11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

1. mál, fjárlög 1934

Sveinn Ólafsson:

Ég á nokkrar brtt. á þskj. 366, og hafa sumar þeirra einnig legið fyrir við 2. umr. En þrjár þeirra voru teknar aftur þá, eftir tilmælum hv. fjvn. Nú í koma þær öðru sinni, og að mestu leyti óbreyttar. Ég ætla ekki að fjölyrða um þessar till., af því að þær hafa áður verið ræddar hér í d., enda eru hér svo að segja eingöngu tómir stólar orðnir eftir, og tilheyrendur fáir.

Ég vil þó víkja nokkrum orðum að brtt. minni undir 14. tölulið á þskj. 366. Ég fer þar þess á leit, að af fé því, sem á að skiptast næsta ár til vega um landið, verði 3000 kr. veittar til Skriðdalsvegar. Ég býst ekki við, að hv. þm. séu yfirleitt kunnugir á þessum slóðum, og verð því að lýsa aðstæðunum með fáum orðum. Þessi vegur, er þarna um ræðir, er hluti þess þjóðvegar, sem liggur frá Lagarfljótsbrú suður eftir, áleiðis til Berufjarðar. Hann liggur um Skriðdal, er nú kominn miðja leið inn í dalinn og akfær orðinn frá Egilsstöðum að Arnhólsstöðum í Skriðdal. En þá er eftir innri hluti dalsins, að Breiðdalsheiði.

Með hliðsjón af reglu hv. fjvn. um úthlutun vegafjárins, þeirri, að dreifa fénu sem mest milli landshluta, er þessi till. mín borin fram. Öll sanngirni mælir með samþykkt hennar. Þarna er búið að gera akfært um mikinn hluta vegarins, og vantar aðeins herzlumun til þess að ná heiðinni, má líka fullyrða, að hérað þetta þarf eigi síður á atvinnubótum að halda en mörg önnur.

N. hefir nú gert till. um, að nokkuð yrði færður upp styrkur til Breiðdalsvegar og Geithellnavegar, og því tekið ósk mína að nokkru leyti til greina, með því að hækka framlag til vega þessara um 2/3 þeirrar upphæðar, sem ég fór fram á. Ég er að sjálfsögðu n. þakklátur fyrir þetta, en hefði þó orðið þakklátari fyrir það, að till. mínum um skiptingu fjárins, þótt lítið sé, til sveitanna allra, hefði verið fullkomlega sinnt. Mun hv. n. hafa þótt til of mikils mælzt með 12000 kr. fjárveitingu til vega í mínu kjördæmi. En út af því vil ég segja það, sem ég hefi að vísu áður sagt, að úr opinberum sjóði hefir ekki freklega veitt verið til þessa héraðs, og þótt nú væru veittar 12000 kr. samtals til allra vega í Suður-Múlasýslu, þá væri eigi með því hallað á önnur héruð, og má vel minna á það, að hún hefir oft verið þriðja drýgsta skatthérað landsins og tekjulind ríkissjóðs, var líka um eitt skeið sú frjóasta. Ég ætla ekki að öðru leyti að fara að gera samanburð á fjárframlögum til míns héraðs og annara nú að þessu sinni, þó að sá samanburður gæti verið fróðlegur, en vona að enginn sjái ofsjónum yfir því, þótt Suður-Múlasýsla fengi í þessum fjárl. alls 12000 kr. til allra vegarkaflanna.

Þá kem ég að till. minni undir tölulið 20 á sama þskj. Þar fer ég þess á leit, að af fé því, sem veita á til bryggjugerða og lendingarbóta, verði 3000 kr. veittar til bátabryggju á Vattarnesi, gegn helmings framlagi annarsstaðar frá. Hv. frsm. n. gat þess, að um leið og n. gerði till. um hækkun framlags til þessara mannvirkja, gerði hún ráð fyrir, að 3000 kr. skyldu falla til þessarar bryggju, gegn 2/3 hlutum framlags á móti. Ég hefi kynnt mér þarna allar ástæður, og þykir mér ólíklegt, að hægt muni að fá svo mikið framlag á móti. Þar er ekki um annað að ræða en framlag ábúandans á Vattarnesi, og ef til vill eitthvert lítilræði úr sveitarsjóði. En svo stendur á, að Vattarnes er ríkiseign, og með byggingu þessarar bryggju er fyrst og fremst aukið verðmæti eignarinnar, en líka búið í haginn fyrir útvegsmenn og með því auknar tekjuvonir af eigninni. Þarna hefir áður verið mikil útgerð, ekki aðeins innlendra manna, heldur einnig fjölda Færeyinga. Þarna er aðstaða til útróðra í bezta lagi, ef ekki vantaði bryggju. — En ég geri sem sagt ekki ráð fyrir því, að hægt verði að fá svo mikið framlag þarna eins og hv. fjvn. krefst, og er því fyrirheit hennar einskis virði.

