10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. (Jón Jónsson):

Fjárlögin eru eitt þeirra fáu mála, sem skylt er að leggja fyrir Alþingi og óhjákvæmilegt að afgreiða. Þau eiga að mínum dómi að vera aðalmálið. Fjárhagslegt sjálfstæði landsins veltur að töluverðu leyti á því, að þingið gerir sitt til þess, að afgreiða megi tekjuhallalaus fjárlög, og það skiptir miklu, að ráðstafað sé svo, að bezt komi landi og þjóð að gagni, þeim fáu aurum, sem ef til vill verða afgangs lögboðnum og óhjákvæmilegum gjöldum. Fjvn. hefir haft þessi tvö atriði fyrir augum: sem gætilegasta meðferð málsins, og eins hitt, hvernig ráðstafa eigi sem bezt þessum afgangi. Þegar litið er á tekjurnar og ráðstafanir þeirra, þá sjáum við, að þær eru taldar 11 millj. kr. Meginhluta þeirra er fastráðstafað áður en þing kemur saman, t. d. vaxtagreiðslur af erlendum lánum um eða yfir 1½ millj. kr. Raunar fær ríkissjóður eitthvað af þessu aftur í vaxtagreiðslum af lánum innlendra fyrirtækja og manna, en það er ekki meira en ½ millj. kr. Kostnaður við ríkisstj. og þinghald nemur 700 þús. kr. Dómgæzla og lögreglustjórn hefir í för með sér kostnað um 1200 þús. kr. Til heilbrigðismála er varið 1½ millj. kr. Allir þessir liðir eru fastbundnir, og verður aðeins örlitlu við því haggað. Til samgöngumála er kostað 2 millj. kr., þar af er ekki mikið yfir 300—400 þús., sem ekki er fastákveðið. Svona mætti telja áfram. Þingið hefir ekki meira en 1 millj. kr. af þessum 11 millj. til sinna ólögbundinna ráðstafana.

Fjvn. hefir skoðað það hlutverk sitt, að athuga þessa lausu liði og reyna að spara á þeim sem mest, til þess að draga úr gjöldum ríkissjóðs. Þegar fjárl. komu frá Nd., var á þeim greiðsluhalli, sem nam 200 þús. kr. og voru þá í heimildarveitingum 22. gr. faldir margir liðir, sem munu hafa bein útgjöld í för með sér. Auk þess er eftir að bæta í fjárl. fé til kreppuráðstafana, sem óhjákvæmilegt er að gera og nefndin mun athuga til 3. umr.

Til þess að mæta greiðsluhallanum og kreppuráðstöfunum þarf því nýjar tekjur. Þess vegna er um að gera að athuga, hvernig megi komast hjá þessu. Af þessu mótast tillögur n. Meginskoðun hennar er, að ekki sé fært að taka upp aukin útgjöld; aðeins hefir hún álitið fært að hækka örlítið framlag til verklegra framkvæmda, ein 60 þús. kr., og er þá helmingur af því aðeins færður til, af heimildarliðum 22. gr. yfir á beina útgjaldaliði rekstrarreikningsins.

Skal ég svo aðeins með örfáum orðum víkja að nokkrum þessum till., sem n. hefir borið fram. Ég sé ekki ástæðu til að tala um þær langt mál, af því ég þykist vita, að hv. þm. hafi kynnt sér nál. frá fjvn. Ég mun þess vegna gera mér far um að tefja ekki deildina nema sem minnst með skýringum á málinu, nema sérstök ástæða sé til.

Fyrsta till. n. er um að lækka útgjöld til póstmála um 20 þús. kr., sem stafar af því, að við samtal við póstmálastjóra hefir það upplýstst, að samningar hafa verið tryggðir um póstflutning, sem gera flutningskostnaðinn augljóslega minni en áður.

