11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

1. mál, fjárlög 1934

Steingrímur Steinþórsson:

Ég á nokkrar brtt. við fjárlagafrv. nú og vil leyfa mér að fara um þær fáeinum orðum.

Við 2. umr. flutti ég brtt. um hækkun á framlagi til Hofsósvegar um 3 þús. kr. frá því, sem ákveðið var í fjárlagafrv. stj. Ég tók þessa brtt. þá aftur ásamt mörgum fleirum hv. þdm., sem áttu hækkunartillögur til þjóðvega. Þetta gerðum við samkv. ósk frsm. fjvn., í því trausti, að fjvn. mundi leysa úr þessu máli að einhverju leyti fyrir 3. umr. En nú hefir n. ekki þótzt geta tekið tillit til þessarar hækkunartill. minnar um aukið framlag til Hofsósvegar. Verð ég að telja þetta allundarlega aðferð hjá fjvn., að ginna menn til þess að taka brtt. sínar aftur með hálfgerðum loforðum um að veita einhverja úrlausn síðar, en svo kemur algert afsvar. Ég hefi því neyðzt til að bera fram brtt. á þskj. 366, IX. lið, um framlag til Hofsósvegar, en þar fer ég fram á, að framlagið verði aðeins hækkað um 2 þús. kr., og verði þá alls 5 þús. kr. til vegarins, eða 1 þús. kr. lægra en ég bar fram við 2. umr., enda þótt þá væri farið svo vægt í kröfurnar sem frekast var unnt.

Ég lýsti því við 2. umr., hvers vegna ég færi fram á fjárveitingu þessa. Það stendur þannig af sér þarna nyrðra, að ef á að vera hægt að ljúka við vegarkafla þar, sem ófær er nú, þá þarf til þess a. m. k. 10 þús. kr. Nú eru 5 þús. kr. veittar í fjárl. þessa árs, og hreppar þeir, sem þarna eiga hlut að máli, munu leggja fé fram í bili í sumar í samráði við vegamálastjóra, ef þessi fjárveiting fæst. Ég vænti þess því fastlega, að hv. dm. liti á nauðsyn þessa máls og greiði fyrir því, að þessi litla upphæð fáist til vegarins þarna. Veit ég með vissu, að ýmsar þær till., sem hv. fjvn. hefir tekið upp nú við þessa umr. um aukin fjárframlög til vega, eiga sízt meiri rétt á sér en þessi till., sem hér er farið fram á.

Að endingu vil ég taka það fram, að þarna er um veg að ræð, sem á að tengja Siglufjörð við þjóðvegakerfi landsins, þó að það eigi reyndar nokkuð langt í land. Það er því ekki eingöngu með þessum fjárframlögum til Hofsósvegar verið að greiða fyrir samgöngum við Hofsós, heldur er það liður í því mikla en bráðnauðsynlega verki að tengja Siglufjörð við þjóðvegakerfið.

Þá á ég brtt. á þskj. 386, I. lið, um hækkun á framlagi til fjallvega úr 25 þús. kr. og upp í 35 þús. kr., og að þar af verði varið til vegagerða yfir Siglufjarðarskarð 10 þús. kr., gegn a. m. k. jöfnu tillagi annarsstaðar frá. Svo stendur á því, að ég leyfi mér að bera fram till. um fjárveitingu þessa, sem nú skal greina: Á undanförnum árum hafa verið athugaðir möguleikar til þess að leggja veg yfir fjallveg þann, er skilur Siglufjörð frá Fljótum. Fjallvegur þessi er mjög erfiður yfirferðar og vegarstæði illt. Fyrstu athuganir bentu í þá átt, að vegur milli Fljóta og Siglufjarðar yrði óhemjudýr, og mundi því lítt hugsandi til vegagerðar þar í náinni framtíð. En nú hefir að síðustu verið gerð athugun um að gera þarna slarkfæran sumarveg, sem næst því sem vegurinn liggur nú yfir skarðið. Bráðabirgðaáætlun sýnir, að það muni takast með tiltölulega litlum kostnaði að gera bílfæran veg þar. Bendir áætlunin til þess, að sá kostnaður muni ekki þurfa að vera meiri en 35 þús. kr., að gera akfæran veg yfir skarðið að Hraunum. Vegamálastjóri álítur að vísu þessa áætlun of lága. En þó að þessi upphæð tvöfaldaðist, þá er ekki um neitt stórfé að ræða, samanborið við þær áætlanir, sem gerðar hafa verið áður, því að þær hafa gert ráð fyrir, að það mundi kosta mörg hundruð þús. kr. að gera veg milli Siglufjarðar og Fljóta.

