sú skoðun kom í ljós á síðasta þingi, að það hefði verið réttara að fara aðra leið til að gera upp bú síldareinkasölunnar en að skipa þessa skilanefnd. Ennfremur kom það í ljós, að menn álitu, að þeir menn, sem skipaðir voru til þess að vera í skilanefndinni, hefðu ekki allir það traust, sem æskilegt væri, að þeir menn hefðu, sem áttu að vinna úr gögnum þeim, sem fyrir hafa legið, og koma í peninga reytum einkasölunnar. Þessar aðfinnslur koma þegar fram á þingi í fyrra, og ennfremur var fundið að því af hálfu okkar sjálfstæðismanna, að skilanefndin væri farin að ganga út á þá braut í síldarverkun, sem sé afvötnun, sem Alþingi hefir nú lýst vanþóknun sinni yfir, a. m. k. þessi d., með því að banna útflutning afvatnaðrar síldar.

Það varð þegar ljóst á því þingi, að tap ríkissjóðs yrði mikið vegna ábyrgða og ógreiddra tolla, og svo stórmikið tap óbeint, og hæstv. ráðh. lýsti því yfir, að stj. hefði orðið að grípa þar inn í, áður en tapið hefði orðið enn meira. Tölur voru ekki nefndar nema sem ágizkanir, en í Ed. sagði hv. 2. landsk., Jón Baldvinsson, að tapið gæti tæplega orðið meira en 1200 þús. kr. Enn er dulið, hvað þetta tap hefir orðið mikið, hvað tap ríkissjóðs hefir orðið mikið og hvað samanlagt tap einkasölunnar hefir orðið.

Þá kemur það einnig til greina, hvað lánardrottnar síldareinkasölunnar hafa orðið fyrir miklu tapi. Í því sambandi má minna á frv. það, sem liggur fyrir þessari d. og flutt er af hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. Seyðf., um greiðslu á víxilskuldum á Austfjörðum vegna Síldareinkasölu Íslands, þar sem þeir fara fram á, að greitt verði af forgangskröfufé ríkissjóðs í bú síldareinkasölunnar andvirði víxla þeirra með áföllnum kostnaði, sem einkasalan hefir ábyrgzt fyrir síldareigendur á Austfjörðum 1931. Í grg. er skýrt frá því um leið og bent er á, hvað keyrt hafi fram úr hófi árið 1931 með misrétti við viðskiptamenn síldareinkasölunnar, að á Austurlandi hafi enginn útgerðarmaður fengið eyrisvirði út á síldina, en útgerðarmenn hafi, eftir að síldareinkasalan ábyrgðist greiðslu á bankalánum í þessu skyni, tekið víxla í útibúum bankanna þar eystra fyrir 80-90 þús. kr., sem voru samþ. af síldareigendunum sjálfum í trausti greiðslutryggingar einkasölunnar, en hún hafi brugðizt, og nú séu útgefendur og samþykkjendur þessara víxla lögsóttir af bönkunum um greiðslu á víxlunum. Þetta frv. kom fram á öndverðu þingi, og síðan hefi ég ekki heyrt á það minnzt. Sennilega er hér að ræða um eina af kröfum af hálfu lánardrottna síldareinkasölunnar, sem óleyst er úr, hvernig fara muni um.

Það kann að vera, að í hugum sumra manna sé farið, að fyrnast ýmislegt af því, sem fór fram meðan síldareinkasalan var í blóma. En hjá útgerðarmönnum, sjómönnum og öðrum þeim, sem urðu beinlínis fyrir tjóni af ráðsmennsku þeirra manna, sem að einkasölunni stóðu, er þetta mál ófyrnt enn. Þess vegna eru þær kröfur okkar útgerðarmanna réttlátar, að það komi skýrt fram í dagsins ljós, sem gerzt hefir við stjórn einkasölunnar, og svo í því að greiða úr þeirri skuldaflækju, sem síldareinkasalan lét eftir sig. Ekki sízt eiga þeir menn heimtingu á þessu, sem árum saman hafa staðið hér á þingi og bent þingmeirihlutanum á — þó því væri aldrei sinnt, hvorki af framsóknar- né jafnaðarmönnum —, hvaða ófæru var stefnt út í með stofnun síldareinkasölunnar, og þó einkum með aðgerðum þingsins 1928.

