23.02.1933
Neðri deild: 8. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (2982)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jóhann Jósefsson:

Það hefir venjulega verið töluverður mótþrói í þessari hv. d. á móti tilslökunum frá banninu gegn dragnótaveiði. Það var rétt hjá hv. þm. Borgf., að að nafninu til voru þær tilraunir, sem gerðar voru hér í fyrra um breytingar á þessari löggjöf, brotnar á bak aftur. En eins og hv. þdm. mun kunnugt, var meiri hl. dm. með þessari breytingu. Að frv. féll, var aðeins sökum þess, að einn dm. var fjarstaddur þegar atkvgr. fór fram. Að áskorun sú kom fram, sem minnzt hefir verið á, var og sökum þess, að meiri hl. þm. í báðum deildum vildi slaka til á þessu banni. Eins og vitanlegt er, er það tilgangur þeirra manna, sem hafa viljað og vilja gera þessa breyt., að skapa meiri lífsbjargarmöguleika í ýmsum sjávarplássum landsins. En það er eðlilegt, að fram komi andúð gegn því frá öðrum sjávarplássum, eins og t. d. þeim, sem hv. þm. N.-Þ. vitnaði til, sem ekki hafa, af einhverjum ástæðum, tök á að stunda dragnótaveiðar, en verða að horfa upp á menn úr öðrum héruðum, eða jafnvel útlendinga, gera það í skjóli laganna. Það er vorkunnarmál, þó mönnum á slíkum stöðum virðist, að það muni vera til skaða að slaka til. En það sannar ekkert um almenna gagnsemi þessarar veiði fyrir þau landsvæði, sem hana stunda. Og þó kannast megi við það, að afrakstur síðasta árs varð ekki mjög mikill hvað kolaveiðarnar snerti, þá urðu þær mörgum viðbótaratvinna. Og annað var ekki haft fyrir augun en að kolaveiðarnar fylltu dálítið upp í eyðu í atvinnulífi fiskimanna hér við Faxaflóa og víðar.

Að vísu er það svo, að Íslendingar virðast yfirleitt ekki enn vera komnir vel á lagið með að fiska í dragnætur. Þar virðast t. d. Danir lengra á veg komnir, enda hafa þeir stundað dragnótaveiðar um langan aldur. Þó mun orsökin til þess, að forseti Fiskifél. lýsir yfir, að dragnótaveiðin hafi ekki orðið til eins mikilla hagsbóta síðastliðið ár og við hefði mátt búast, liggja meira í markaðsleysi, sem stafar aftur mikið af samgönguleysi, heldur en hinu, að ekki hafi verið eins mikil veiði eins og menn gátu búizt við. Þetta stendur allt til bóta. Og eftirtektarvert er, að það er einmitt Keflavík og Garður, sem bezt hafa staðið að vígi að koma kolanum á markað.

Ég ætla annars ekki að fara að halda uppi löngum deilum um þetta mál, því hv. þdm. er það þegar vel kunnugt: En ég lít svo á, að þar sem sjútvn. lagði til á þinginu í fyrra, að lögunum væri breytt í þá átt, sem hér um ræðir, og þar sem sannprófað var, að meiri hl. beggja deilda var þeirri breyt. fylgjandi, þó svo slysalega vildi til, eins og kunnugt er, að hún var felld, þá hafi hæstv. stj. gert rétt, er hún gaf út bráðabirgðalögin. Og ég vænti þess, að þingið, sem er óbreytt frá því í fyrra, greiði veg þeirra áfram. Það má vel vera, að rétt væri að taka tillit til þeirra staða, þar sem sérstakar ástæður eru fyrir hendi, eins og t. d. Húsavíkur, en um það má ræða í n. og við 2. umr.