11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

1. mál, fjárlög 1934

Haraldur Guðmundsson:

Ég á nokkrar brtt. á þskj. 366, sem ég verði grein fyrir áður, við 2. umr., en tók þá aftur.

Fyrsta till., IV, fer fram á, að veittur verði 6000 kr. styrkur til viðbyggingar við sjúkrahúsið á Seyðisfirði. Við 2. umr. flutti ég till. um sama efni, aðeins var upphæðin þá hærri, eða 12000 kr. Síðan hefi ég fengið teikningu af þessari fyrirhuguðu viðbyggingu, ásamt áætlun um það, hvað hún muni kosta. Skal ég leyfa mér að lesa hér upp dálítinn kafla úr þessari lýsingu:

„Þessi viðbygging, þótt ekki sé stærri, bætir til mikilla muna húsnæðisástandið í sjúkrahúsinu. Í henni fæst dagstofa eða setustofa fyrir sjúklinga, sem nú er engin, skurðstofa sæmilega góð, og rúm fyrir 3 sjúklinga, í tveimur herbergjum, og þar að auki, þegar skurðstofan, sem nú er, losnar, fæst þar rúm fyrir 2 sjúklinga, svo að aðstaða öll myndi verða mun betri en áður, svo sem hin mesta þörf er á, og myndi þá ekki þurfa að jafnaði að neita sjúklingum eins oft um inntöku, eins og þurft hefir undanfarið“.

Eins og drepið er á í því, sem ég las upp, er oft svo ástatt, að sjúkrahúsið getur ekki veitt sjúklingum viðtöku, jafnvel eftir að þeir eru komnir á staðinn, ef um utanbæjarmenn er að ræða. Ef þessi styrkur fengist, fengjust 5 rúm í viðbót, auk setustofu fyrir rólfæra sjúklinga. Verður þetta um 1000 kr. kostnaður á rúm, sem telja verður mjög ódýrt. Ég vænti þess, þar sem ég hefi lækkað till. svo mikið, að hv. d. sjái sér fært að samþ. hana. Skal ég aðeins til viðbótar geta þess, að þetta er helmingur þess kostnaðar, sem gert er ráð fyrir, að viðbyggingin kosti, því að samkv. áætluninni á hún að kosta 12000 kr.

Næsta brtt. mín er á sama þskj., XII. þess efnis, að framlagið til Fjarðarheiðarvegar verði hækkað um 5000 kr., úr 8000 upp í 13000. Sé ég, að hv. fjvn. gerir till. um að hækka þennan lið um 2000 kr., úr 8000 upp í 10000 (þskj. 366,XIII), og mundi ég eftir atvikum geta fallizt á að taka þessa till. mína aftur, ef fjvn. gæti fallizt á till. mína á þskj. 386,III, sem fer fram á 3000 kr. framlag til ræktunarvegar á Seyðisfirði, eða sem svarar þeim mismun, sem er á þessari till. minni og till. n. viðvíkjandi framlaginu til Fjarðarheiðarvegar. Ef sú verzlun gæti tekizt við n., að hún mælti með þessari till. minni um 3000 kr. styrk til ræktunarvegarins, er ég fús á að taka hina till. mína aftur. (TrÞ: Er ekki von á fleiri tilboðum til n. um hrossakaup?). Til væri ég í það, ef eitthvað væri upp úr þeim viðskiptum að hafa. — Í sambandi við þessa till. vil ég geta þess, að ég hefi fengið umsögn Pálma Einarssonar ráðunauts um þennan ræktunarveg. En sá er ljóður á, að á milli er lágur háls, sem ekki er hægt að komast yfir með kerru, og því síður bíl, og verður því að flytja á klökkum, sem er ákaflega dýrt og óhöndulegt.

Ég held, að málið skýrist bezt, ef ég les upp bréf frá Pálma Einarssyni, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt ósk yðar, herra alþingismaður, vil ég hér með staðfesta, að Búnaðarfélag Íslands hefir í tillögum sínum viðvíkjandi ræktunarmálum Seyðisfjarðarkaupstaðar, meðal annars í bréfum sínum til bæjarstj. Seyðisfjarðarkaupstaðar, dags. 15. ág. 1929 og 4. apr. 1930, lagt það til, að bærinn ræktaði upp 50 hektara á Vestdal, með því markmiði, að þar yrði síðan stofnað kúabú af bæjarfélaginu.