Næsta till. er um að hækka fjárveitingu til einkasíma um 5 þús. kr. Í raun og veru er þetta engin hækkunartill. frá því, sem í fjárl. er, heldur aðeins tilflutningur gjalda á milli greina í frv., vegna þess, að í 17. gr. eru veittar 7 þús. kr., sem eiga að ganga til tveggja símalína vestur á Mýrum, að Hjörsey og Straumfirði. N. fannst eðlilegra, að allar fjárveitingar til síma væru hafðar í sömu grein, og færði þessa fjárveitingu í gr. um fjárveitingu til einkasíma, en setti strangari skilyrði fyrir henni en gerð voru í fjárlagafrv. eins og það kom frá Nd. Jafnframt lækkaði hún upphæðina til þessara lína úr 7000 kr. niður í 5500 kr., en tók aftur upp aðra línu, út í Brokey á Breiðafirði, og ætlar til hennar 2500 kr., því að um þá línu er alveg það sama að segja og hinar 2. Okkur hefir borizt skýrsla frá Slysavarnafél. Ísl. um að mörg sjóslys hafi átt sér stað þarna rétt í kring, og nefnt er eitt dæmi, sem sýnir, að það er ekki alveg að ástæðulausu, að þessar símalínur eru sérstaklega styrktar, með tilliti til þess, að þær geti afstýrt slysum. Í vetur kom það fyrir, að bát hlekktist á skammt frá Straumfirði á Mýrum. Af því að svo stóð á fjöru, var hægt að senda í land, á Straumfirði og til næstu símastöðvar, til þess að láta Slysavarnafélagið vita. Fyrir það gat svo Slysavarnafélagið sent skip bátsmönnum til bjargar. Annars mundu líklega hafa farizt þarna nokkrir menn. Það er því ekki út í loftið að veita styrk til þessara símalína, til þess að forða slysum í framtíðinni, um leið og greitt er fyrir samgöngum þessara bæja.

Þá er lagt til, að þóknunin til yfirskoðunarmanna landsreikninganna verði lækkuð um 400 kr., og virðist hún þó fullrífleg, miðað við kaup þingmanna.

Því næst er lagt til, að burt falli sérstakur liður til læknisbústaðar á Reykhólum. Eins og menn vita, er það föst regla hjá ríkinu að styrkja byggingu læknisbústaða og sjúkraskýla að 1/3 kostnaðar. Þetta hefir einnig verið gert þarna. En nú er farið fram á viðbótarstyrk til sjúkraskýlisins þar. Auðvitað á héraðið erfitt með að standa straum af skuldum, sem á þessu hæli hvíla. En svo er ástatt víðar. T. d. hafa þinginu borizt samskonar styrkbeiðnir frá tveimur öðrum læknishéruðum, og n. sá ekki mikinn mun á þörf á slíkum styrk til þeirra og þessa héraðs. N. telur, að ef þessi styrkur er veittur, sé gengið með því inn á mjög varhugaverða braut. Þá mundu fleiri héruð koma á eftir og beiðast styrks með svipuðum rétti og auka allmikið útgjöld ríkisins. Þess vegna leggur n. til, að þessi liður falli burt.

Þá eru næstu liðir á eftir sjúkrastyrkir til einstakra manna. N. lítur svo á, að þó að mjög æskilegt væri að geta hjálpað þessum mönnum, þá sé ekki heppilegt að ganga þá braut, vegna þess að hundruð manna úti um land mundu eiga viðlíka réttlætiskröfu til slíks styrks. Auk þess held ég, að liggi fyrir þinginu frv., sem ræðir um styrki til slíkra sjúklinga eftir föstum reglum. Af greindum ástæðum sá n. sér ekki annað fært en að leggja kapp á, að þessir liðir yrðu teknir út og styrkirnir felldir niður.

Þá er hér næst brtt. við 13. gr., samgöngumálagreinina. Fyrst er lagt til að taka upp í tölu þjóðvega einn veg á Austurlandi, Úthéraðsveg. Það hefir verið regla þingsins að dreifa vegabótastyrkjum um landið, til þess að greiða fyrir því, að atvinna sé jafnari með því. Hér er einnig um veg í fjölmennu byggðarlagi að ræða, og fannst n. sanngjarnt að veita nokkra upphæð til þessa vegar, eða 6 þús. kr.

