20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (3014)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Björn Kristjánsson:

Það er fyrst nú, að ég fæ að heyra, að þessi reglugerð alfriðar eingöngu á tímabilinu frá 1. sept. til ársloka. Úr því að svo er, þá legg ég miklu meira kapp á að fá þessi l. drepin eða þeim breytt í Ed. Annars þótti mér vænt um að heyra, að hæstv. ráðh. sér ekkert til fyrirstöðu því, að reglug. okkar Þingeyinga yrði breytt. En ég vil benda á, að ríkisstj. orðaði reglugerðina og hagaði framkvæmdum eins og hæstv. ráðh. skýrði frá; Þingeyingar skoruðu aðeins á stj. að alfriða umrædda flóa, af því að þeirra vilji er að fá þessi svæði algerlega varin fyrir dragnótaveiði allt árið. Og það er ekki þeirra sök, þó orðalag þessarar reglugerðar sé svo óheppilegt, að það gefi útlendingum veiðirétt á alversta tíma. Það er auðvitað verst af öllu, ef veiðin er heimiluð frá 15. júlí til 1. sept. Það er sá tími, sem mestar aflavonir eru á Norður- og Norðausturlandi, og dragnótaveiðin þar af leiðandi langskaðlegust. Fyrir útlendinga er þessi tími hinsvegar einkar hentugur.