29.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (2720)

161. mál, tollalög

Frsm. (Hannes Jónsson):

Það er mesti misskilningur, sem kemur fram hjá mönnum, sem halda, að tollur á þessum vörutegundum hækki mikið frá því, sem var í l. frá 1921. Þessi hækkun á innflutningi kemur ekki til greina, vegna þess að ekkert er flutt inn af þessum vörutegundum. Og með 1. frá 1927 er ákveðið, að greiða skuli 1/3 innflutningstolls af innlendu öli og ½ af kaffibæti framleiddum hér. Og þetta gjald var svo enn fært niður í 1/6 fyrir það magn, sem framleitt hafði verið af þessum vörutegundum 1926. Af þessu leiðir, að gjöldin af þessari framleiðslu í ríkissjóð eru orðin alveg hlægilega lítil, þegar þess er gætt, að iðnaður þessi ber sig ágætlega, eins og kapphlaupið um framleiðslu kaffibætis sýnir. Hv. þm. N.-Ísf. þótti hér of stórt á stað farið. En hér er sannarlega ekki farið stórt af stað. Aðeins 4 aurar á ölflöskuna. Nú er þetta gjald 7 aurar á lítra, sem hækkar um 11 aura og verður því alls 18 aurar á lítra. Áður var tollurinn 30 aurar á lítra af innfluttu öli, en verður samkv. þessu frv. 18 aurar af öli framleiddu hér. Þessi misskilningur stafar af því, að menn líta á þá hækkun, sem sést á frv., en taka ekki tillit til þeirra ívilnana, sem gerðar voru með l. frá 1927 og víkkaðar voru út með l. frá 1931.