16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

80. mál, dýralæknar

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Eins og hv. þdm. vita, er mál þetta komið frá Ed. og gekk í gegnum umr. þar nær því mótstöðulaust. Vil ég því vænta þess fastlega, að hv. Nd. taki því ekki síður, en kunni að meta nauðsyn héraðanna austan Hellisheiðar um að fá sérstakan dýralækni, búsettan þar.

Ég get að vísu tekið undir þau orð hv. þm. Borgf., að dýralæknar þeir, sem nú eru, séu ekki búsettir eins haganlega og skyldi. Hið æskilega virðist mér, eins og honum, að flestir þeirra væru búsettir í sveit, en eins og kunnugt er, þá er enginn þeirra það nú. Þeir eru allir fjórir búsettir í kaupstöðum. Að nokkru liði kemur vafalaust sú tilhögun, sem nú er á þessu, en þó vafalaust minna en ef þeir væru búsettir í hinum þéttbýlustu héruðum, þar sem gripafjöldinn er jafnframt mestur.

Ég hefi að vísu áður látið þá skoðun mína í ljós, að með þeirri tilhögun, sem nú er, þá sæi ég ekki ástæðu til þess, að dýralæknum væri fjölgað. En með þeirri breyt., sem hér er gerð um búsetu, get ég þó fylgt þessu frv. Þess ber og að gæta, að eftir því, sem búhættir breytast og færast í það horf, að bústofninn verður dýrari, eða hver einstaklingur hans, verður meiri þörf í hinum fjölbýlustu héruðum að eiga greiðan aðgang að dýralækni. Svo er á því svæði, sem hér um ræðir. Síðan áveitan var gerð austanfjalls hefir nautgripum fjölgað, en sauðfé fækkað, og horfur eru á, að enn meir stefni í þá átt. Og með vaxandi kynbótum og úrvali verður hver gripur verðmætari. Verður því þörfin vaxandi fyrir því að hafa dýralækni búsettan austan fjalls, til þess að fylgjast með um hirðingu og heilsufar gripanna og bæta úr því, sem bót þarf á að ráða, og eftir því sem þörfin segir til um. En slíkt eftirlit og slík leiðbeiningarstarfsemi og aðstoð í sjúkdómstilfellum gripanna er því aðeins möguleg, að dýralæknar séu búsettir á hinum stóru landbúnaðarsvæðum. Og þótt dýralæknar séu ekki vísindamenn eða hafi ekki aðstöðu til að iðka vísindamennsku, þá er ég ekki í vafa um, að af starfi þeirra leiðir hina mestu gagnsemi. Á því svæði, sem hér um ræðir, er svo mikil þörf fyrir dýralækni, er menn geti á viðráðanlegan hátt leitað til, að ég er fullviss þess, að þó þetta frv. sé samþ., þá truflar það á engan hátt ráðstafanir síðari tíma um skipun dýralækna. Af þeim ástæðum, sem ég hefi tilgreint nú, er ég eins viss um, að þeim málum verður aldrei þann veg skipað af framtíðinni, að ekki verði ákveðið, að dýralæknir skuli vera búsettur í þessu stærsta landbúnaðarhéraði, sem héraðið austan Hellisheiðar er. Ég hygg því, að samþykkt þessa frv. komi á engan hátt í bága við skoðun hv. þm. Borgf. En hans rökst. dagskrá skil ég svo, að hann vilji gera aðra skipun á um búsetu dýralækna en þá, sem nú er. Þótt svo verði gert, mun áreiðanlega verða svo ákveðið, að einn dýralæknir skuli eiga búsetu austan Hellisheiðar. Er því óþarfi þess vegna að slá samþykkt þessa frv. á frest. Nauðsyn þess, að þar sé búsettur dýralæknir, eykst að sama skapi og verðmæti búgripa eykst. Nú eru t. d. góðar kýr 300—400 kr. að verðmæti, og þar yfir, ef um sérstaka kostagripi er að ræða. Er því nauðsynlegt að tryggja heilsu og líf svo verðmætra gripa, eftir því sem hægt er og í þingsins valdi stendur. Ég verð því að bera fram þá ósk mína, að þingið felli rökst. dagskrá hv. þm. Borgf., en samþ. frv. — Er ekki ástæða til að ræða þetta nánar. Aðeins vil ég óska þess, að hv. d. leyfi frv. að ganga fram.