11.04.1933
Neðri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

1. mál, fjárlög 1934

Sveinbjörn Högnason:

Hv. samþm. minn hefir mælt fyrir brtt., sem við flytjum saman. En það eru nokkrar brtt., sem ég flyt einn eða með öðrum, sem ég vildi minnast á lítilsháttar.

Það er þá brtt. á þskj. 376, XXII. um að endurgreiða Lárusi Bjarnasyni skólastjóra úr lífeyrissjóði embættismanna það fé, án skatta, sem hann hefir greitt í sjóðinn. Eins og kunnugt er, starfaði Lárus sem kennari við menntaskólann á Akureyri og fluttist síðan að gagnfræðaskólanum í Hafnarfirði sem skólastjóri, eftir að sú breyt. kom um skipun gagnfræðaskóla og héraðsskóla, sem gerð var 1930. En við það, að flytja þannig frá skólanum á Akureyri, þar sem hann hafði greitt allan tímann í lífeyrissjóð af launum sínum, þá falla niður réttindi hans til að fá það aftur greitt úr sjóðnum, eftir að hann kemur að Flensborgarskóla. Ennþá hefir löggjöfin vanrækt að setja sérstök ákvæði um lífeyrissjóð skólastjóra við þessa nýju gagnfræðaskóla og héraðsskóla, sem reistir hafa verið. Það virðist þar af leiðandi ekki nema sjálfsagt, að þessi maður fái aftur það, sem hann hefir greitt í lífeyrissjóð, þegar hann hefir ekki lengur rétt til þess að fá neinn styrk eftirleiðis. Maður þessi er flestum kunnur af starfi sínu sem einhver okkar duglegasti skólamaður, og hefir hann rækt starf sitt af meiri alúð en almennt gerist. Virðist mér honum illa launað slíkt starf, ef hann verður ekki a. m. k. látinn fá þessa endurgreiðslu, sérstaklega þar sem gengin hefir verið sú braut að undanförnu, að láta nokkra menn fá slíkar endurgreiðslur. Ég sé ekki, að í raun og veru sé hægt að breyta um, eins og fjvn. virðist ætlast til að gera verði, eftir hennar till. á sama þskj., fyrr en flutt hefir verið till. um breyt. á ákvæðum reglugerðar lífeyrissjóðs.

Ég sé að hv. fjvn. leggur til, að það fé, sem Jón Halldórsson ríkisféhirðir hefir greitt í lífeyrissjóð embættismanna, verði greitt til lífeyrissjóðs þessarar stofnunar, sem hann nú er kominn til. Það er líka rétta leiðin, þegar slíkir sjóðir eru fyrir hendi. En þegar embættismenn fara úr þjónustu ríkisins og til þeirra stofnana, sem löggjafarvaldið hefir vanrækt að láta koma sér upp lífeyrissjóði, þá er ekki önnur leið til þess, að þeir njóti sama réttar, en að borga þeim út það, sem þeir hafa greitt í lífeyrissjóð embættismanna. Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þessa till. mína.

Ég hefi ennfremur flutt till. með hv. þm. Vestm. um það, að veita Ólöfu Vilborgu Sigurðardóttur fyrrv. ljósmóður 300 kr. Um þá till. er það sama að segja og hina, að fordæmi eru fyrir því, að þingið veiti styrki undir þeim sömu kringumstæðum, sem hér er um að ræða. Ég þori að fullyrða, að þessi kona hefir rækt starf sitt sem ljósmóðir svo vel og lengi, að fáar hafi betur gert. Enda fylgja umsókn hennar beztu meðmæli frá þeim manni, sem lengst af var sýslumaður í Skaftafellssýslu meðan hún starfaði þar, Sigurði Eggerz. Vænti ég fastlega, að þessi aldraða heiðurskona verði ekki sett skör lægra heldur en aðrar ljósmæður, sem sótt hafa um styrk til þingsins og fengið hann. Á hún fyllilega skilið, að henni sé veitt viðurkenning fyrir starf sitt nú í ellinni.