Nú leikur það ekki á tveim tungum, hve nauðsynlegt það er, jafnt fyrir Siglufjarðarkaupstað og sveitirnar, sem þarna liggja að, að greiða fyrir samgöngum með þessum vegabótum. Og ef þarna kemst á akfær vegur, verður ekki á móti því staðið, að allur vegurinn frá Sauðárkróki til Siglufjarðar verði tekinn í þjóðvegatölu, þar sem hann mundi liggja til eins af okkar stærstu kaupstöðum. Tilboð hefir nú komið frá Siglufirði um að leggja fé að hálfu á móti, ef tillag fæst frá ríkissjóði. Með tilliti til þess er það, að ég geri till. um, að aukning sú, sem ég hefi farið fram á á fjallvegafénu, verði varið til þessara vegabóta.

Vegamálastjóri hefir játið svo um mælt, að fyllri rannsókn þyrfti fram að fara um veg þennan og aðstöðu alla. Að sjálfsögðu verður látin fara fram nákvæmari rannsókn á vegarstæði þarna áður en verk er hafið. Mun vegamálastjóri ætla að láta framkvæma það nú í sumar.

Fjvn. hefir lagt til, að varið verði nokkru fé til ræktunarvega í kauptúnum eða kaupstöðum víðar en á einum stað. Ég ætla sízt að mæla á móti því, að svo verði gert, en hitt fæ ég ekki skilið, að hún treysti sér til þess að ganga á móti þeirri fjárveitingu, sem hér er farið fram á, þar sem lofað er helmings framlagi á móti því, sem ríkissjóður veitir, og þörfin er jafnknýjandi og þar um bættar samgöngur.

Vænti ég þess fastlega, að hv. þd. samþ. brtt. mína viðvíkjandi vegabótum yfir Siglufjarðarskarð, þar sem hlutaðeigendur þar nyrðra hafa sýnt þann áhuga fyrir málinu að bjóða framlag að helmingi á móti því, er ríkissjóður leggur til.

Þá berum við þm. Skagf. fram brtt. á þskj. 376, XIV. lið, um styrk til Skógræktarfélags Skagfirðinga, að upphæð 750 kr. Félag þetta var stofnað í vetur og er því að byrja starfa sinn. Hafa margir áhugamestu og mætustu menn Skagafjarðar skipað sér í þetta félag og hafa mikinn áhuga á því að hrinda máli þessu áfram. Auk þess hefir Framfarafélag Skagfirðinga og ýms af búnaðarfélögum sýslunnar heitið hinu nýstofnaða félagi stuðningi sínum um fjárframlög og annað.

Svo er ástatt í Skagafirði, að þar er allur skógargróður nú aleyddur, nema aðeins á einum stað eru eftir minjar þeirra miklu skóga, sem til forna hafa verið í Skagafirði, sem sagan getur um og ýms örnefni sanna, að hafa verið þar. Mun mikill hluti Skagafjarðar hafa verið vaxinn skógi til forna, og er mikill hugur í Skagfirðingum nú um að bæta að einhverju leyti fyrir vanrækslu forfeðra vorra í þessu efni og gróðursetja skóga þar, sem nú er uppblásið land.

