11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

1. mál, fjárlög 1934

Hannes Jónsson:

Ég á aðeins 2 litlar brtt. við fjárl. að þessu sinni.

Á þskj. 376, XII á ég till. um að veita Skáksambandi Íslands upp í ferðakostnað 5 taflmanna á alþjóðaskákþing í Englandi sumarið 1933 1500 kr., og til vara 1000 kr.

Eins og kunnugt er, hefir skáklistin þroskazt allmikið hér hjá okkur hin síðustu ár. Árið 1930 fóru 4 okkar beztu skákmenn á heimsmót skákmanna í Þýzkalandi og gátu sér mjög góðan orðstír. Til dæmis um það, hversu góða för þeir gerðu, má benda á það, að 2 færustu skákmenn, annar frá Englandi og hinn frá Þýzkalandi, töluðu skákum þar fyrir Íslendingum, sem héðan fóru. Að vísu urðu þeir ekki ofarlega í röðinni, en þó urðu nokkrar þjóðir neðar en Íslendingar. Þetta var í fyrsta skipti, er Íslendingar hafa mætt á slíku móti. Nú væri ánægjulegt að sjá, hvort íslenzkum skákmönnum hefir ekki farið fram síðan, og hvort þeir á heimsmóti skákmanna, sem á að vera í Englandi í sumar, geta ekki gert okkur enn meiri sóma. Auk þess, sem þessi íþrótt er heimsíþrótt, sem við kannske erum betur staddir til að taka þátt í með öðrum þjóðum heldur en nokkurri annari íþrótt, þá væri það ánægjulegt, ef við nú í þetta sinn gætum sent einn af okkar yngstu skákmönnum, sem hefir getið sér mjög mikinn orðstír hér heima sem skákanaður og sennilega mundi verða einhver allra yngsti skákmaðurinn á þinginu. Ef við gætum sent hann og hann gæti sýnt eins mikil afrek þar eins og hann hefir sýnt hér heima, þá mundi það vafalaust auka hróður okkar fram yfir það, sem síðasta sendiferð skákmanna á heimsmót varð okkur til frægðar. Ef þessir skákmenn fara frægðarför til Englands í sumar, þá verður það til þess að kynna okkur fyrir öðrum þjóðum, kannske meira en nokkuð annað. Því að hvert blað stórþjóðanna flytur greinar um skákþingið, svo að hægt er auðveldlega að fylgjast með hverri skák, sem er tefld.

Skáklistin er mjög fögur og gagnleg íþrótt. Hún æfir rökrétta hugsun, og er ef til vill sú íþrótt, sem við ættum allra íþrótta mest að stunda. Og fyrir þessa tamningu hugans, sem hún veitir, ætti hún að vera stunduð sem námsgrein í skólum landsins. Það er nauðsynlegt í lífinu að geta teflt sterkum og góðum leikum, en forðast þá veiku. — Ég vona, að hv. þm. verði velviljaðir því, að þessum mönnum verði sýnd viðurkenning frá því opinbera, því að hér getur varla verið um styrk að tala, þar sem ekki er um að ræða nema 300 kr. á mann til dvalar og ferðakostnaðar. Ég vona, að hv. dm. sjái, að hér er um nauðsynlegt mál að ræða, og býst ekki við, að lengri ræða sannfæri þá frekar um það. Vil ég biðja hv. þm. að minnast þess, að ég hefi hvorki fyrr né síðar verið kröfuharður um brtt. í fjárl.

Önnur brtt., sem ég flyt við fjárl., er á þskj. 376, XXIII, um að endurgreiða Páli Kr. Pálssyni, fyrrv. starfsmanni pósthússins í Reykjavík, úr lífeyrissjóði embættismanna það fé, sem hann hefir greitt í sjóðinn. Það hefir nú verið gengið inn á þessa braut, og ég sé ekki, að neitt mæli með því að neita þessum manni um endurgreiðslu. Að vísu hefir fjvn. við þessa umr. horfið frá þessari stefnu sinni. Þessi piltur hætti störfum sínum við pósthúsið til þess að fullkomna sig í hljómlist. Hann hefir hin beztu meðmæli frá kennurum sínum, t. d. Páli Ísólfssyni. Þessi greiðsla er ekki nema 300 kr., og hér er ekki farið fram á beinan styrk. Listaþrá þessa manns hefir leitt hann til þess að hverfa frá fyrra starfi sínu til þess, sem ekki mun færa gull og græna skóga; það hefir gengið svo til með listamennina.

Ég vona, að hv. d. og fjvn. taki þessum beiðnum mínum vel og líti á það, að fjárbeiðnum frá minni hendi er mjög í hóf stillt.