29.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (2716)

161. mál, tollalög

Frsm. (Hannes Jónsson):

Ég vil benda á vegna ummæla hv. þm. N.-Ísf., að engin ástæða er til að ætla, að þessi tollauki dragi úr neyzlu öls, þar sem hann nemur ekki meiru en tæpum 4 aurum á flösku. Auk þess mun hann ekki koma allur á neytendur, því ég býst við, að svo góð útkoma hafi verið þeim, sem bruggað hafa ölið, að rekstrarhagnaður þeirra þoli að minnka nokkuð. Hann ætti að geta orðið viðunanlegur fyrir því. Og þegar það líka er aðgætt, að ívilnunin, sem gefin var í 1. frá 1927, hefir algerlega náð út yfir ölið, þá verður tollhækkunin ekki eins mikil og hún sýnist vera.

Eftir því sem menn hafa talað, þá virðist svo, að þeir séu hræddir um, að tollhækkun á öli muni meira draga úr notkun þess en tollhækkun á kaffibæti úr notkun hans. En þó er það svo, að ráðgerð tollhækkun frv. kemur þyngra niður á kaffibætinum, því talsverður hluti þeirrar framleiðslu hefir ekki náð í tollívilnunina frá 1927. En það er ekki rétt, að ölneyzlunni sé nokkur hætta búin. 4 aurar gera lítið til eða frá um notkun þess, og a. m. k. nokkuð af því kemur á framleiðendur. — Hið eina leiða við þetta er það, að ekki skuli mega framleiða að mun sterkara öl, — þá mætti eflaust tífalda tollinn án þess að salan væri í hættu.