Þá kem ég að brtt. minni á sama þskj., undir tölulið 35. Þar fer ég fram á það, að Eiríki Bjarnasyni á Eskifirði verði veittur 1600 kr. utanfararstyrkur, eða til vara 1200 kr., til að kynna sér meðferð og verkun síldar við Bretlandseyjar fyrir þau ýmsu neyzlulönd, enda leiðbeini hann síldveiðimönnum um verkun síldar við heimkomu. Þessi maður hefir sent erindi til þingsins, þar sem hann fer fram á 3000 kr. styrk. Fjvn. sá sér ekki fært að verða við þessari beiðni Eiríks, og hefi ég því tekið hana upp, mjög lækkaða. Ég veit, að þær upphæðir, sem ég fer fram á, eru ekki líkt því fullnægjandi, og að þessi maður verður að fórna miklu af eigin fé, ef hann á að geta framkvæmt þá áætlun sína að dvelja um nokkurt skeið á Bretlandseyjum og kynna sér allt það, er viðkemur verkun síldar, en ég ætla, að áhugi hans og dugnaður sigri þó fjárskortinn. Síðastl. 2 vetur hefir á Austfjörðum veiðzt mikið af þeirri tegund síldar, sem útgengilegust er í Mið-Evrópulöndunum, og verður óhjákvæmilegt að gera eitthvað til þess, að sá markaðsmöguleiki geti komið að notum. En samgönguleysið er og hefir verið síðustu vetur aðaltálmun þess, að veiðin nýttist. Hefir síldarútvegurinn af því beðið mjög tilfinnanlegan hnekki hin síðustu árin, hve hastarlega hefir verið burt kippt samgöngum við útlönd frá Austurlandi.

En vegna Eiríks Bjarnasonar og utanfarar hans vil ég láta þess getið, að fyrir persónuleg kynni mín af honum verð ég að telja, hann mjög vel fallinn til þess að afla sér nothæfrar þekkingar um markaðinn og til að leiðbeina veiðimönnum. Eiríkur er skýrleiksmaður og fullur áhuga fyrir eflingu útvegsins. Hér liggja fyrir yfirlýsingar 12 útgerðarmanna af Austfjörðum, sem mæla með erindi Eiríks og lýsa trausti á honum. Eru meðmæli þessi frá útgerðarmönnum á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Reyðarfirði, en nú samstundis hefir mér verið tilkynnt, að fleiri meðmæli væru væntanleg frá Norðfirði og Seyðisfirði.

Ég vík þá að síðustu till. minni á þessu þskj., um ríkisábyrgð á skipakaupaláni fyrir útgerðarsamvinnufélag á Eskifirði og Seyðisfirði. Hana flyt ég ásamt hv. þm. Seyðf. Ég sé, að fram er komin till. nm hliðstæða ríkisábyrgð fyrir 3. verstöðina, og býst helzt við, að þær muni verða fleiri áður lýkur.

Ég hefi talað fyrir þessari till. minni við 2. umr., og vil þó endurtaka það, að útvegun veiðiskipa er eina líklega leiðin til þess að bjarga frá yfirvofandi skorti og vandræðum á veiðistöðvum þessum. Undan verðhruni eigna verður þar ekki stýrt, nema ríkissjóður hlaupi einhvern veg undir bagga og veiti aðstoð, hvort sem hún verður bein eða óbein, eins og hér er farið fram á. En að hjálpa sjómönnum til að hjálpa sér sjálfir er sjálfsögð og heilbrigð aðferð til þess að afstýra frekari vanda. Upplýst er, að á Eskifirði ganga á þessari vertíð atvinnulausir dugandi sjómenn, sem ekki komast í skiprúm, vegna þess að fleytur þær, er þeir áður notuðust við, eru ekki lengur taldar sjófærar. Aðeins 6 sjófærir bátar eru þar til fiskveiða, og flestir þó harla gamlir og lélegir.

Ég get nú horfið frá þessum till. á þskj. 366, því að þær hafa áður verið ræddar, og munu vera fjvn. og hv. þdm. kunnar frá 2. umr., en eftir er till. á þskj. 386, sem ég flyt ásamt hv. þm. Vestm., og er þar farið fram á, að Þórhalli Þorgilssyni verði veittar 2000 kr. til útgáfu handhægrar kennslubókar í ítölsku, en til vara 1500 kr. Hv. meðflm. minn hefir þegar minnzt á þessa till., og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða um hana. Ég vil þó minna á það, að þessi maður, sem er mjög vel fær í Suðurlandamálum, hefir áður fengið dálítinn fjárstyrk hjá Alþingi til útgáfu kennslubókar í spönsku. Vaxandi viðskipti vor við Miðjarðarhafslöndin krefjast þess, að sem flestir Íslendingar kynni sér tungur þeirra þjóða, sem þar búa, því að ógreið verða viðskiptin, ef allt þarf að sækja gegnum milligöngumenn útlenda, eða sjá allt í gegnum gleraugu erlendra, ókunnugra manna. Styrkur þessi er ekki stór, en líklegur þó til þess að verða þeim að liði, er vilja tileinka sér og nema þessi suðrænu mál.

