20.05.1933
Neðri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (2763)

163. mál, sýsluvegasjóð

Frsm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Á þskj. 727 er gerð nokkurnveginn nákvæm grein fyrir því, hvert er efni þessa frv., og einnig fyrir samræminu á milli þess og gildandi lagaákvæða. Ég skal geta þess um samanburð á nýja og gamla matinu, þar sem sýsluvegasjóðir eru starfræktir, þá mun láta nærri, að fasteignamatið frá 1922, með þeim viðbótum, sem urðu til 1931, og sem kemur til greina við útreikning sýsluvegasjóðsgjalds, samsvari nýja fasteignamatinu (1932) eins og það er á löndum og lóðum, að frádregnu ½ verði húsa. Eins og tekið er fram í grg. frv., þá verður fasteignamatið, sem sýsluvegasjóðsgjaldið er reiknað af, svipað og það var árið 1931 samkv. gamla matinu. Á því verða þó nokkrar breyt. á milli einstakra sýslna, sem komið hafa á hjá sér sýsluvegasjóðum, þó það muni ekki miklu í flestum þeirra. En þar er um að ræða 9 sýslur. Í 4 af þessum sýslum hefir matið lækkað, en í 8 sýslum hefir það hækkað. Mestur er mismunurinn í Mýrasýslu; þar hækkar matið um 63,6%. Í nál. er gert ráð fyrir, að það geti ekki stafað af öðru en óeðlilega lágu mati samkv. eldra fasteignamatinu. Mér hefir einnig verið bent á, að þetta stafaði að nokkru leyti af óeðlilega háu mati nú, en það skiptir ekki miklu máli, hvort heldur er. Hitt skiptir máli, að hækkunin er þar miklu meiri en annarsstaðar. Og hvernig sem að hefði verið farið um sýsluvegasjóðsgjaldið, þá hefði það hlotið að hækka mikið og koma harðar niður á þessari sýslu en öðrum. Sú grundvallarbreyting, sem felst í þessu frv. fer í þá átt að þyngja ekki um of á sýslufélögunum með þessum gjöldum til sýsluvegasjóða.

Þá vil ég minnast á nokkur önnur atriði í frv. til breytinga á núgildandi lögum. Er þá fyrst, að lágmark þess gjalds, sem sýsluvegasjóðum ber, er fært upp úr 1½‰ í sem svarar 2‰ samkv. eldra mati, eða 2‰ af löndum og lóðum og 1‰ af húsum. Það er fært í það lágmark, sem veitir rétt til framlags úr ríkissjóði á móti sýsluvegasjóðsgjaldinu. Hlutfallinu er haldið á móti framlaginu úr ríkissjóði. En samkv. lögunum er svo ákveðið, að þegar prómillegjaldið er komið yfir 6‰ í sýsluvegasjóð, þá veitir það rétt til þrefalds framlags úr ríkissjóði á móti. Ef einhver sýsla vill leggja yfir 6‰ í sýsluvegasjóð, þá þarf sérstaka heimild frá ráðherra til slíkrar hækkunar. Mér er sagt, að það hafi aðeins einu sinni komið fyrir og þá verið heimilað í hálfgerðu ógáti af stj. og að það hafi verið hv. flm. frv., sem kom því til leiðar. Þetta ákvæði um skyldu ríkissjóðs til þrefalds framlags er nú fellt niður samkv. frv., þannig að ríkissjóður er nú ekki skyldaður til þrefalds framlags, þó að prómillegjald í sýslusjóði fari upp úr 6‰. Aftur á móti er haldið ákvæðunum um það, að heimild ráðh. þurfi til hækkunarinnar.

Síðasta verulega breyt., sem gerð er á lögunum, er um aukafjárframlög einstakra sveitarfélaga. Samkv. gildandi lögum er sýslunefndum heimilað að skylda sveitarfélög til þess að greiða aukaframlög í sýsluvegasjóð, og hafa lögin verið skýrð þannig, að ríkissjóði bæri aðeins að leggja fram á móti þeim sérstaklega án þess að telja þau með ‰ gjaldi sýsluvegasjóðanna til hækkunar.

Sá skilningur mun vera gagnstæður því, sem til var ætlazt með lögunum, og er nú séð fyrir því, að svo verði ekki framvegis: Samkvæmt frv. ber því ríkissjóði að greiða á móti öllum slíkum aukaframlögum eins og þau væru lögð á sem ‰ gjald. Ef eitthvert sýslufélag leggur á samkv. hámarki ‰ gjalds til sýsluvegasjóða og krefur sveitarfélög ennfremur um aukaframlög, þá verður ríkissjóður að leggja fram á móti aukaframlaginu eins og hæsta ‰ gjaldi til sýsluvegasjóða, jafnmikið samkv. lögunum, en tvöfalt samkv. frv. Þetta er talsverð réttarbót fyrir sýslufélögin frá því, sem verið hefir. Ég skal taka það fram, að hingað til hafa lögin ekki verið skilin á þann hátt, sem ég nú hefi gert. En nú ætti ekki að vera ágreiningur um þau hér eftir, og framlagið úr ríkissjóði ætti að verða nokkru ríflegra en verið hefir. Ég vil taka það fram, til þess að fyrirbyggja misskilning, um heimild fyrir sýslufélög til þess að leggja aukaframlög á hreppsfélög, að þó svo sé ákveðið í frv., að framlagið fari aldrei yfir 6‰, þá getur það krafizt fjár á móti aukaframlaginu, þó að sýslufél. hafi í raun og veru ekki heimild til að leggja á hærra ‰ gjald. En með þessu fyrirkomulagi er því breytt, að sveitarfélögin sjái fótum sínum forráð og leggi ekki á hærri vegagjöld en fært þykir að standa undir.

Ég held, að ég hafi þá tekið fram allt það, sem nauðsynlegt er til þess að fyrirbyggja misskilning. Vænti ég, að þetta mál hafi verið skýrt svo rækilega í grg., nál. og framsöguræðu minni, að hv. þdm. hafi við athugun á því áttað sig á, hvað í frv. felst og hverjar breytingarnar eru frá núgildandi löggjöf um þetta efni. Hinsvegar geri ég ráð fyrir því, að ef einhverjum þykir á skorta um upplýsingar, þá muni hann láta til sín heyra. Gæti ég þá brotið málið betur til mergjar, svo að enginn þurfi að vera í óvissu um þessi atriði.