02.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (2776)

150. mál, almennur ellistyrkur

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. Ísaf. beindi nokkrum orðum til mín sem aðalflm. frv. út af því, að ég segi í grg., að ekki sé útlit fyrir, að almennar tryggingar komizt á á næstunni. Var helzt á honum að skilja, að það væri á mínu valdi., að koma gegnum allshn. frv. á þskj. 81 um alþýðutryggingar. En hvernig sem ég liti á það frv., sem ég skal að vísu játa, að hefir margt gott að geyma, er á það að líta, að ég ræð litlu um það, hvaða mál eru tekin á dagskrá í nefndinni. Hv. þm. Ísaf. ætti miklu fremur að snúa sér til form. n. út af því. Annars vil ég minna þennan hv. þm. á það, að þótt hann hafi gert sér mjög títt um allshn. í vetur, sem eðlilegt er, þar sem hún hefir haft til meðferðar mörg af þeim málum, sem hann hefir borið fram, þá hefir hann aldrei ýtt við þessu máli. Það er líka svo um þetta frv., þótt það sé að ýmsu merkilegt plagg, að ég býst við, að till. þær um atvinnuleysistryggingar, sem það hefir að geyma, eigi töluvert langt í land, því að margir vilja heldur veita fé til atvinnubóta en lögfesta slíkar tryggingar, og þannig mun vera sá ágreiningur um fleiri atriði frv., að útilokað var, að það hefði náð samþykki á þessu þingi. Ég býst við, að tryggingarlöggjöf vor verði sett stig af stigi, og ég hygg, að það hafi ekki verið ofmælt hjá mér, að dráttur myndi verða á fullkominni tryggingarlöggjöf.

Frv. okkar um almennan ellistyrk er því aðeins bráðabirgðaráðstöfun til að hækka útlátin að talsverðum mun, í því skyni, að ellihrumir eigi hægari aðstöðu. Að þessi hugmynd hefir fengið samúð, sést á því, að allshn. mælir óskipt með frv. Á slíkum tímum, sem nú eru, er eðlilegt, að sumir hneigist til þess að stilla kröfum sem þessum í hóf, ef þær eiga fram að ganga. En séu umbótamálin aðeins borin fram til að sýnast, er hægt að varpa fram stórum bálkum, sem hafa stórfelld útgjöld í för með sér, og það held ég, að jafnaðarmenn hafi vitað fyrirfram, að ekki blési byrlega nú fyrir frv. þeirra á þskj. 81.

Af öllum þeim, sem erfitt eiga, verð ég að telja, að sjúkir menn og ellihrumir þurfi helzt styrktar við. Þetta frv. miðar að því að bæta að nokkru leyti hag annars aðilans. Vil ég því ekki gangast við því, að óeðlilegt sé, að ég, sem á sæti í allshn., beri þetta frv. fram. Þegar vitað er, að ekki er hægt að koma hinum stærri umbótum fram, verða menn að sætta sig við hinar smærri.

Þeir hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Mýr. bera hér fram brtt. við frv. Ég þarf ekki að endurtaka hér þau andmæli gegn þessum brtt., sem þeir hv. þm. N.-Ísf. og hv. 1. þm. S.M. hafa borið fram. Ég vil þó segja það til viðbótar, að ef bæta á álagningu á útsvörin í einum sérstökum tilgangi, er óvíst, hvar yrði látið staðar numið. Útsvörin eru nú lögð á til sveitaþarfa og ekki sízt til fátækramála. Yrði þetta fordæmi gefið, má búast við, að farið yrði fram á að leggja á niðurjöfnunina í öðru skyni.

Ég skal geta þess, að ég hefði kosið að hafa ellistyrktarsjóðsgjöldin hærri, ef ég hefði haldið, að það fengi byr. En upphæðin, eins og hún er nú eftir frv., er alveg hverfandi póstur fyrir hvern gjaldanda, þótt það sé greitt sem nefskattur til gamla fólksins, í samanburði við útsvörin. Þetta er upphæð, sem engan dregur. Þó væri ég hlynntur því, að gjald þetta væri hærra á ríkum mönnum en fátækum, ef hægt væri að koma því við með góðu móti, en ég ætla, að hér sé aðeins um „princip“atriði að ræða hjá hv. þm. Ísaf., sem ég og hv. þm. N.-Ísf. og hv. 1. þm. S.-M. og fleiri kunna ekki við að ganga inn á í þessu efni.

Upphæðirnar úr sjóðnum eru ekki eins hégómlega lágar og hv. þm. Ísaf. vildi vera láta. Margir fá 60—80 kr. og með hækkun nefndarinnar gæti þetta rúmlega tvöfaldazt. Þetta yrði til talsverðra bóta í bili, en endanleg lausn er því ekki ætlað að vera, eins og ég hefi þegar tekið fram.