Þá höfum við hv. 1. þm. Rang. flutt brtt. á sama þskj., rómv. 17, um greiðslu til Búnaðarbanka Íslands á viðlagasjóðsláni frá 1928 til byggingar gistiskála í Múlakoti í Fljótshlíð. Þetta lán til gistiskála í Múlakoti var veitt vegna þess, að þá var þar mjög mikil umferð, bæði af skemmtiferðafólki yfir sumartímann og ferðafólki úr austursveitunum. Nú er aðstaðan á þessum stað mjög breytt frá því, sem hún var árið 1928. Nú liggur aðalvegurinn miklu sunnar en áður og Múlakot því ekki lengur í þjóðleið. Auk þess hefir áin nú, eins og menn vita, tekið af allan veg inn í Fljótshlíðina, svo að skemmtiferðir þangað stöðvast einnig. Útlit er fyrir, að ef landbrotið heldur áfram eins og í vetur og ekki finnast nein ráð til bjargar, þá verði bændur að flytja burt af þessum slóðum. Mér finnst, að þegar aðstaðan til þess að reka gistiskálann hefir fyrir rás viðburðanna breytzt svona gífurlega á skömmum tíma, þá mæli fyllsta sanngirni með því, að þetta lán til hans sé gefið eftir. Ég þori að fullyrða, að ekki mun víða vera svipað ástatt, þar sem veitt hefir verið lán til gistiskála. Þörfin fyrir gistihúsið hefir sennilega hvergi horfið svo skömmu eftir að gistiskáli hefir verið reistur.

Þá ætla ég að minnast á brtt. okkar þm. Rang. á þskj. 366, rómv. 7, um 1000 kr. styrk til hjónanna Finnboga Sveinssonar og Sæunnar Sæmundsdóttur á Velli í Hvolhreppi, til hælisvistar handa fávita syni þeirra. Ég leyfi mér að fullyrða, að það er yfirleitt ástæða til þess fyrir Alþingi að veita styrktarfé til handa þeim, sem einhverra orsaka vegna hafa alveg sérstaklega erfiðar ástæður. Þannig er ástatt um þessi hjón. Þau hafa búið þarna lengi sem einyrkjar, með þrjú börn. Eitt af þeim er fáviti, og hefir verið það alla tíð. Móðirin hefir orðið að vera bundin við þennan aumingja svo að segja dag og nótt, og hefir hann eflaust orðið því erfiðari sem hann varð eldri. Býst ég ekki við, að heilsa konunnar þoli það mikið lengur að hafa þennan vesaling á heimilinu. E. t. v. verður nú sagt, að með því að veita þennan styrk sé skapað fordæmi, sem notað yrði eftirleiðis. Í því sambandi vil ég benda á, að það verður hvort sem er ekki mögulegt fyrir þjóðfélagið að daufheyrast við því til lengdar að rétta þeim hjálparhönd, sem við svona ástæður eiga að búa, þeim sem orðið hafa fyrir þeirri ógæfu að hafa fávita um að hugsa. Þörfin á því að gera eitthvað í því máli verður alltaf brýnni og brýnni, eftir því sem færri verða á heimilunum til þess að annast þessa aumingja. Vinnufólki fækkar nú stöðugt í sveitunum, og verða því húsmæðurnar meira og meira við slíkt bundnar. Hvort sem nú verður farið inn á þá braut að veita aðstandendum fávitanna sérstaka styrki, eða önnur leið fundin til að hjálpa þeim í bili, þá verður ríkið svo fljótt sem auðið er að koma upp hæli handa þessum aumingjum.

Ég held, að það séu svo ekki fleiri brtt., sem ég þarf að tala um. Ég veit, að hv. samþm. minn hefir skýrt nægilega bær till., sem við flytjum saman.