20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (3018)

28. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins, af því hv. þm. Vestm. var að tala um þroskaleysi, benda á það, að það var mjög átakanlegt þroskaleysi, sem kom fram í því, að rétt um þingslit í fyrra skyldi nokkrum hv. þm. vera hóað saman til þess að undirskrifa áskorun til stj. um að gera það, sem þingið var nýbúið að fella. Slíkt þroskaleysi getur aldrei orðið langvarandi, og þess vegna þarf það engum að koma á óvart, og verður að teljast beint þroskamerki, ef þingið verður nú sjálfu sér samkvæmt og fellir þetta mál, eins og það hefir áður gert.