20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (3008)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er út af fyrirspurn hv. þm. N.-Þ. við 2. umr. Hann skýrði frá því, að hann hefði sett sig í samband við stjórnarráðið í sumar og þá fengið það svar, að felldar væru niður þær reglugerðir eða samþykktir, sem hefðu verið gerðar viðvíkjandi þessu máli. Ég hefi síðan grennslazt eftir þessu í stjórnarráðinu og séð, að 19. júlí í sumar hefir komið fyrirspurn frá þessum hv. þm. um það, hvort sú alfriðun, sem þá gilti á Skjálfanda, Axarfirði og Þistilfirði, væri fallin úr gildi. Ég var ekki viðriðinn samningu þessa svars, en ég vil benda hv. þm. á það, að sú reglugerð, sem gildir fyrir Þingeyjarsýslu, er frá 26. febr. 1932. Og í þeirri reglugerð er ekki ákveðin friðun nema frá 1. sept. til 30. nóv., sem er alveg eðlilegur hlutur, þegar tillit er tekið til ákvæða þeirra, sem þá giltu viðvíkjandi dragnótaveiði. Þegar því hv. þm. gerir sína fyrirspurn hinn 19. júlí í sumar, þegar búið var að leyfa dragnótaveiðar frá 15. júlí, þá er svarið að því leyti rétt, að þessi strandlengja meðfram Skjálfanda, Axarfirði og Þistilfirði var ófriðuð þá. En hitt má vera álitamál, hvort rétt sé, að þessar reglugerðir hafi fallið niður; um það skal ég ekki deila neitt. Það má taka til athugunar, ef þetta frv. kemst á. - Ég vil benda hv. þm. á, að það er ekki um margar reglugerðir að ræða; þær eru hvergi nema viðvíkjandi Þingeyjarsýslu og við Faxaflóa sunnanverðan. Og þar var það einmitt, við Faxaflóa, að þessi deila reis út af friðuninni, og kvað svo rammt að, að það var beinlínis gerður samningur við menn, sem höfðu brotið lögin, um að borga einhverjar bætur fyrir sín lagabrot. Ég fer ekki frekar út í það, en vil benda á, að með þessum bráðabirgðal. var það tilgangurinn að heimila þessum mönnum að veiða yfir sumartímann.

Annars er mér sagt, að ýmsir af þeim hv. þm., sem skrifuðu undir áskorunina á síðasta þingi, séu nú komnir á aðra skoðun, og eru þá séð fyrir forlög þessa frv. Ekki geri ég að neinu kappsmáli, hvað gert verður. En ekki get ég neitað, að mér sýnist dálítið undarlegt að vera alltaf að hringla í þessum l.

Ég vona svo, að hv. þm. N.-Þ. sé ánægður með þetta svar, og sé ekki ástæðu til að taka afstöðu til þessa spursmáls viðvíkjandi endanlegu brottfalli reglugerðanna, fyrr en ég sé um forlög þessa máls, en undirstrika, að svarið, sem hv. þm. fékk þ. 20. júlí, það var á þeim tíma rétt.