10.04.1933
Neðri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

1. mál, fjárlög 1934

Jóhann Þ. Jósefsson:

Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir það, hve vel hún hefir tekið í málaleitun Vestmannaeyjabæjar um að koma lausaskuldum bæjarfélagsins í betra form framvegis. Sömuleiðis fyrir till. um styrkinn til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum. Ég hefi á þskj. 366 borið fram brtt. um 1000 kr. styrk til þýzks sendikennara hér við háskólann. Er það sök íslenzku stj., að háskólinn verður nú að vera án sendikennara, þar eð hún hefir kippt að sér hendinni um fjárveitingu. Hefir undanfarið verið varið til þess 2000 kr. að hafa sendikennara hér á landi. Komst á samkomulag í þessu máli milli háskólans og stj. þegar Bjarni frá Vogi dó 1926. Var hann dósent í grísku hér við háskólann, og var samkomulagið í því fólgið, að háskólinn fengi að halda nokkru af þeirri fjárhæð (4000 kr.), er verið hafði laun hans, til þess að hafa hér erlenda sendikennara. Síðan hafa ýmsir mætir útlendingar verið hér, svo sem Magnus Olsen frá Noregi, Gústaf Neckel og dr. Kejl frá Þýzkalandi, og e. t. v. fleiri, sem ég man ekki nöfn á. Háskólafyrirlestrar á þýzku hafa verið hér mikið sóttir, eins og eðlilegt er, því að viðskipti fara nú vaxandi milli Íslands og Þýzkalands og verða vafalaust meiri, þegar birtir aftur í álfunni. T. d. má búast við, að síldarútflutningur okkar til Þýzkalands muni þá aukast talsvert, þar eð Þjóðverjar nota meiri síld en almennt hefir verið álitið hér heima. En það er líka stórt atriði að viðhalda menningarsambandinu milli þessara tveggja landa. Við megum ekki sleppa þeim þráðum, sem tengja okkur vináttusambandi við aðrar þjóðir. Sendikennarar og slíkir menn eru nú líklegastir til að halda þessu menningarsambandi við. Hið lifandi orð verkar betur en blaðagreinar og bækur. Þeir læra íslenzka tungu, eins og t. d. dr. Keil, og kynnast þjóð og þjóðarhögum betur en aðrir ferðamenn. Þegar þeir svo koma heim, er vísast, að þar eigi Ísland jafnan talsmenn fyrir sínum málstað. Vil ég fastlega mæla með því, að þessar 1000 kr. verði veittar til þess að halda uppi þessu menningarsambandi við Þýzkaland. Meðal Þjóðverja er nú mikil þjóðleg vakning risin, og við þurfum ekki síður nú en áður, frá verzlunarsjónarmiði, að hafa góð og greið sambönd við þá. Ef við leggjum fram 1000 kr., mun sendikennarinn fá sömu upphæð frá þýzku stjórninni. Með því að stunda hér kennslu, getur hann lifað sæmilega af þessu öllu til samans.

Þá er ég einnig, ásamt hv. þm. S.-M., flm. að lítilli brtt. um fjárveitingu henda Þórhalli Þorgilssyni, til þess að koma út kennslubók í ítalskri tungu. Hefir þingið áður styrkt þennan efnilega málfræðing til útgáfu kennslubókar í spönsku, og er þetta sjálfsagt áframhald, þar eð hann hefir þegar tilbúna kennslubók í ítölsku. Verzlunarviðskipti okkar við Spán og Ítalíu eru svo mikilsverð, að skylt er, að við veitum upprennandi verzlunarmönnum kost á að læra þessi mál.

Þá er brtt. mín á þskj. 366 um hækkun á fjárveitingu til sundlauga. Undanfarin ár hefir þingið veitt nokkuð mikið fé til þess að koma upp sundlaugum hér á landi. En nú er þessi fjárveiting svo mjög skorin við neglur (5000 kr.), að þegar hún á að skiptast á margar sundlaugar, verður sama og ekkert handa hverri. Hefi ég því borið fram till. um að hækka tillagið upp í 15000 kr. Er rétt að geta þess, þó að allir viti það raunar, að sundlaugar eru verklegar framkvæmdir, og er mikið af því fé, sem til kostnaðar telst, borg að fyrir vinnu, en á því er sízt vanþörf nú á tímum. Vil ég svo ekki lengja þessar umr. með því að tala um till. annarra manna eða nefnda, að öðru leyti en því, að ég vil taka undir með hv. þm. N.-Ísf., í málinu um eftirlaunasjóði starfsmanna ríkisins og endurgreiðslu úr þeim, og lýsa yfir því, að ég kann ekki við það, að n. hefir nú breytt afstöðu sinni, þeirri er hún tók við 2. umr., að því er snertir einn mann, Sig. Kristjánsson ritstjóra. Veit ég ekki, hvernig á að réttlæta það, að iðgjaldi sé haldið fyrir manni, sem ekki á kost á að njóta styrks úr sjóðnum. Sá maður, sem hér ræðir um, hefir greitt iðgjald í sjóðinn og er sjálfsagt, að honum sé endurgreitt það, eins og ástatt er, þar sem hann á ekki tilkall til styrks úr sjóðnum síðar meir.

Þá langar mig að minnast á brtt. á þskj. 376,XXIV, þar sem farið er fram á að veita Jóni Leifs allt að 10 þús. kr. lán til þess að koma tónsmíðum sínum á prent. Þykir mér vænt um þessa till. Mér er kunnugt um það mikla álit, sem þessi Íslendingur nýtur meðal Þjóðverja og hans þjóðlagatónsmiði, ekki hvað sízt af því, að hann er mjög norrænn í verkum sínum. Myndi það eflaust gleðja alla Íslendinga, ef hægt væri að koma tónsmíðum hans á prent, svo að heimurinn ætti kost á að kynnast þeim. Eftir því, sem upplýsingar herma, ætti að vera óhætt að veita þetta lán, ef allt gengur að óskum um prentun og sölu.