11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

1. mál, fjárlög 1934

Héðinn Valdimarsson:

Ég er viðriðinn nokkrar tillögur til breytinga á fjárlögunum. Skal ég þá fyrst geta tillögunnar um einkennisbúning bréfbera í Reykjavík, á þskj. 366, 2. b., þar sem farið er fram á, að til þessa verði varið 1800 kr. Bréfberarnir hafa sent umleitun um þetta til stjórnarráðs, án þess að fá áheyrn. Í byrjun síðastl. árs lækkaði kaup þeirra um 45 kr. á mánuði. En við aðra starfsmenn ríkisins var kaupið ekki lækkað fyrr en 1. júlí, svo að einkennisbúningurinn verður ekki nema sem svarar því kauptapi, sem þessir menn hafa orðið fyrir. Það er mjög þægilegt og alveg sjálfsagt að hafa bréfberana í einkennisbúningi eins og t. d. hafnsögumenn og tollþjóna. Auk þess er þessi stétt mjög lágt launuð og því ekki nema sanngjarnt og réttmætt að létta undir með henni á þennan hátt.

Þá hefi ég, ásamt þm. G.-K. og þm. Dal., gerzt flutningsmaður að till. um að veita Trausta Einarssyni 1200 krónur til lokanáms. Hann hefir sent beiðni um 1500 krónur, en ég ber fram aðeins 1200 kr., sem er í samræmi við það, sem aðrir hafa fengið. Um styrkinn til Trausta er það að segja, að þetta er ekki venjulegur námsstyrkur, heldur styrkur til þess að ljúka námi. Hann er mjög illa efnum búinn, svo að hann kemst alls ekki út, ef honum verður synjað um þessa hjálp. En það væri mjög leiðinlegt að hefta hann nú, þar sem hann er þegar búin að semja prófritgerð sína. Hann hefir stundað, auk stjörnufræði, stærðfræði og eðlisfræði.

Einhver myndi kannske segja, að ekki væri þörf á stjörnufræðing hér á landi, en hann getur stundað þessa fræðigrein að námi loknu sem vísindastarf. Er hér margt órannsakað í þeim efnum, sem vert væri að meiri gaumur væri gefinn. Hann hefir ágæt meðmæli frá kennurum sínum hér við menntaskólann, Ólafi Dan og Boga Ólafssyni. Auk þess hefir hann beztu vottorð frá Dr. Heckmann, sem er prófessor í stjörnufræði við þann háskóla í Þýzkalandi, sem Trausti hefir stundað nám við.

Vænti ég þess, að hv. þdm. vilji ekki með atkv. sínu bregða fæti fyrir þennan efnilega námsmann og má taka tillit til þess, að ekki verður farið fram á þessa styrkveitingu aftur.

Þá kem ég að till. minni á sama þskj. merkt XXVIII, sem fer fram á nýjan lið, 5000 króna styrk til Alþýðubókasafnsins í Reykjavík. Á fjárlögunum eru styrkir veittir til bókasafna í Hafnarfirði, á Ísafirði og á Akureyri. Alþýðubókasafnið hér er stofnað árið 1923, og er nú kostað til þess af bænum 30 þús. kr. Þá er ekki langt gengið, þó að farið sé fram á, að ríkið greiði til þess 5000 krónur.

Gestir á lesstofu bókasafnsins voru árið 1923 4100, en árið 1932 voru þeir 17300. Þetta sýnir hinn ákaflega mikla vöxt safnsins og hve mikil nauðsyn hefir verið fyrir það. Það byrjaði með tæpum 1000 bindum, en á nú um 12 þús. bindi. Fyrst var það á Skólavörðustíg 3, en fékk 1928 betri húsakynni, og þá jukust útlán mjög mikið og notkun safnsins.

