02.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

150. mál, almennur ellistyrkur

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég býst við, að það sé engin ástæða til að fresta umr. N. er alveg mótfallin því fyrirkomulagi, að þessum litlu ellistyrktarsjóðsgjöldum sé jafnað niður árlega sem hundraðsgjaldi í hlutfalli við útsvör gjaldþegna. Út af því, sem talað hefir verið um, að gamalt og ellihrumt fólk njóti lítils stuðnings af þeim ellistyrk, sem því er úthlutaður, vegna þess hvað hann er lítill, vil ég benda á, að það eru mörg dæmi þess, síðan kreppan fór að sverfa að bændum, að ársvöruúttekt þeirra í kaupstað nemur í mörgum tilfellum eigi meiru en 300—500 kr., og ég hygg, að fáir bændur fari fram úr 700—800 kr. vöruúttekt árlega nú síðustu missirin, nema á stærstu og fjölmennustu heimilum. Af þessu geta allir séð, að það er talsverður styrkur fyrir gamalmenni í sveitum og munar þau miklu að fá árlega 60—100 kr. Hitt skal ég játa, að í kaupstöðum kemur þessi ellistyrkur að minna gagni hlutfallslega fyrir einstaklinga. Ég þekki þess dæmi, að gamall maður, sem hafði litla atvinnu, var eigi aðeins sjálfbjarga fyrir þann ellistyrk, sem honum var úthlutaður, heldur rétti hann nokkurn stuðning þeirri fjölskyldu, sem hann bjó hjá. En hér er í þessu frv., sem fyrir liggur, gert ráð fyrir því, að styrkurinn hækki til muna frá því, sem hann er nú, og hygg ég, að hann muni þá koma mörgu gamalmenninu að verulegum notum.