Aftur á móti leggur n. til, að lækkaður verði í þess stað vöruflutningastyrkur til hafnleysishéraða á Suðurlandi úr 20 þús. kr. niður í 12 þús. kr. Nefndin álítur það varasama leið að veita slíkan styrk til einstakra héraða, því að fleiri sveitir eiga langan og erfiðan kaupstaðarveg og þessi héruð hafa betri samgöngumöguleika en mörg önnur, svo sem Fljótsdalshérað, ýmsar sveitir í Þingeyjarsýslu o. fl. Þessi styrkur mun upphaflega hafa komizt inn í fjárl. um leið og bifreiðaskatturinn var hækkaður, til þess að létta undir með þessum héruðum. En nú hefir þessi skattur verið lækkaður, og virðist því rétt að lækka þennan styrk jafnframt. Hygg ég, að héruð þessi megi því vel una.

Þá hefir verið lagt til að hækka styrk til að halda upp byggð og gistingu handa ferðamönnum um 200 kr., er gangi til tveggja býla, sem sjá má í nál.

Þá er lagt til, að aðstoðarmanni vitamálastjóra, Benedikt Jónassyni, verði bætt upp vangoldið kaup frá fyrri árum. Það lítur út fyrir, að laun hans geti hafa verið misreiknuð um 661 kr. á undanförnum árum, og n. leggur til, að þessi upphæð verði greidd honum.

Loks er hér nokkuð hár útgjaldaliður til bryggjugerða og lendingarbóta. Fyrir n. lágu miklar óskir, ásamt ýmsum gögnum, um styrki til lendingarbóta á þremur stöðum, sem eru Skagaströnd, Ólafsvík og Sandur. Á Skagaströnd hefir ekki þótt fært að ráðast í að gera höfn, sem samþ. er um í sérstökum 1., því að ríkið hefir ekki treyst sér til þess, og ekki héraðið heldur. En útgerð vex þar stöðugt, og eins og kunnugt er, horfir heldur vel með útgerð þarna. En þarna er ekki nema ein lítil bryggja og mikill hugur er í héraðsbúum um að lengja hana nokkuð. Nú fara þeir fram á lítilsháttar styrk til þess, og n. leggur til, að þeir fái 3 þús. kr.

Í Ólafsvík hefir verið unnið að því í 6—7 ár að gera þar hafnargarð til skjóls fyrir höfnina. Fyrir mörgum árum hafa verið samþ. 1. um fjárveitingu til þess. Gert er ráð fyrir, að til þess að fullgera þennan garð þurfi 20 þús. kr., og n. hefir lagt til, að 1/3 af þessari upphæð verði veittur nú af ríkinu, enda gert ráð fyrir, að með þessari fjárveiting verði þessum hafnargarði lokið, svo að höfnin megi verða til stórfellds gagns fyrir báta og skip.

Á Sandi er mikil útgerð, og af því að það er erfitt fyrir báta að athafna sig, af því að þar vantar plan, hefir n. lagt til, að veittar verði 2 þús. kr. í því skyni að bæta úr þessu.

Þá er nýr liður til húsabóta á prestssetrum, 24 þús. kr. Það eru lagafyrirmæli til um það, að veita þessa upphæð í hvers árs fjárlögum til hýsingar prestsetra, og n. taldi sjálfsagt að telja þá upphæð á rekstrarreikningi ríkisins, í stað þess að heimila lántöku í þessu skyni. Ætlazt er til, að þessi styrkur, sem veittur er nú, verði til hýsingar á tveimur prestsetrum, 12 þús. kr. til hvors. N. sá ekki annað fært en að taka þessar upphæðir í fjárl.

Þá er till. um lækkun á styrk til Kvennabrekkukirkju. Það hefir nú gengið mjög báglega með þessa kirkjubyggingu þar. Fyrir nokkrum árum reis mikil óánægja í söfnuðinum út af því, að kirkjan var færð til í prestakallinu. Svo mikil varð þessi óánægja, að söfnuðurinn klofnaði, og nokkur hluti hans sagði sig úr þjóðkirkjunni. Þetta gerir Kvennabrekkusöfnuði ómögulegt að standa straum af kirkjubyggingunni. Hinsvegar greiða þeir til háskólans, sem sögðu sig úr þjóðkirkjunni, svo að ríkið fær þar nokkrar tekjur. Þess vegna fannst n., að þessi söfnuður ætti rétt á að fá nokkurn styrk, en lækkaði hann þó um 1000 kr.