Ég get nú að mestu leyti lokið máli mínu, en verð þó fyrst að minnast á nokkur atriði í sambandi við till. um utanfararstyrk Eiríks Bjarnasonar. Í till., sem hér liggur frammi, er t. d. farið fram á fjárveitingu til Ferðafélags Íslands, og enn annarsstaðar til sama félags í stærri stíl. Til Skáksambands Íslands og Sambands ísl. karlakóra er einnig lagt til, að veitt verði mikið fé. Ég er ekki beinlínis að mæla á móti þessu, en tel viðeigandi að gera samanburð á nytsemi þessara fyrirtækja og svo hinu, að tryggja hagkvæmustu aðferðir um sölu síldar og síldarverkun. Mér finnst blátt áfram hlægilegt að bjóða fram fé til fyrrnefndra félaga, sem hafa það eitt að markmiði að leika sér, en hafna jafnframt framlögum til þjóðþrifamála.

Ég gæti látið mér þetta nægja, en vil þó bæta við stuttri aths. um till. fjvn. á þskj. 366, 17. tölul. N. fer þar fram á, að tillag til Eimskipafélags Íslands verði fært upp, úr 200 þús. kr. í 250 þús. kr., eða með öðrum orðum: þrefaldað frá því, sem verið hefir, og þessi hækkun er skilorðslaus með öllu. Ég minnist þess nú, að fjvn. og nokkrir hv. þdm. lögðu saman við 2. umr. um að fella hæversklega till. mína og hv. 1. þm. N.-M. um að skilorðsbinda fjárveitingu þessa þann veg, að strandferðir fél. tækju til allra landshluta sem jafnast. Nú liggur næst að líta svo á, þegar fjvn. leggur til, að framlagið skuli enn hækka um 50 þús. kr. án nokkurs skilorðs, að þessi hækkun sé einskonar verðlaun til félagsins fyrir Norðurlandsferðir þess og einangrunina á Austfjörðum, eða upphvatning um að halda uppi enn tíðari ferðum vestur og norður um land, hvað sem hinum líður, sem hastarlegast eru afskiptir strandferðum. Ekki lítur þó út fyrir, að félagið hafi spunnið silki á ferðum þessum til Norðurlands, enda átti þá ekki að vera brýn þörf fyrir þessa styrkhækkun. Mér er að vísu óljúft að minnast Eimskipafélagsins á þennan hátt, en er tilneyddur, vegna vanrækslu þess um samgöngur austanlands nú undanfarið og þess hornrekuháttar, sem fél. hefir beitt Austfirði síðustu árin.

Mér eru ennþá í minni undirtektir fólksins í mínu héraði og nágrenni þess, þegar safnað var fé til stofnunar félagsins. Hygg ég, að hvergi hafi verið almennar og betur undir málið tekið en þar var gert, enda höfðu Austfirðingar þá um langan tíma notið allgóðra samgangna á sjó og kunnu manna bezt að meta þær. En eins og nú er komið má fullyrða, að vonir þess um samgöngubætur frá hendi Eimskipafél. hafi átakanlega brugðizt, jafnvel svo, að almennt er undan því kvartað.

Nú er þessi mikli fjárstyrkur boðinn án allra skilyrða eða skuldbindinga, og verður úr þessu að ráðast sem verkast vill, hversu úr rætist, þar eð ekkert tækifæri fæst héðan af til að skilorðsbinda styrkinn.

Þá er hér enn á sama þskj. till. frá hv. þm. Ak., þess efnis, að styrkur til Ríkarðs Jónssonar falli niður. Þetta tel ég ómaklega lagt til, því að fáir listamanna vorra hafa verðskuldað framar viðurkenningu en hann. Fyrir hans tilstilli og hagleika er nú komin upp ný iðngrein hér í bænum, skinniðnaður ýmiskonar, en sjálfur er Ríkarður þjóðkunnur hagleiksmaður og einna frumlegastur brautryðjandi í list sinni. Álít ég bæði rétt og skylt að láta hann njóta styrksins áfram. Reyndar veit ég, að flm. till. hefir sett hann í samband við till., sem hann flytur um styrkveitingu til annars manns, Geirs Þormars á Akureyri, og enn veit ég, að flm. ætlar, ef þessi till. verður samþ., að hverfa frá till. um það, að Ríkarðs styrkur falli niður. Ég tel rétt að styrkja Þormar, og mun hafa greitt honum atkv. mitt við 2. umr., en það myndi álítast ómaklega hefnt, að láta það hitna á Ríkarði, ef styrkurinn til Þormars yrði ekki samþ., og ég vil fastlega mælast til þess, að ekki verði Ríkarður látinn gjalda þess, þótt svo óheppilega tækist til um Þormar, að till. falli.