23.02.1933
Neðri deild: 8. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. N.-Þ. sagði síðast um skilning á 8. gr. l. um bann gegn dragnótaveiðum og bráðabirgðalögunum, skal ég aðeins taka það fram, að ég hefi ekki haft tíma til að athuga það atriði nú, og ég man ekkert eftir þessari fyrirspurn, sem á að hafa komið frá hv. þm. (BKr: Hún var munnleg, í símasamtali við atvmrh., og getur því e. t. v. hafa farið framhjá hæstv. dómsmrh.). Eins og hv. þm. veit, er nú orðin skipting á störfunum í atvmrn., og mér þykir leitt, að hann skyldi ekki beina fyrirspurninni til mín, því það heyrir þó undir mig að skera úr þessu efni. En þar sem ég man ekki til, að þessi fyrirspurn hafi komizt til mín, hefi ég ekki haft tækifæri til að athuga, hvernig ber að svara henni, en nú skal ég gera það.

Hv. þm. segir, að dönsku skipin hafi hlotið að vita um bráðabirgðal. áður en þau komu hingað. Þetta getur ekki hafa orðið á annan hátt en þann, að þegar lögin voru birt hér, hafi þau verið símuð til Danmerkur og svo þaðan aftur til skipanna, því lög, sem undirskrifuð eru í Danmörku af konungi, eru ekki birt þar fyrr en þau hafa verið birt hér heima. Það væri skyldubrot, ef þau væru látin af hendi áður en þau eru birt hér heima.