Nú munu vera liðnir 17 mánuðir síðan skilanefndin var sett á laggirnar, og enn hefir ekkert birzt um það opinberlega, hver hin endanlega niðurstaða muni verða. Hinsvegar hafa menn fengið hraflupplýsingar, eins og t. d. í frv. því, sem ég gat um, og svo ýmislegt, sem menn vita um aðgerðir skilanefndarinnar, t. d. um þessa afvötnun, sem nú hefir verið bönnuð af þinginu. Þessar upplýsingar hafa menn fengið óbeinlínis; en um flest, er snertir þetta fyrirtæki, er enn allt á huldu.

Eitt fyrsta hneykslissporið í sögu síldareinkasölunnar var það, þegar forráðamenn hennar, í staðinn fyrir að semja beint við Svía, sneru sér til dansks gyðingafélags og höfðu það fyrir millilið og gerðu við það þann endemissamning, sem öllum hv. þdm. er kunnugt um og skýrt var frá í ræðu hv. þm. G.-K. á þinginu í fyrra, sem ég gat áður um. Samningurinn við þetta félag, „Brödrene Levy“, var gerður mjög snemma á starfstíma einkasölunnar. Forráðamenn hennar þrættu fyrst fyrir, að þessi samningur hefði verið gerður, en urðu þó vitanlega að viðurkenna það síðar. En það er eins og þessi hv. skilanefnd hafi litið svo á, að þetta danska félag hefði ekki fengið nóg fríðindi á sínum tíma með samningnum við síldareinkasöluna, því að þegar skilanefndin var sett á laggirnar og fór að selja eigur síldareinkasölunnar, þá voru þær eigur vitanlega helzt óseld síld og óselt salt og tunnubirgðir. Þá voru umboðsmönnum þessa sama danska firma seldar 10 þús. tómar tunnur fyrir 2 kr. hverja, þrátt fyrir það, að þá var mikil eftirspurn eftir tunnum meðal íslenzkra útgerðarmanna. M. ö. o., skilanefndin gaf þarna þessu danska firma tækifæri til að græða ennþá nokkur þúsund á Íslendingum án þess að leggja nokkurt fé í hættu. Ég hefi það fyrir satt, að þetta danska firma hafi svo selt íslenzkum útgerðarmönnum tunnurnar fyrir 3 kr., og sumpart yfir það. Hefir þá ágóði þess af þessari tunnuverzlun verið minnstur um 10 þús. kr. Mér finnst, að það hefði út af fyrir sig ekki verið úr vegi, að íslenzkir útgerðarmenn fyrir norðan hefðu fengið að sitja að þessu eins og þetta danska firma. En það er eins og það hafi verið einhver tryggð við Brödrene Levy, sem hafði gengið í erfðir til skilanefndarinnar frá stjórn hinnar margumtöluðu og illræmdu einkasölu, og þarna hafi valdið úrslitum.

