11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

1. mál, fjárlög 1934

Þorleifur Jónsson:

Ég á eina brtt. á þskj. 376, XVI. lið, við 16. gr.: Til að verja engjalönd í Mýrahreppi eyðingu af vatnságangi úr Hornafjarðarfljótum, gegn 14 annarsstaðar að, 3300 kr.

Þetta mál á nú sína sögu. Eins og hv. þdm. er kunnugt, var í hitteðfyrra, samkv. till. Búnaðarfélags Íslands og eftir ósk manna þar austur frá, ákveðið að heimila nokkurt fjármagn til þess að gera rannsókn á vatnasvæðum Hornafjarðarfljóts, sökum þess að þau hafa á seinni árum gengið allmikið á engjalönd vestanmegin fljótanna. Fyrir þessa upphæð var í sumar framkvæmd rannsókn á því, hvað mundi vera hægt að gera til varnar vatnságangi. Eins og kunnugt er, þá falla Hornafjarðarfljót frá jöklum til sjávar um mitt undirlendið í Hornafirði, milli sveitanna Nesja að austan og Mýra að vestan. Fyrr á tímum lágu fljótin meira austur við, eyddu stór engjaflæmi Nesjamegin; en nú á síðari árum hafa þau lagzt mest að vesturlandinu og flætt þar á, svo að næst fljótinu eru aðeins eftir hólmar, þar sem áður voru samfelld engjastykki. Og þau sækja meir og meir á það land, sem eftir er. Þar, sem þau liggja mest á, er sumpart starengi og sumpart rímar og hólmar með kjarngóðu grasi, og eru þessi engjalönd ein hin beztu í sýslunni.

Nú skal ég víkja að því, að herra Ásgeir Jónsson verkfræðingur frá Búnaðarfélaginu var sendur austur í sumar, til þess að athuga þá hættu, sem af vötnunum gæti stafað, og gera till. um það, hvað fært væri að gera. Þessar till. hans hafa legið fyrir þinginu, og kem ég að þeim síðar. En til frekari skýringar á málinu skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr bréfi frá hreppsnefnd Mýrahrepps, sem legið hefir fyrir Alþingi og skýrir bezt þetta mál. Þar segir svo:

„14 býli eiga engjalönd sín liggjandi að fljótunum vestanverðum, og hafa þau öll nú þegar orðið fyrir miklu tjóni af þeirra völdum, og hefir ábúð því aðeins haldizt við á þeim býlum, að af miklum engjum hefir verið að taka. Þar að auki lítur nú út fyrir, að fljótin muni mjög bráðlega geta bætt við sig engjalöndum ennþá 4 býla til ágangs, ef ekkert verður aðhafzt.

Heyfengur af engjalöndum þessara 18 býla, sem fyrir ágangi fljótanna liggja, mun hafa verið ca. 4500 hestar til jafnaðar á ári nú hin síðustu ár, og er nokkur hluti þess talið töðugæft hey. Aðstaða til vatnsvarnar er þarna óhagstæð. Fljótin renna á stóru svæði yfir lausar leirur og bera stöðugt með sér leir og sand og grafa grunna ála í leiruna hér og þar, fylla þá upp aftur og grafa nýja. Vatnsbotninn hækkar stöðugt af framburði fljótanna, og leitar vatnið að sama skapi á graslendið, sem er sumpart orðið og verður stöðugt lægra en yfirborð vatnsins. Þar, sem vatnið liggur á, hverfur fljótlega öll grasrót“.

Þetta eru nú aðalatriðin úr því bréfi, sem hér liggur fyrir frá bændum í Mýrahreppi. Ég vil geta þess, að þessi 14 býli, sem talað er um, eru eftir hinni nýju jarðabók um 300 hundraða að fasteignamati, þ. e. a. s. landverðið. Þetta eru að vísu engin stórbýli, en á þeim hafa þó framfleytzt fjölskyldur frá ómunatíð. Og ef engjarnar eyðast, munu og býlin leggjast smátt og smátt í auðn.

Í framhaldi af þessu vil ég leyfa mér að skýra ofurlítið frá áliti Ásgeirs Jónssonar verkfræðings, og tek kafla hingað og þangað úr áætlun og till. hans, með leyfi hæstv. forseta:

„Vestanmegin hafa fljótin til skamms tíma eigi valdið stórfelldum skemmdum, en hin síðustu ár hafa þau flætt meira og meira inn yfir engjalöndin undan Viðborðsseli, og sumpart gert heyöflun örðuga og dýra, en sumpart útilokað heyskap með öllu.