Viðvíkjandi skógræktinni hjá okkur er það að segja, að það gengur erfiðlega að koma henni á rekspöl. En ég álít, að bezta aðferðin til þess sé sú, að styrkja það, þegar einstakir menn eða viss héruð hafa svo mikinn áhuga um að hrinda máli þessu áleiðis, að þau hefjast handa af sjálfsdáðum, og hér er einmitt um slíkan áhuga að ræða. Slíka viðleitni á hið opinbera að styðja, til þess að yfirvinna þá örðugleika, sem einkum í byrjun gera vart við sig. Beiðni hefir komið frá Skógræktarfélaginu um þessa styrkveitingu, undirrituð af mörgum hinum helztu mönnum þarna norður frá, sem allir standa einhuga um þetta sameiginlega áhugamál. Álít ég heillavænlegt að styrkja slíkt, og vænti þess, að hv. þm. sjái sér fært að samþykkja, að þessi litli styrkur verði veittur til þessa þarfa fyrirtækis.

Loks á ég svo brtt. á þskj. 366,XLVII, um að greiða Jósef J. Björnssyni, fyrrv. alþm. og kennara á Hólum, full laun, þegar hann lætur af kennslustarfi. Hann er nú orðinn nær hálfáttræður og hefir í full 50 ár starfað við þessa sömu stofnun, allt frá því árið 188?, að bændaskólinn á Hólum var stofnaður og Jósef J. Björnsson hóf starf sitt þar. Laun hans hafa alltaf verið mjög lág, munu nú vera 2600 kr.

Það er ekkert einsdæmi þetta, að veita manni full laun eftir að hann lætur af starfi, þegar sérstaklega stendur á. Og ég álít, að hér sé um einstakt tilfelli að ræða, þar sem maður hefir starfað við sömu stofnun í 50 ár og lagt fram til þess alla starfskrafta sína. En nú eru þeir nokkuð þrotnir, og eru því ekki líkur til þess, að hann geti haldið starfi þessu áfram lengi.

Ég tel það sjálfsagt, að hv. þdm. sjái réttmæti þessarar till. minnar, og sýni þessum mæta manni þá viðurkenningu fyrir vel unnið starf í þágu þjóðfélagsins, að veita honum full laun þau ár, sem hann á eftir ólifuð, og samþ. till. þessa.

Ég skal ekki gera hinar ýmsu brtt. hv. þm. eða hv. fjvn. að umtalsefni, nema þá brtt. hv. fjvn., sem fjallar um endurgreiðslu úr lífeyrissjóði. Mér virðist gæta allmikils ósamræmis í till. hv. fjvn. um það atriði. Hún leggur til, að felld verði niður till., sem samþ. var hér í þessari hv. d. við 2. umr. málsins, um að endurgreiða einum fyrrv. starfsmanni ríkisins það, sem hann hefir greitt í lífeyrissjóð meðan hann var í þjónustu ríkisins. En svo fer hún fram á að greiða eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans vegna Jóns Halldórssonar fyrrv. ríkisféhirðis úr lífeyrissjóði embættismanna það fé, sem hann hefir greitt í sjóðinn meðan hann starfaði í þjónustu ríkisins. Annaðhvort eiga báðir þessir menn að fá þessar endurgreiðslur úr lífeyrissjóði eða hvorugur. Ég tel rétt, að þeim sé báðum endurgreitt þetta, enda styðst það við þá reglu, sem tekin hefir verið upp áður af Alþingi. Ég álít, að hér sé um sanngirniskröfu að ræða, að menn fái endurgreitt vaxtalaust það fé, sem þeir hafa greitt í sjóðinn, því að hér er ekki um annað að ræða en hluta af launum þeirra, sem haldið er eftir sem tillagi í lífeyrissjóð. Auðvitað er öðru máli að gegna, ef menn eru reknir frá starfi vegna einhverrar vanrækslu; þá virðist ekki rétt, að endurgreiðsla eigi sér stað. Hv. frsm. fjvn. sagði, að ástæður lífeyrissjóðs væru góðar, og finnst mér það einnig mæla með því að greiða það, sem hér um ræðir, til baka úr sjóðnum.

Þótt komið geti til mála, að reglugerð sjóðsins verði breytt í einhverju, eins og hv. frsm. talaði um, geta þó ekki þessir menn, sem hér um ræðir, fengið rétt til eftirlauna með þeirri breytingu, fyrir þann tíma, sem þeir hafa lagt fé í sjóðinn.