18.05.1933
Neðri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (2686)

175. mál, gjaldþrot Síldareinkasölu Íslands

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Út af síðustu ræðu hv. fyrirspyrjanda vil ég taka það fram, að kaup skilanefndarmannanna hefir minnkað, eftir því sem störf þeirra minnkuðu, og mun að sjálfsögðu verða svo áfram.

Það, sem sérstaklega kom mér til þess að standa upp, var það, að hv. fyrirspyrjandi sagði, að útlit væri fyrir, að tap einkasölunnar mundi nema 11/2 millj. kr. En það lítur ekki út fyrir, að það muni verða mikið yfir 1 millj. króna. Það er búið að lýsa kröfum í búið upp á 1,6 millj., en skilanefndarmenn telja, að af þeirri upphæð sé 0,4 millj. ranglega lýst.

Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda, að það sé að nokkru leyti sama, hvort það er Landsbankinn eða ríkissjóður, sem tapar, en af því að fyrirspyrjandi spurði um tap ríkissjóðs, þá svaraði ég honum eins og ég gerði. Annars er það svo, eins og kunnugt er, að ríkissjóður og Landsbankinn hafa algerlega aðskilinn fjárhag, og að því leyti er það ekki sama, hvor stofnunin tapar, þó að eiginlega sé um sama aðila að ræða.

Fyrirskipunin um rannsóknina var ekki gerð fyrr en eftir að þær umr. höfðu átt sér stað hér í þinginu, sem fyrirspyrjandi las upp.

Um orsakir gjaldþrotsins tel ég ekki rétt að segja neitt frekar en það, sem ég las upp úr bréfi skilanefndar. Ég tel mig eiga að svara beint eins og ég var spurður, án þess að fara að leggja sérstakan dóm á málið, burtséð frá því, hvað ég kann að halda sjálfur um ýms atriði.