Á þessu svæði hafa farvegirnir hækkað það mikið, að nú geta fljótin, ef ekkert er aðhafzt til varnar, á löngum eða skömmum tíma — eftir atvikum — lagzt yfir engjalönd þau, er liggja fyrir austan Viðborðssel, alla leið að Djúpá. Engjalönd þessi eru nytjuð frá 14 býlum, og er hinn árlegi heyafli á þeim alls um 3000 hestar“.

Síðan segir hann, hvað tiltækilegast sé að gera til varnar vatnságangi á Mýrunum:

„Til að draga úr frekari skemmdum beggja megin við fljótin, samkvæmt áður sögðu, þarf að gera tvo varnargarða: Annar þeirra liggi úr Viðborðsnesi í Þjófasker (sjá uppdrátt), og er sú leið um 3 km., en hinn liggi nálægt Arnarbæli (hjá Hoffelli) í Gildrasker, og yrði sá garður um eða tæplega 4 km. að lengd. Þessir tveir varnargarðar yrðu óháðir hvor öðrum. Þannig má byggja annan þeirra, en láta hinn bíða, eftir því sem ástæður þykja til“.

Leggur verkfræðingurinn til, að fyrst verði snúið að því að byrja á vatnsvörnum vestanmegin, en láta garðinn að austanverðu: Arnarbæli-Gildrasker, bíða fyrst um sinn. Og segir svo:

„Tiltækilegast mun vera að gera tilraun með timburgirðingu. Á hún, samkv. eldri reynslu, að marka vatnsrennslinu farveg og skapa um leið grundvöll undir ódýrari garðbyggingu úr torfi eða grjóti, er komi í stað timburgirðingarinnar um leið og hún gengur úr sér.

Eins og ég hefi tekið fram, þá þarf þessi vatnsvörn að ná frá Viðborðsnesi í Þjófasker, og eru það um 3 km. á lengd. Þó mun hyggilegra að taka eigi alla leiðina fyrir í einu, heldur aðeins 1/3 hennar, eða efstur 1000 m. — reiknað frá Viðborðsnesi. Á þessum kafla er þörfin brýnust, en auk þess er ráðlegt að fá þarna staðbundna reynslu, áður en verkinu er haldið lengra áleiðis“.

Síðan kemur kostnaðaráætlun yfir þessa þúsund metra, og er sundurgreint hvað fyrir sig, efni, vinna og flutningur. Alls áætlar hann, að þessi eini km. af garðinum muni kosta 4400 kr. Nú fer ég fram á, að veittar séu 3300 kr., eða ¾ af áætlunarkostnaði. Það er með tilliti til þess, sem áður hefir tíðkazt um framlag ríkissjóðs til slíkra fyrirtækja sem þessa.

Jafnframt skal ég geta þess, að þessi plögg öll hafa legið fyrir Búnaðarfélagi Íslands á síðasta ári og fengið meðmæli búnaðarþings. Till. er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarþingið mælir með því, að Alþingi veiti bændum í Mýrahreppi í Austur-Skaftafellssýslu styrk til varnar skemmdum af Hornafjarðarfljóti á engjalönd þeirra, eftir þeim reglum, er Alþingi fylgir um styrkveitingar til slíkra eða hliðstæðra framkvæmda“.

Ég vona, að menn sjái, að þessi till. mín er ekki út í bláinn, heldur er hún byggð á athugun verkfræðings fyrst og fremst. Auðvitað verður að játa, að þetta er tilraun, sem ekki er vist að heppnist, en verkfræðingurinn telur, að einmitt á þessum slóðum sé gott tækifæri til að fá reynslu um það, hvort slíkar vatnsvarnir myndu duga á Íslandi. Hann segir, að þær tíðkist suður um Evrópu hér og þar. Telur hann, að hér eystra hagi líkt til og á ýmsum stöðum við Inn og Doná, þar sem slíkar fyrirhleðslur eru gerðar.

Ég vænti þess, að hv. d. líti svo á, að hér sé ekki um svo stóra fjárhæð að ræða, að fráleitt sé, að tilraun verði gerð um þessar vatnsvarnir. Ef hv. þm. vildu kynna sér, hvernig þarna stendur á, er til uppdráttur af landslagi og fyrirhuguðum garði.

Þetta er merkilegt mál, og ég vona, að það njóti þess við atkvgr. Ef vel tekst um þessa tilraun, getur hún orðið til að bjarga stóru landi undan eyðileggingu, ekki aðeins á þessum stöðvum, heldur ef til vill víða annarsstaðar á landinu.