Til þess að hægt sé að hefja þessa ræktun og jafnframt strax að hafa hennar not fyrir bæinn, er óumflýjanleg nauðsyn, að vegur sé lagður af brautinni, er liggur út til Vestdalseyrar og upp í Vestdalinn að aðalræktunarlandinu þar. Þessi vegur mundi kosta um kr. 500, og er þar þá ekki reiknað efni til brúar á Vestdalsá. Ég tel alveg óhjákvæmilegt, að bærinn byrji á vegalagningu þessari til undirbúnings væntanlegum ræktunarframkvæmdum, áður en þær hefjast, svo að allir flutningar að og frá geti orðið framkvæmdir á sem ódýrastan hátt.

Leyfi ég mér að mæla með því, að til þessa verði Seyðisfjarðarkaupstað veittur tilsvarandi fjárhagslegur stuðningur af hálfu hins opinbera sem önnur kauptún, svo sem Vestmannaeyjar hafa notið.

Virðingarfyllst Pálmi Einarsson“.

Nú hefir hv. frsm. fjvn. í viðtali við mig bent mér á það, að um Vestmannaeyjar gilti nokkuð annað en um Seyðisfjörð, þar sem landið þar er eign ríkissjóðs, og ríkissjóður fái því meiri leigu, ef landið er tekið til ræktunar. En ég sé, að til ræktunarvegar á Akranesi, þar sem svipað stendur á og á Seyðisfirði, er ætlazt til, að þorpið leggi fram 3/4, en ríkissjóður ¼. Ég er til með — af því að ég er frekar liðlegur til verzlunar — að leita samkomulags við fjvn., hvort hún gæti ekki fallizt á þessa till. með því að breyta henni þannig, að jafnhátt verði framlag frá bæjarsjóði. Ég held, að ef á annað borð á að styrkja bæjarfélög til þess að hafa betri not af landi til ræktunar, þá sé ekki ástæða til að krefjast meira en helmings kostnaðar; að öðrum kosti kunna framkvæmdir að tefjast, og get ég búizt við, að svo verði þarna. Ég geri ráð fyrir, að ef ríkissjóður legði fram helming, þá sé ekki ástæða til að breyta upphæðinni, vegna þess að brúin, sem er einn liður í vegagerðinni, kostar meira en þessar krónur, sem á milli ber.

Þá á ég á þskj. 366 ásamt samflokksmönnum mínum hér í hv. d. till. nr. XXXIII, um 1 millj. kr. til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum, gegn jafnháu framlagi á móti.

Ég gerði grein fyrir þessu við 2. umr., og hefi engu við að bæta öðru en því, að mér hafa orðið það nokkur vonbrigði, að hvorki kreppunefnd né fjvn. hafa einu orði minnzt á till. eða látið í ljós álit sitt um hana. Þykist ég sjá fram á, að hún verði drepin. En mér finnst það býsna harðleikið, vægast sagt, að gera það áður en nokkuð örlar á till. til að afstýra þeim vandræðum, sem eru alveg fyrirsjáanleg, nema eitthvað verulega röggsamlegt verði gert af hálfu þess opinbera. Að öðru leyti vísa ég til þess, sem ég sagði við 2. umr.

Þá á ég ennfremur till. nr. XLVI á sama þskj., við 22. gr., að koma inn nýrri heimild fyrir ríkisstj. til að veita styrk í eitt skipti fyrir öll til þess að gera tilraunir með útflutning ísaðrar haust- og vetrarsíldar frá Austfjörðum, og skal styrkurinn miðaður við það, að útflytjendur fái sem svarar 6—7 kr. fyrir hverja tunnu hrásíldar, komna á skipsfjöl.

