14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (2990)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það eru einstök atriði í ræðu hv. þm. N.-Þ., sem geta að vísu verið sönn að því leyti, er snertir það umhverfi, sem hann þekkir bezt. En þau eiga ekki alstaðar við. Það er ekki rétt, að arðsvon hafi brugðizt alveg á síðasta ári. Víða, sérstaklega sunnanlands, höfðu menn talsverðan hagnað og biðu með óþreyju eftir, að veiðitíminn yrði lengdur. En það er ekki hægt v ið því að gera, þó þeim hafi ekki orðið eins mikið úr veiðinni og þeir höfðu búizt við. Ég er hræddur um, að margir hafi gert sér of háar vonir um afrakstur veiðinnar, því þetta verður aldrei annað en aukageta í veiðiskap okkar Íslendinga, sem getur hjálpað flotanum yfir atvinnuleysistímabil og fært inn drjúgan skilding þann tíma, sem annars er ekkert upp úr sér að hafa. Þetta hefir verið álit manna hér sunnanlands, og í rauninni austanlands líka, sem óskað hafa eftir, að dragnótaveiðitíminn yrði lengdur. Fram að þessum tíma hafa beztu fiskifræðingar haldið því fram, að dragnótaveiðin væri skaðlaus fyrir gróðurinn og hefði ekki áhrif á annan veiðiskap. En það getur verið skiljanlegt, að inni á þröngum fjörðum, þar sem dragnótaveiðin er þrástunduð, geti hún haft áhrif á annan veiðiskap. Getur því ágizkun formannsins á „Jóni Finnssyni“, sem hv. þm. (BKr) bar fyrir sig, haft við eitthvað að styðjast. En reyndar verður maður að gæta að því, að ritgerðin gengur út á að verja hann og varðbátinn fyrir einhverjum ámælum að réttu eða röngu, sem hann hlaut fyrir vestan, og bendir á þetta sem eina hugsanlega ástæðu fyrir því, að veiðiskapur hefði verið minni þar. Að því er virðist, er hann í greininni að bera af sér sakir. Dæmi Austfjarða frá 1930 sannar ekkert afgerandi í málinu, því þó Austfirðingar hafi gert sér bjartar vonir og lagt út í of mikil veiðarfærakaup, þá sannar það ekki, að dragnótaveiðin geti ekki verið til hagsbóta, ef hún er réttilega stunduð. Ég veit, að hún er þannig löguð, að það þýðir ekki að kosta of miklu til hennar. T. d. ef um olíufreka báta er að ræða, þá getur það alveg riðið baggamuninn. Hv. þm. minntist á oddvitann í Gerðahreppi, og getur verið, að hann sé búinn að fá einhverja nýja reynslu í málinu, en svo mikið er víst, að ekki er langt síðan stj. neyddist til að gera sérstaka ráðstöfun til þess að fullnægja veiðiþörf þeirra á Reykjanesskaganum, einmitt hvað snerti kolaveiðar. Það er langt frá því, að mér sé þetta neitt trúaratriði, en ég er þeirrar skoðunar, að l. frá 1928 hafi þrengt allt of mjög aðgang að þessum veiðum, og sú rýmkun, sem farið er fram á og fengin er í bili með bráðabirgðal., sé ekki til skaða. -Samkv. þeim eru fiskimiðin alveg friðuð frá 1. jan. til 15. júlí. Það er því 61/2 mán. á árinu, sem alls ekki má stunda dragnótaveiðar. Friðunartíminn er þá meiri hluti ársins og ætti því að vera nægilegur til þess, að ekki hlytist skaði af þessum veiðiskap. Hv. þm. beindi fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. í sambandi við þetta mál, sem ég fyrir mitt leyti vil gjarnan styðja, því ég tel það eðlilegt, að slík fyrirspurn komi fram.

Það er fráleitt hjá hv. þm., að við, sem viljum hafa þessa rýmkun, gerum það vegna útlendinga. Það er fjarri öllum sanni. Við höfum ekki neina ástæðu til að lyfta undir þeirra veiði, heldur erum við einungis að hugsa um íslenzka veiðimenn, sem margir eiga dragnótaveiðarfæri, því að fyrir þessa tilslökun og í sambandi við áhuga manna á kolaveiðum hafa menn lagt út í talsverð veiðarfærakaup, þó þau hafi sumstaðar komið að litlu gagni. Í Vestmannaeyjum nota menn sín veiðarfæri, þegar færi gefst, og sérstaklega þegar þeir hafa kaupanda að vörunni. Það sýnist líka vera heldur fljótfærnislegt að kippa að sér hendinni með rýmkun á þessu sviði, þó að eitt ár gengi svo, að hægt væri að benda á, að ekki hefðu orðið uppgrip eða afrakstur af veiðinni. Ég álít, að sú reynsla, sem hv. þm. vitnaði i, sé alls ekki þannig vaxin, að hægt sé að leggja hana til grundvallar fyrir framtíðarskipulagi þessa máls. - Og að því er snertir vernd fyrir útlendinga, þá vil ég minna hann á það, sem margir eru búnir að sýna fram á af þeim, sem bezt vit hafa á veiðiskap, að hingað til hafa fiskifræðingar álitið, að bannið væri bezt til þess að ala upp kolann handa enskum veiðiskipum, sem eru innan eða utan landhelgi, en meina aðgang íslenzkum fiskimönnum, sem vilja og geta hagnýtt sér þessa veiði. Það er ekki nema eðlilegt, að norður á Húsavík, þar sem enginn maður á dragnótaútbúnað og enginn vill skipta sér neitt af þessari veiði, hafi þeir horn í síðu þeirrar löggjafar, sem lofar mönnum sunnan af landi - og jafnvel Dönum - að ausa upp kolanum. En t. d. við í Vestmannaeyjum höfum aðra aðstöðu. Þar eru margir bátar, sem eiga dragnótaútbúnað og sem strax og sleppir af vetrarvertíðinni hugsa um að fara að hafa eitthvað upp úr sér með því að veiða kolann í dragnót. Þar, sem svo er ástatt, virðist mér, að löggjöfin eigi að sýna tilhlýðilega tilslökun, sem ekki þarf að vera neinum til skaða. Ég vil kannast við það, að dragnótaveiðar geti verið misjafnar hvað það snertir, hvort þær hafi nokkur áhrif á önnur aflabrögð. Inni á þröngum fjörðum og víkum getur það komið öðruvísi út en þar, sem veitt er fyrir opnu hafi, eins og hér við suðurströndina. Hvað suðurströnd landsins snertir og Faxaflóa, þá horfir þetta mál öðruvísi við og gæti komið til mála, að ástæða væri til, þegar reynsla fæst fyrir þessu, að gera önnur ákvæði um þrönga flóa og víkur. - Annars hefi ég ekki fleiri atriði að athuga í ræðu hv. þm. og læt þetta nægja að sinni, en ég býst við að fá tilefni til að tala meira síðar í umr.