16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (2680)

80. mál, dýralæknar

Frsm. meiri hl. (Lárus Helgason):

Ég skal ekki þreyta hv. deild með löngum umr. Hv. þm. Borgf. bendir á það í nál. sínu og einnig í ræðu, að taka þurfi til athugunar breyt. á búsetu dýralækna. En hér hagar nú svo til, að þetta er ekki mögulegt. Ef dýralæknir sá, sem hér á búsetu, væri tekinn héðan og fluttur austur í sveitir, mundi ekki taka betra við. Það mundi fljótlega verða kveðið upp úr með það, að nauðsynlegt væri að bæta öðrum við fyrir Rvík og nágrennið. Og þetta svæði allt er svo stórt, að einum dýralækni er ofætlun að koma að fullum notum á því öllu. Hér er því ekkert hægt að laga um búsetu dýralæknis, hvað sem kann að vera um það annarsstaðár.

Hv. þm. talaði um, að dýralæknar gætu lítið, þegar um sjúkdóma í búpeningi væri að ræða. Þetta kann að vera. Hv. þm. átti víst við sjúkdóma í sauðfé, því þeirra hefir gætt einna mest. En þótt þeim hafi ekki tekizt það til fulls, þá er þó þeirra að sjá og ákveða sjúkdóminn og gefa góð ráð, ef þeirra er leitað. En það er því aðeins hægt, að þeir búi í ekki allt of mikilli fjarlægð. Getur það oft komið í veg fyrir mikið tjón, ef þeirra er leitað í tíma. Er það svo með alla sjúkdóma, bæði í mönnum og skepnum, að hægast er að vinna bug á þeim, ef læknis er leitað í tíma.

Ég vildi nú gjarnan mælast til þess við hv. þm. Borgf., að hann taki aftur dagskrártill. sína, af því að það er leitt að þurfa að fella hana, en hinsvegar verður ekki hjá því komizt, þegar um það er að velja, hvort eigi að fá dýralækni á þetta svæði eða ekki. Að taka dýralækninn frá Rvík til þess er ógerningur. Af því að sumt í dagskrártill. er þess eðlis, að það er réttmæt, er leitt að fella hana, og þess vegna betra að taka hana aftur.

En það er mjög svo þýðingarmikið, að þingið stuðli að því, að sem mest gagn verði að uppgötvunum þeim, sem Niels Dungal hefir gert, og reyni að byggja sem bezt ofan á hans starf.