Nú er því svo farið, að kostnaður við safnið er tiltölulega meiri en áður, þar sem bækur þess slitna mjög mikið, vegna aukinnar notkunar, og kostnaður vegna bókbands eykst þar af leiðandi. Það mun því verða erfitt að halda safninu við, nema með því að fá meiri styrk til þess en verið hefir. Alþýðubókasafnið í Rvík er nú langmest notað af öllum söfnum á landinu. Og jafnvel miðað við bókasöfn erlendis, er það notað mjög mikið. Það lánar bækur til bæjarmanna og til skólafólks víða að af landinu. Þá hefir það lánað fiskiskipum smábókasöfn, og mun vera fyrsta bókasafnið, sem tekið hefir upp þann sið. Þessi bókasöfn á skipunum hafa verið mikið notuð, og orðið til þess, að sjómannastéttin hefir gefið sig meira að lestri en áður, og hafa að því leyti haft góð áhrif. Auk þess hefir það lánað bækur í fangahúsið, í fyrra 600 bindi, en síðasta ár um 1000 bindi.

Það er mjög mikið gagn að þessu safni. Og ég get ekki séð, hvernig þingið getur gengið fram hjá þessu bæjarbókasafni, þar sem það hefir styrkt önnur bókasöfn. Það vantar að vísu löggjöf um bókasöfn, og nauðsynlegt væri að setja slík lög á þessu þingi, eða næstu þingum. En ég vænti, að hv. þm. sjái nauðsyn þessa máls og samþ. brtt.

Þar sem ég er frsm. brtt. XXXIII. á sama þskj., um framlag til atvinnubóta, vil ég aðeins minnast á hana.

Ég sé ekki hvernig það er hægt, án stórkostlegrar fölsunar á fjárl., að ganga svo frá þeim, að ákveða ekki fé til atvinnubóta. Hæstv. stj. hefir að vísu lýst því yfir, að hún muni veita fé til þessa, ef mikil þörf verði á því, hvort sem hún hafi fjárveitingu til þess eða ekki. Það má gera ráð fyrir því, að ef ástandið útheimtir það, þá sé varla nokkur stjórn svo hörð, að hún neiti um slíkt framlag til atvinnubóta. En þegar útlitið er eins og það nú er, þá sé ég ekki hvernig hægt er að gera ráð fyrir, að hér verði það góðæri, að ekki þurfi að halda uppi atvinnubótavinnu, þegar nú á hávertíðinni ganga fleiri hundruð manna atvinnulausir. Það væri æskilegt, að hv. þm. vildu ganga hérna ofan að höfninni, þegar menn eru ráðnir á togara eða saltskip, til þess að sjá, hvernig menn rífast beinlínis um vinnuna. Þeim mundi þá verða það ljóst, að það er mjög fjarri því, sem hæstv. forsrh. sagði hér nýlega, að atvinnuleysið sé að hverfa í Reykjavík.

Það eru engin líkindi til þess, að á næsta ári verði svo breytt orðið högum manna, að ekki þurfi að halda uppi atvinnubótavinnu. Enda þótt landinu væri sæmilega stjórnað, sem ég vil ekki viðurkenna, að sé nú gert á neinn hátt, þá eru ekki líkindi til þess, eftir þeim fréttum, sem berast utan úr heimi, að nærri sé lausn þeirra vandamála, sem nú steðja að.

Við jafnaðarmenn höfum því lagt til, að ákveðin verði þessi stóra fjárhæð til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum. Og þótt ég viti, að margir hv. þm. muni greiða atkv. á móti till., get ég ekki skilið, hvernig þeir fá varið það, þegar þeir þó vita um þörfina, og vita, að fé verður óhjákvæmilega að greiða til atvinnubóta á sínum tíma. Það skyldi þá ekki vera bara til þess að láta fjárlögin líta betur út.

Þá hefir komið brtt. frá fjvn., sem er svipuð mörgu öðru hér á þessu þingi, um að ríkisstj. sé heimilt að draga úr öllum fjárveitingum fjárlaganna, sem ekki eru lögum bundnar, um allt að 25%, eftir því sem við verður komið, og ennfremur að fresta um ákveðinn tíma rekstri stofnana.

Ég sé ekki annað, en að þessi till. hv. fjvn. sé sú glufa á fjárl., að með henni sé verið að taka mikinn hluta fjárveitingavaldsins frá Alþingi og fá það í hendur stjórninni. Ég er algerlega á móti þessu. Hæstv. Alþ. á að ganga frá fjárl. eins og þau eiga að koma til framkvæmda. En það á ekki að láta hæstv. ríkisstj. hafa vald til þess að lækka eða hækka stórkostlega einstaka liði þeirra.