Þessi till. er flutt eftir eindregnum á skorunum bæði frá þingmálafundum eystra og fjölda manna og félaga, sem við þetta eru riðnir. Ég vil geta þess, að ég hugsa mér þetta nákvæmlega hliðstætt því, sem jafnan var heimilað að veita S. Í. S. til að halda uppi flutningum á frystu kjöti til Englands, og einmitt varð til þess, að þær framkvæmdir komust í fast horf. Útflutningur á síld til Englands í þessu verkunarástandi er á byrjunarstigi enn. Verðupphæð hverrar tunnu er miðuð við það lægsta verð, sem yfirleitt var hægt að selja á síðastl. vetri. Í samanburði við verð á sumarsíld er þetta lágt, því að á vetrum er miklu dýrara að fást við veiðar en á sumrin. Þó skal ég ekki segja, að ekki væri hægt að lækka eitthvað upphæðina, ofurlítið á tunnu, til þess að fært yrði að framkvæma þessar tilraunir. Ég skal geta þess, að ég hefi ekki hugsað mér, að þetta yrði gert í stórum stíl, t. d. 4 reynsluferðir með 2 þús. kassa, 8 þús. kassa alls, eða 6 þús. tunnur. Þó að hallinn yrði 1—2 kr. af tunnu, þá er það ekki nema mjög smávægileg upphæð fyrir ríkissjóð. Og von mín er sú, eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, að einmitt þarna sé möguleiki til þess að skapa sæmileg afsetningarskilyrði fyrir þessa síld í framtíðinni. En því aðeins verður það gert, að mönnum verði gert kleift að gera þær tilraunir, sem nauðsynlegar eru. Yfirleitt eru ástæður manna eystra svo, að enginn hefir neitt til að leggja í áhættu, þó að hann vildi, og því verður erfitt um allar tilraunir til nýbreytni, sem nokkur peningaútlát heimta.

Loks á ég á sama þskj. ásamt hv. 1. þm. S.-M. tvær till. um heimild til ríkisábyrgðar fyrir bæjarfélögin á Seyðisfirði og Eskifirði. Fyrir þeim báðum gerði ég allýtarlega grein ásamt hv. 1. þm. S.-M. við 2. umr., og hefi í rauninni engu þar við að bæta. Ég vil bara enn á ný vekja athygli hv. dm. á því, að hér er ekki um neitt nýtt að ræða fyrir Seyðfirðinga, heldur endurveiting samkvæmt fyrri samþykktinni, sem aldrei var framkvæmd.

Til þess að hv. þdm. megi vera ljóst, hvílík nauðsyn er á þessari ábyrgð fyrir Eskifjörð, skal ég leyfa mér að lesa upp kafla úr skýrslu um ástandið á Eskifirði, sem oddvitinn, Ólafur Sveinsson, hefir samið. Skýrslan, er um atvinnuástandið fyrsta ársfjórðung þessa árs.

Atvinnulausir með öllu eru 45 daglaunamenn, sem allan tímann hafa haft 3307 krónur. Þar af er meira en helmingur, eða 1779 kr., fyrir atvinnubótavinnu. Þessir menn hafa á framfæri með sjálfum sér 113 menn. Verða því tekjurnar á hvern neytanda í þeim flokki kr. 29,27 yfir ársfjórðunginn. 60% af því er tekið með atvinnubótavinnu.

Skipstjórnarmenn eru sex, vélamenn eru sex. Þar hafa tekjurnar orðið hæstar, kr. 37,21 á neytanda á ársfjórðungnum. Hásetar eru 11. Þar verða tekjurnar á hvern neytanda kr. 23,30 á ársfjórðungnum. Handverksmenn eru 8 og hafa 33 menn fram að færa. Þeirra tekjur verða á hvern neytanda kr. 31,09 á ársfjórðungnum.

Um atvinnuhorfurnar er það að segja, að vélbátar eru sex sjófærir og stunda nú róðra frá Hornafirði. Á þeim eru rúmir 20 sjómenn, og álíka margir, sem vinna við þá í landi. Ennfremur segir, að til hafi verið fleiri en sex bátar, en séu ósjófærir með öllu, og vanséð, að borgi sig að gera við þá. En þó að þessir 6 bátar séu allir í gangi, þá er meira en helmingur sjómanna, sem ekki á nokkurn kost á skipum.

Ennfremur segir, að hagur hreppsins sé eftir þessu. „Þótt hér séu nokkrir opinberir starfsmenn, sem hafa mjög sæmileg laun og greiða ásamt verzlunum hærri útsvör hlutfallslega en dæmi munu til vera annarsstaðar, þá hrekkur það skammt fyrir vaxandi þörfum. hreppsfélagsins, þar eð allur fjöldi manna hefir af engu að greiða, þótt á þá séu lögð há útsvör.