Þá er næst till. um að hækka laun til háskólans um 500 kr., til þess að skólinn standi betur að vígi með að halda kennara í lífeðlisfræði. Háskólinn vill tryggja sér mann til þessarar kennslu, sem nú er að ljúka námi erlendis.

Þá eru hér nafnbundnir námsstyrkir til námsmanna erlendis. Eins og menn muna, þá eru í 14. gr. fjárl. allskonar styrkir til námsmanna erlendis. Fyrst er þar þessi lögboðni stúdentastyrkur, 24 þús. kr., og auk þess er nokkuð veitt, sem á að úthluta samkv. ákvörðun menntamálaráðs. Þessi liður var settur inn í fjárl. fyrir 5—6 árum, til þess að losa þingið við það leiðinlega og vandasama starf að dæma um það, hvort þessi eða hinn námsmaður ætti að fá styrk. Það er hending ein, hver fær svona styrk og hver ekki, ef þingið á að dæma um það, af þeirri ástæðu, að það hefir ekki nægileg gögn til að fara eftir um þetta. Það er betra, að nefnd, til þess kjörin, hafi þetta með höndum. Áleit n., að menntamálaráðið væri sjálfkjörið til þess, og leggur til, að niður falli liðirnir um þessa áðurnefndu nafnbundnu styrki. Í þessu sambandi skal ég geta þess, að fyrir þinginu liggur alltaf fjöldi af slíkum styrkbeiðnum. Nú nema þær samtals um 30 þús. kr. eða meiru. Ég vænti þess, að hv. dm. sjái, að engin leið er að sinna þessum beiðnum öllum, með þeirri upphæð, sem ætluð er til þessa, og eins og sagt hefir verið, sé því bezt að fela menntamálaráði að úthluta styrk þessum. Og verði till. n. samþykkt, þá lýsi ég því yfir fyrir hönd fjvn., að hún mun telja sér skylt til 3. umr. að leggja til, að heildarstyrkurinn, sem á að veita eftir tillögum menntamálaráðs, verði hækkaður allmikið, jafnvel upp í 12 til 15 þús. kr. Og þá vildum við halda, að sæmilega ríflega væri séð fyrir þessu.

Þá er hér um 1000 kr. hækkun á framlagi til aukakennslu í menntaskólanum á Akureyri, til þess að tryggja skólanum ungan og mjög efnilegan kennara, Þórarinn Björnsson, sem skólinn þarf nauðsynlega við.

Þá er till. vegna sama skóla, um að veittar verði 10 þús. kr. til viðhalds og endurbóta á honum. Fyrir n. lágu óyggjandi gögn um það, að skólinn liggur undir stórskemmdum, vegna viðhaldsleysis, bæði málningarskorts o. fl., og n. taldi ekki forsvaranlegt að láta svo búið standa.

Þá leggur n. til, að felldur verði niður úr 14. gr. X. liður, til verklegs náms erlendis, og gerir ráð fyrir, að þessir menn, sem þar um ræðir, geti komizt undir lið um námsstyrk erlendis, sem áður er getið og menntamálaráðið úthlutar (sbr. 14. gr. B. II. b.). Hún hefir komizt að því, að þessi styrkur er bútaður mikið niður og mun því koma fáum að gagni.

Þá er lagt til að hækka fjárveitingu vegna viðhaldskostnaðar Eiðaskóla um 2300 kr., til nauðsynlegra endurbóta á húsum skólans og lagfæringar í kringum þau. Þar er eins ástatt og um menntaskólann á Akureyri, að brýn þörf er á endurbótum.

Hér er líka lagt til, að hækkaður verði rekstrarstyrkur húsmæðraskólans á Hallormsstað um 1000 kr., með því að sýnt er, að full þörf er á því.

Einnig er lagt til, að veittar verði 1000 kr. til Bjargar C. Þorláksson, til fræðslustarfsemi. Hún er vel kunn af starfi sínu meðal þjóðarinnar og virðist þessa styrks makleg.

