29.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

161. mál, tollalög

Fors.- og fjmrh (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það má alltaf segja, þegar um tollhækkun er að ræða á munaðarvöru, að það dragi úr neyzlunni. Reynslan verður að skera úr um það. En ég held, að það verði alltaf meira, sem ríkissjóður fær eftir þessu frv., heldur en eftir gildandi lögum, þó nú svo færi, að eitthvað drægi úr neyzlunni. Ég held, að ekki þurfi að óttast, að neyzla minnki að mun, þegar ekki er farið lengra en svo, að tollurinn verður á hvorugri vörutegundinni meiri en hann var, áður en nokkuð var framleitt af þeim hér, allt flutt inn. Það má vera, að bruggið aukist, en þá er það skylda hins opinbera að sjá um, að eftirlitið verði aukið. Ég hefi átt tal um þetta bæði við tollstjóra og forstjóra ölgerðarinnar, og ég býst við, að hægt verði að auka svo eftirlitið, að ekki komi að sök. Þeir, sem framleiða ölið, fá þá góðu aðstöðu og beztu, sem á verður kosið, að sitja einir að markaðnum. Og þær tvær verksmiðjur, sem hér framleiddu öl, gátu boðið kaupendum betri kjör á því áður en þær runnu saman. Ég hygg því, ef sala þverrar vegna þessarar hækkunar, að þær geti tekið sér að skaðlitlu nokkuð af tollinum á sínar herðar, til tryggingar sölunni. Engin ástæða er heldur til að ætla, að minna yrði notað af kaffibæti og meira af baunum, þótt tollur kaffibætis verði hækkaður eins og um getur í frv. Það er engin ástæða til að ætla, að kaffið yrði öðruvísi blandað en áður hefir verið gert. Ekki hefir verið svo mjög kvartað um innflutningstoll á þessari vöru, meðan hún var þó öll framleidd erlendis og innflutt. Og hér er þó ekki eins langt farið. Þetta eru góðir tollstofnar, sem ekki mega rýrna. Og þetta frv. er eingöngu borið fram til þess að bæta ríkissjóði að nokkru þann halla, er hann hefir beðið við það, að framleiðsla þessara vörutegunda hefir fluzt inn í landið. Tekjumissir ríkissjóðs er þó ekki með því bættur nærri að fullu, en þó að nokkru. Að vísu eru framleiddar fleiri vörutegundir hér á landi, en þær keppa þó flestar enn við erlenda framleiðslu samkynja, sem innflutt er. Um sumar þeirra, svo sem konfekt o. fl., er líka svo ástatt, að nokkur verulegur tollur er goldinn af innflutningi hráefna til framleiðslu þeirra. Ég hygg, að þeir, sem nú framleiða þessar vörutegundir, öl og kaffibæti, séu svo settir, að þeir þurfi ekki að kvarta, þótt tolli á þeim vörum sé hagað svo, að ríkið tapi ekki stórfé á því, að þær eru ekki lengur fluttar inn í landið.