14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2997)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég tók eftir, að hv. þm. Borgf. hélt því sama fram nú sem áður, að möskvastærðin hefði litla sem enga þýðingu fyrir ungviðið. En þetta kemur algerlega í bága við það, sem fiskveiðadirektör Norðmanna, herra Bjerknes, hélt fram, þegar frv. var lagt fyrir norska þingið einmitt um að setja reglugerð um möskvastærð. Ég minntist á þetta í fyrra og las upp frv. þar að lútandi, til þess að sannfæra hv. þm. Hann hélt því fram, að takmarka ætti veiðina með reglugerð um möskvastærð. Hann bætti því við, að hann teldi kolann ekki saka, þótt veiddur væri í snurpinót oftar en einu sinni og strax sleppt aftur. Kveðst hann hafa komizt að þessari niðurstöðu á fiskirannsóknaferðum sínum. Mér virðist ekki þýðingarlaust í þessu máli, að slíku reglugerðarákvæði um möskvastærð er beitt í nágrannalöndum okkar, þar sem veiðar þessar hafa verið stundaðar miklu lengur en hér.

Þá vildi ég í sambandi við það, að ég ætti að vera horfinn frá þeim grundvelli, sem ég hefi staðið á í þessu máli, biðja hv. þm. að athuga frv., sem ætlazt er til að breyta, eins og það liggur fyrir. Ég sé ekki, að samkv. till. sjútvn. sé verið að ráðast neitt sérstaklega á sjálfsákvörðunarrétt héraðanna, ef frv. er samþ. Hvernig yfirvöld landsins eða aðrir kunna að skýra þetta mál, skal ég ekki um segja, en ég legg þó þann skilning í það, að hvorki ég né sjútvn. höfum ráðizt neitt með frv. þessu á ákvæði 8. gr. l. frá 7. maí 1928, svo að fullyrðingar hv. þm. Borgf. ná ekki til okkar í þessu efni.

Ég býst nú ekki við, að neinir álíti rétt að fella þetta frv. á þessu stigi málsins, nema þeir, sem eru æstastir andstæðingar kolaveiðanna, vitandi þó, að bannið kemur mest öðrum en Íslendingum til góða.

Það er ekki undanhald, þótt ég kannist við, að snurpinótaveiðar geti í sumum tilfellum komið eitthvað að sök gagnvart öðrum veiðum. Ég er ekki svo blindur að halda fram öðru en því, sem ég veit, að er rétt. En það verður sjálfsagt alveg eins að hausti, eða þegar liður á sumarið, að stór hluti sjómanna veit ekki, hvar helzt eigi að slá sér að. Það lítur ekki svo bjart út fyrir síldarútveginum, að ástæða sé að ætla, að það hallist fleiri á þá sveif en undanfarið. Þess vegna tel ég mjög varhugavert - svo að ég segi ekki meira -þó að einhverjar óánægjuraddir heyrist gegn l. þessum, að fella þau ákvæði úr gildi, sem heimila ísl. vélbátum að draga sér björg með dragnótum þann hluta ársins, sem hér er gert ráð fyrir. Ég vona því, að hv. deild leyfi málinu til 3. umr. E. t. v. verður á þeim tíma tækifæri til að athuga, hvernig eigi að skýra frv. En mér finnst það satt að segja fyrir mitt leyti liggja ljóst fyrir, þegar það er borið saman við l.