18.05.1933
Neðri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

80. mál, dýralæknar

Hannes Jónsson:

Frv. þetta er borið fram í hv. Ed. og flutt þar af hv. 2. þm. Árn. Eins og flestum hv. þm. mun kunnugt, hefir hér á Alþingi gætt allmjög ýmissa frv., sem snerta þessar austursýslur sérstaklega, og er frv. þetta aðeins einn liður í þeirri keðju. Ég hefi athugað nokkuð þær ástæður, sem færðar eru fram fyrir því. Þó að sumar þeirra séu eðlilegar og réttmætar, þá hefi ég þó rekið mig á ýmsar missagnir, sem þar er farið með. Sumar upplýsingarnar eru beinlínis alveg rangar, aðeins gerðar til þess að afla málinu fylgis.

Í grg. frv. er það tekið fram sem grundvallaratriði fyrir kröfu þessari um fjölgun dýralæknanna, að dýralækniseftirlit sé m. a. orðið mjög nauðsynlegt þar eystra vegna mjólkursamlaganna, og ennfremur vegna þess, hversu búpeningur sé orðinn mikill á þessu svæði, sem dýralækninum er ætlað að hafa fyrir umdæmi. Því er t. d. haldið fram, að dýralæknir þessi þyrfti að annast um 15 þús. sauðfjár, 2200 nautgripi og 4200 hross fram yfir það, sem aðrir dýralæknar landsins hefðu að annast. En nú vill svo til; að í reyndinni er þetta svo, að t. d. dýralæknirinn á Akureyri þarf að annast 370 nautgripum færra en hér segir, en hart nær 2000 fleiri hross og um 72 þús. fleiri sauðkindur. Hefir hann þannig í sínu umdæmi um helmingi fleira sauðfé en þessum nýja dýralækni er ætlað að hafa umsjón yfir, og lætur það nærri að vera 1/3 af öllu sauðfé landsmanna. Þó er þetta öll nákvæmnin í grg. frv., að dýralæknir fyrir Suðurlandsundirlendið muni koma til að hafa um 15 þús. fleira sauðfé í sínu umdæmi en nokkur annar dýralæknir landsins.

Sama er að segja um hrossaframtalið; það verður töluvert á annað þús. hrossum færra í Suðurlandsumdæminu heldur en í umdæmi dýralæknisins á Akureyri.

Ég skil nú alls ekki, hvers vegna verið er að skreyta sig með svona illa fengnum fjöðrum. Það eru ekki allir, sem láta slíkar blekkingar villa sig. Það má vel vera rétt, að meiri þörf sé á dýralækniseftirliti á þessum slóðum en víða annarsstaðar á landinu, en það er ekki fyrir bætta meðferð á búfé á þessu svæði, að þörfin fyrir dýralækni hefir aukizt þar, eins og segir í grg. frv. Hitt mun sýnu nær, að þörfin fyrir dýralækni hafi aukizt þar, að svo miklu leyti sem hann gæti haft áhrif á það, að búpeningur væri þar ekki settur á „guð og gaddinn“, svo að menn verði þar heylausir um miðjan vetur fyrir stórbú.

Þá hefir því verið haldið fram, að sérstök ástæða sé til þess að bæta við dýralækni þarna sökum þess, hversu samgöngurnar séu orðnar góðar á þessu svæði, og því meiri hætta á, að búfjársjúkdómar berist á milli héraðanna. Ég fyrir mitt leyti er á þeirri skoðun, að slíkir sjúkdómar geti jafnt borizt á milli héraða, þó að samgöngur séu ekki góðar. Þetta er því átylla, sem gripið er til til þess að segja eitthvað. Annars er það töluvert athyglisvert, að fyrst skuli vera heimtaðar samgöngubætur á kostnað ríkissjóðs um svo að segja hvern einasta hrepp á þessu svæði, en svo komið á eftir og sagt, að fyrir þessar auknu samgöngur verði að fá aukið framlag úr ríkissjóði vegna sýkingarhættu, sem búfé manna sé búin vegna samgangnanna. Þetta er allt á sömu bókina lært.

Við 2. umr. þessa máls hér í d. bar hv. þm. Borgf. fram till. um að vísa því til stj., en hún náði ekki samþykki hv. d., enda þótt það hefði verið réttasta meðferðin á málinu. Með þessu er ég ekki að neita því, að ekki sé þörf fyrir fleiri dýralækna í landinu, en því neita ég fastlega, að þarna austur frá sé meiri þörf fyrir þá en víða annarsstaðar á landinu. Ég er því þeirrar skoðunar, að frv. þetta eigi ekki að ná fram að ganga, því að ríkisvaldið á að sjá jafnt fyrir þörfum allra landsmanna í þessu sem öðru.

Þeir, sem samið hafa frv., hafa sennilega treyst á það, að ekki væri hægt að ná í þær skýrslur, sem vitnað er til, en það eru búnaðarskýrslurnar fyrir 1931, því að annars myndu þeir ekki hafa sett slíkar firrur á prent eins og gert er í grg. Þær tölur, sem ég hefi byggt á, hefi ég fengið hjá hagstofustjóra og vænti því, að þær séu ábyggilegar.

Ég býst nú við, að ekki tjái að tala mikið um mál þetta úr því, sem komið er; það mun eiga að samþ. það hvað sem tautar, en ég vildi ekki láta það fara í gegnum þessa umr. án þess að gera við það aths. Að sjálfsögðu mun ég greiða atkv. á móti frv., því að ég tel, að það eigi að falla, en að stj. eigi að bera fram á næsta þingi frv. um þetta efni, þar sem litið sé á þarfir allra landsmanna jafnt, og þá að sjálfsögðu að taka ekki tillit til rökstuðningsins fyrir frv. þessu, þar sem hann er byggður á fölskum grundvelli.