Viðreisnarhjálp til atvinnuvega hreppsbúa er því óhjákvæmileg strax. Annars lítur ekki út fyrir annað en að allmikill hluti þeirra verði kominn upp á náðarbrauð ríkissjóðs næsta vetur, og kannske lengur, því að hreppurinn er ekki fær um að framfleyta þeim, sem nú leita til hans.

Skuldir hreppsins eru nú langt fram yfir það, sem hann getur staðið straum af. Verður hann því gjaldþrota innan skamms, ef ekki verður um þær samið. En það er þýðingarlaust með öllu, meðan atvinnuástand það ríkir, sem nú er hér.

Ég skora því fastlega á ríkisstjórnina að fylgja einbeittlega til framgangs þeim tillögum, sem fram koma á Alþingi nú til viðreisnar atvinnuvegum hreppsbúa hér, og sjá svo um, að þær verði framkvæmdar strax, en ekki lendi við orðin tóm, eins og síðast varð, er Eskfirðingar fóru fram á slíka hjálp“.

Ég hefi engu við þetta að bæta. Hér er sagt glöggt og hispurslaust, hvernig ástandið er. Það er bersýnilegt, að um tvennt er að velja: að láta bæjarbúa flosna upp og hreppinn fara á höfuðið, eða þá á einhvern hátt að rétta hjálparhönd. Og það eru ekki aðrar leiðir líklegri en að hjálpa þeim til að fá einhver starfstæki.

En allt það sama, sem hér er sagt um Eskifjörð, það getur átt við á Seyðisfirði, hvenær sem eitthvað bjátar á. Því að Seyðfirðingar eru engu betur settir en Eskfirðingar, nema síður sé. Það, sem hefir gert muninn, er það, að tvö síðustu ár voru þeir svo heppnir að fá síld að vetrinum, þegar vandræðin voru mest, sem hætti úr sárustu neyðinni. En sá atvinnustofn, sem Seyðfirðingar geta byggt á, er engu meiri en á Eskifirði.

Þess vegna held ég, að því er Seyðfirðinga snertir, að bezt sé að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í og veita þeim hjálpina, sem þeir biðja um, nú þegar. Er þá meiri trygging, að hjálpin komi að gagni heldur en síðar.

Ég held það séu ekki fleiri till., sem fellur á mig að gera grein fyrir. En áður en ég lýk máli mínu, verð ég að víkja örfáum orðum að 6. till. fjvn. á þskj. 386, þar sem lagt er til að heimila ríkisstj. að draga úr verklegum framkvæmdum og leggja niður rekstur stofnana, „ef nauðsyn krefur“, eins og það er orðað. Af því að ég er góðgjarn maður, þá hefði ég kosið fjvn. sjálfrar vegna, að hún hefði ekki gerzt til að flytja slíka till. Ég sé ekki betur en að með þessu taki hún aftur allt það skársta, sem í nál. var að finna. Í nál. kemur í ljós, að n. telur erfiðar horfur í landinu, og hún tekur nokkrar smátill. til aukinnar vegagerðar, sérstaklega með það fyrir augum að bæta úr atvinnuleysinu í landinu. Ég er alveg sammála n. um þá stefnu. En svo leggur hún til, að ríkisstj. verði heimilað, ekki bara að taka nokkra tugi þús., heldur fjórða part af fé allra verklegra framkvæmda —, ef nauðsyn krefur. En það þýðir: ef ástandið versnar. En ef ástandið versnar í landinu, þá kemur það fyrst og fremst niður á því, að atvinnuleysi í landinu verður meira og þörfin, sem fjvn. virðist nú sjá í aukinni vinnu við vegabætur, verður ennþá brýnni. Ég harma það mjög, að fjvn. skuli koma með þessa till. Ég mun greiða atkv. á móti henni, því að reynslan sýnir, að ef í nauðir rekur, þá er skorið niður, hvað sem fjárlög segja. En ég sé sannarlega enga þörf á að eggja hæstv. núv. ríkisstj. til að spara í þessu efni eða draga úr atvinnu í landinu.