29.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1884 í B-deild Alþingistíðinda. (2721)

161. mál, tollalög

Guðbrandur Ísberg:

Það er rétt hjá hv. frsm., að hækkun framleiðsluvörugjaldsins er ekki ýkjamikil. En ég vil benda honum á, að þótt nú sé bannað að flytja inn öl, þá má vona, að svo verði ekki alltaf. Ef ölframleiðslan á að miðast við þennan toll og það, hvað framleiðendum þóknast að leggja á í skjóli hans, þá er ég hræddur um, að ölsalan verði ekki í stórum stíl og tekjur ríkissjóðs þá ekki miklar af ölinu. Tollurinn kemur sérstaklega hart niður á hinni ódýru öltegund, hvítölinu. Það hefir að vísu ekki verið gerður greinarmunur á þessu í l. Sami tollur hefir gilt fyrir hvítöl sem aðrar dýrari öltegundir. En þetta er rangt og ætti að vera lagfært fyrir löngu. Ef ekki á að útiloka framleiðslu og neyzlu á þessari ódýru öltegund, þarf að leiðrétta þetta nú. Og þessi tollhækkun, sem nú er gerð till. um, gefur mér tilefni að bera fram brtt. þessu til leiðréttingar, og mun ég, eins og ég hefi áður lýst, gera það við 3. umr.