02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (2972)

176. mál, mat tekna af eigin húsnæði til tekjuskatts

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það var ekki minn tilgangur að skýra frá því, hvernig þessu mati myndi verða hagað í framtíðinni. Hafi ég sagt, að fasteignamat myndi verða lagt til grundvallar, þá hefir það verið mismæli. Ég hefi ekki hugsað mér að gera við þessa umr. neinar skuldbindingar í þessu efni. Um samræmingu matsins er nú allt í fullum gangi. Hitt er annað mál, að ég get engar skuldbindingar gefið um það, hvaða breyt. gerðar kunni að verða á gildandi reglum. Er ekki gott að kveða á um það, fyrr en ríkisskattan. hefir fengið nauðsynlegar upplýsingar. En fyrirspurnin verður til þess, að málinu verður meiri gaumur gefinn en ella.

Það má hafa tvær reglur um það, hvað lagt skuli til grundvallar um mat í húseignum. Reglan er nú sú, að ekki er gerður munur á leigjendum og eigendum húsa, þegar um tekjuskatt er að ræða. Þessi regla á ekki að íþyngja neinum, ef leigan er sanngjörn. En ef það kemur fyrir, sem oft hefir viljað við bera í Rvík, að leigan sé of há, þá kann þessi regla að orka tvímælis. Nú er þó leigan yfirleitt að lækka, og ef hún kemst í samræmi við kostnaðarverðið, þá má við þetta una. Hin reglan er sú, að áætla mönnum sömu tekjur af eigin húsnæði og þær, sem þeir myndu hafa af því, ef þeir notuðu það ekki sjálfir. En ókosturinn við þessa reglu er sá, að ef maður vill heldur eiga peninga og ávaxta þá, sleppur hann betur en ef hann setti þá í húsnæði, nema hann þurfi að leigja alldýrt hjá öðrum. Samræming fæst ekki nema með réttlátari húsaleigu. Ég hygg, að brunabótamatið sé í beztu samræmi við kostnaðarverðið. Aftur hefir fasteignamati verið haldið hér niðri nokkuð lengi, sumpart af því, að það liða tíu ár milli þess að metið er.

Mér er kunnugt um, að í vissum löndum hefir verið beitt enn annari reglu, sem sé þeirri, að láta eiganda sjálfan meta þau verðmæti, sem hann hefir undir höndum. En svo hvíli sú kvöð á honum, að ríki eða bær hafi jafnan rétt til að kaupa eignirnar við því verði, sem eigandinn hefir metið þær til skatts. Þetta er fullt réttlæti. Menn myndu gefa upp það verð, sem þeir væru fúsir til að selja eignina fyrir, og er þetta nokkurskonar Salómonsdómur um skattskyldu.

Ef ósamræmi er í brunabótamati, þá getur annarhvor aðili óskað endurmats, svo að samræmi komist á. Mun ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en allt þetta skal verða vandlega athugað í sambandi við samræmingarreglur þær, sem fyrir ríkisskattan. 1iggja og ég gat um.