02.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (2777)

150. mál, almennur ellistyrkur

Guðbrandur Ísberg:

Ég vil taka undir það, að ég tel ekki rétt að gera gagngerðar breytingar í þessum efnum, nema með nýjum lögum um almennar ellitryggingar. Frv. í þá átt hefir komið fram, og er vonandi, að ekki líði á löngu þangað til það verður samþ., en af fleiri ástæðum er óheppilegt að taka þetta mál út úr nú. Hér er líka gengið inn á alveg nýja braut, sem hvergi er farið eftir í öðrum tryggingum. Í slysatryggingum greiðir hver einstakur maður í sama flokki jafnt gjald án tillits til efna og ástæðna, og sama er að segja um líftryggingar og ellitryggingar hjá vátryggingarfélögum.

Hv. þm. Vestm. sagði, að ef ætti að fara að jafna þessum gjöldum niður ofan á útsvörin, væru engin takmörk fyrir því, hve langt mætti ganga í slíku. Þetta er alveg rétt, og aðferðin er mjög óheppileg. Ef því er slegið föstu að leggja gjaldið á með þessu móti, væri auðvitað sjálfsagt, að sveitarfélögin legðu það á með útsvörunum og innheimtu það með þeim. En hér er lögð til sérstök niðurjöfnun, og síðan á sýslumaður eða bæjarfógeti að innheimta gjaldið með tekju- og eignarskatti. Nú er fjöldi af útsvarsgjaldendum, sem engan tekju- eða eignarskatt greiða. Fleira mætti athuga við frv., en ég læt þetta nægja að sinni og lýsi aðeins yfir því, að ég mun greiða atkv. gegn brtt. á þskj. 498.