29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

161. mál, tollalög

Guðbrandur Ísberg:

Hv. þm. V.-Húnv. lagði í ræðu sinni einkennilega mikla áherzlu á hagsmuni ölframleiðendanna. Hann gat þess, að með gildandi tolllögum hefði útlent öl verið útilokað og innlend framleiðsla blómgazt. Ég hefi litið svo á frv., að það væri fram komið til þess að afla ríkissjóði tekna, og mun greiða því atkv. af þeim ástæðum, en ekki til þess sérstaklega að vernda framleiðendurna, sem samkv. gefnum upplýsingum eru nú þegar búnir að vinna bug á allri erlendri samkeppni í skjóli gildandi innflutningstolls, og væntanlega einnig innflutningshafta nú síðasta árið. Í því sambandi vil ég spyrja hæstv. stj., hvaða ráðstafanir gerðar verði til þess að koma í veg fyrir, að innlendir framleiðendur okri beinlínis á þessum vörutegundum, ef tollhækkunin verður samþ.

Eins og ég hefi bent á, þá er hvítöl nálægt helmingi ódýrara almennt heldur en flest annað öl. En þegar lagður verður 80 aura tollur á það, þá verður það væntanlega aðeins 10—12% ódýrara en annað öl, í stað 50%, ef miðað er við innflutning. Ef tekið er tillit til neytendanna, þá er sýnilegt, að þeim verður gert erfitt fyrir að halda áfram að kaupa hvítöl með því verði, sem gera má ráð fyrir, að á því verði framvegis, og tel ég það miður farið, og beint óheppilegt að svipta menn praktiskt séð þeirri öltegundinni, sem mest er notuð með mat í mjólkur stað, sérstaklega þar sem lítið er um mjólk. Þess vegna legg ég til, að hvítölið verði látið sæta áfram sama tolli og gosdrykkir, þótt tollur á dýrari öltegundum verði hækkaður. Öll sanngirni mælir með þessu. Það væri einnig ástæða til þess að gera aths. við fleiri liði frv., ef það er meiningin, að hér væri eingöngu um að ræða verndun framleiðendanna, eins og hv. þm. hélt fram. Ég tel, að neytendurnir eigi líka rétt á sér.