16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (2679)

80. mál, dýralæknar

Jónas Þorbergsson:

Ég vil taka það fram, að ég treysti mér ekki til að greiða atkv. með rökst. dagskránni frá hv. þm. Borgf., þótt ég sé sammála þeim atriðum, sem í henni felast. Vildi ég því mælast til þess við hv. flm. hennar, að hann taki hana aftur til 3. umr. Mætti þá athuga, hvort ekki væri fært að bera fram efni hennar í því formi, að hægt sé að greiða því atkv. án þess að eyða því máli, sem hér liggur fyrir og ég vil fylgja.

Út af ummælum hv. þm. Borgf. vil ég segja nokkur orð. Hann bar það fram sem röksemd fyrir dagskrártill. sinni og gegn frv., að till. hefði áður verið borin fram af bænda hálfu, eða bændasinnaðra manna, um að fækka dýralæknum um helming. Taldi hann, að þetta sýndi það, að bændur hefðu haft litla trú á gagnsemi dýralækna. Einnig taldi hv. þm., að skilyrði þau, sem dýralæknar hafa átt við að búa, búseta í kaupstöðum, hefðu verið þess valdandi, að lítið gagn hefði orðið að starfsemi þeirra. En þessu tvennu má ekki blanda saman. Almenningur hefir vegna búsetu þeirra í kaupstöðum ekki átt kost á að kynnast starfsemi dýralækna og hefir því ekki kunnað um að dæma, eða a. m. k. sá hluti bænda, sem býr í fjarlægð við aðsetursstað dýralæknanna.

Nú er með þessu frv. hafin sú stefna, að dýralæknir sitji í þéttbyggðu landbúnaðarhéraði. Er það því í samræmi við efni dagskrártill. og kemur á engan hátt í bága við hana. Þess ber að gæta, að hvernig sem skipun dýralækna verður ákveðin í framtíðinni, þá mun ávallt verða brýn þörf á að hafa dýralækni búsettan hér í Reykjavík. Hér og í nágrenninu verður ávallt mikið starfssvið fyrir dýralækni vegna búpeningseignar manna. Auk þess fer hér margt það fram, sem krefst þess, að dýralæknir sé við hendina. Dýralæknir sá, sem hér er búsettur, verður ráðunautur stj. í margvíslegum málum; sem fyrir koma. Hann hefir eftirlit með mesta kjötmarkaði landsins. Hann hefir eftirlit með útflutningi hrossa, sem að mestu eru tekin í skip hér. Og margt fleira kemur til greina um starfsemi hans hér, vegna hins sérstaka sambands Reykjavíkur við landið allt.

Hjá því verður þess vegna ekki komizt, ef litið er svo á, að gagnsemi sé að starfi dýralækna, að fjölga þeim. Og þess má geta í sambandi við þetta frv., að það er sýnt, að dýralæknir verður að vera búsettur hér í Rvík og að hann hefir svo mikið að gera, að hann getur ekki sinnt þörfum bænda austanfjalls. Verður því ekki undan því skorazt að samþ. þetta frv., sem bætir úr brýnni þörf eins hins stærsta landbúnaðarhéraðs.

Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar. Ég mun svo greiða atkv. með frv., en gegn dagskránni, enda þótt ég sé samþykkur efni hennar. En þá ósk mína vil ég endurtaka, að hv. flm. taki hana aftur að sinni.