Þá hefi ég líka leyft mér að varpa þeirri spurningu fram, hvaða orsakir hafi legið til gjaldþrotsins. Það kom greinilega fram í umr. á síðasta þingi, að menn óskuðu almennt eftir, að grafizt yrði fyrir það, af hvaða ástæðum einkasalan mistókst svona hrapallega. Ég vil í því sambandi minna á það, sem hv. þm. Borgf. sagði í ræðu sinni á síðasta þingi um þetta mál. Hann sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá vil ég hreyfa því í þessu sambandi, að bornar hafa verið miklar sakir á þá menn, sem haft hafa með höndum stjórn síldareinkasölunnar. Hefir verið látið svo um mælt, að ríkt hafi hin mesta óstjórn á einkasölunni á öllum sviðum. Síldareinkasölustj. hafi sýnt ófyrirgefanlegan trassaskap um vöruvöndun, látið nota lélegar tunnur og skemmt salt og verið skeytingarlaus um verkun síldarinnar. Þá hafi það og komið að miklum baga, og beinlínis valdið tjóni, hve oft það var, að vantaði bæði tunnur og salt yfir veiðitímann. Á öðrum tímum hafi hinsvegar verið hafðir svo óhæfilegir aðdrættir af hvorutveggja, að orðið hafi að geyma það til næstu vertíðar, og hafi þetta haft í för með sér mikla rýrnun og skemmdir á þessum hlutum. Þá er það og ennfremur borið á síldareinkasölustj., að hún hafi gert vítaverð innkaup, stofnað til óhófslegs kostnaðar, falsað reikninga fyrirtækisins, beitt hlutdrægni í öllum greiðslum, og auk þess hafi verið óskiljanlegt ólag á söltuninni“.

Þetta er það, sem hv. þm. Borgf. bendir á í ræðu sinni á síðasta þingi. Þessar sakir hafa verið bornar á stj. síldareinkasölunnar, og í sambandi við það mætti spyrja, hvers vegna hér hafi ekki verið farin sú leið, sem á við um gjaldþrota fyrirtæki, að fyrirskipa réttarrannsókn. Þáv. atvmrh., þm. Str., svaraði þessu því, að sér væri að vísu kunnugt um þessar ásakanir úr blöðum og ræðum, en stjórnarráðinu hefði ekki borizt beinlínis ákæra í þessu máli. Hann taldi þetta sér til afbötunar, að hann hefði skipað skilanefnd, en ekki látið þetta fara samkv. lögum. Hæstv. ráðh. minntist á það í ræðum sínum um þetta mál, að það mundi fara eftir því áliti, sem skilanefndin á sínum tíma skilaði, hvað stj. gerði í þessu efni.

Úr þessu er svo óleyst enn, eftir því sem ég bezt veit. Það hefir ekkert verið birt um það og ekkert álit komið fram frá skilanefndinni eftir þetta 17 mánaða starf. Þetta hlýtur þó að koma allt í ljós á sínum tíma. Ég tel það enn vera óafgert mál, hvort eigi ekki að fyrirskipa þá reglulegu rannsókn í þessu efni, svo sem gjaldþrotalögin fyrirskipa, að gera skuli við einstaklinga. Það fer að verða varhugaverð braut fyrir það opinbera að innleiða allt annan og slappari „móral“ fyrir forráðamenn svona stofnana heldur en gildir samkv. landslögunum fyrir einstaka menn.

Þá vildi ég að síðustu spyrja hæstv. ráðh., hvaða kostnaður hafi orðið af starfi skilanefndarinnar. Ég hefi ekki látið prenta þá spurningu hér, en mér þykir líklegt, að það þyki rétt, að það verði líka opinbert mál, hvaða laun skilanefndarmennirnir fá fyrir starf sitt. Það starf hefir tekið langan tíma, og skal ég engu um það spá, hve langan tíma þarf enn til að koma þessum reytum út, en þegar þess er gætt, hve mikið tjón síldareinkasalan hefir bakað sjómönnum og útgerðarmönnum, þá er nógu gaman að fá að heyra, hvað það kostar nú ríkissjóðinn, sem ég geri ráð fyrir, að verði að borga þetta, að vinna þessi störf, sem skilanefndin hefir með höndum. Ég hefi heyrt sagt, að þessir skilanefndarmenn séu tveir, en hvort þeir vinna einir öll þessi störf, veit ég ekki um, en ég vona, að hæstv. ráðh. geti gefið upplýsingar í þessu efni.