Þá er lagt til að fella niður liðinn í 14. gr. B.XXIII, handa einni konu til að kynna sér leikfimi erlendis.

Loks er hér lagt til, að breytt verði styrknum til bókasafna. Í fyrra var veittur styrkur til bókasafns héraðsskólans í Reykholti, til þess að veita honum sérstaka aðstoð, svo hann gæti útvegað sér þau rit um Snorra Sturluson, sem mest halda uppi nafni Reykholts. En það var alls ekki hugmyndin, að framhaldandi styrkur yrði veittur til Snorrabókasafnsins í Reykholti. En aftur á móti er hér tekinn upp samskonar styrkur til bókasafns á Bíldudal, vegna sérstakra slysa, því að bókasafnið brann allt upp óvátryggt.

Þá er það lagt til um styrkinn til Leikfélags Reykjavíkur, að við meginmál þess liðs bætist: Styrkurinn er og því skilyrði bundinn, að menntamálaráðið samþykki starfsskrá félagsins.

N. er kunnugt, að margir líta svo á, að þau leikrit, sem leikfélagið sýnir, séu ekki þess eðlis, að þau séu þess verð að vera styrkt. En n. telur, að leikstarfseminni eigi að halda uppi, og að sýnd séu þau leikrit, sem hafa meira menningarlegt gildi, og því rétt að binda styrkinn því skilyrði, að einhver stofnun samþ. starfsskrána.

Þá er lagt til að fella niður af 15. gr. styrk til 3 manna til ritstarfa o. fl., sem ekki virðist ástæða til að styrkja frekar en fjölda annara manna.

Sömuleiðis er lagt til, að styrkur til skáksambandsins til utanfarar verði felldur niður að þessu sinni, með því að árferðið er svo sem allir vita og hvern eyri þarf að spara, og því álítur n., að við verðum að neita okkur um þá ánægju, sem þessi fór kynni að veita okkur.

Þá er lagt til að fella 3 liði í 16. gr. Undanfarið hefir verið veitt fé til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum, af því fyrst og fremst, að þangað er ekkert veitt til þjóðvega, eins og til annara kjördæma. Auk þess á ríkið landið og þar mun vera erfitt um ræktun. Þó fer n. fram á 4. þús. kr. lækkun á framlagi til þessa vegar. Viðvíkjandi hinum þremur vegunum, sem eru hjá öðrum kauptúnum, er það að segja, að með því að veita fé til þessara vega yrði opnuð leið fyrir öll kauptún landsins til að fá styrk í sama skyni, því að flest munu þau hafa einhver ræktunarlönd, sem betur fer, og því vill n. fella þessa vegi niður af fjárl., einkum þar sem ræktun er styrkt með öðru móti af því opinbera.

Þá hefir veðurstofustjóri bent á það, að mjög nauðsynlegt væri að halda uppi jarðskjálftamælingum. En aldrei hefir neitt verið veitt til þessa í fjárl., og n. leggur til, að veittar verði 600 kr. í þessu skyni.

Þá leggur n. til, að niður falli í 16. gr. styrkur til manns til að kynna sér verkun síldar. Fyrst og fremst er n. ekki ljóst, hve mikið gagn mundi af þessu stafa, og hefir hún borið sig saman við fróða menn á þessu sviði. Hyggur hún, að þessi maður hafi engin sérstök skilyrði til þess að inna þetta starf af hendi. Álítur n., að maður, sem gæfi sig við þessu, yrði að vera fræðimaður viðvíkjandi síldarverkunarstarfsemi, og leggur því til, að styrkurinn verði ekki veittur.

Þá er lagt til, að veittur verði lítilsháttar styrkur til framkvæmdanefndar íslenzku vikunnar. N. lítur svo á, að starfsemin í sambandi við íslenzku vikuna sé góð og nytsöm og megi verða til þess að hvetja þjóðina til þess að búa meira að sinni framleiðslu en verið hefir, og því sé það fyllilega þess vert, að greiddar verði 2 þús. kr. þessu til styrktar eða viðurkenningar.

Þá er lítilsháttar styrkur til Sambands breiðfirzkra kvenna. Mörg kvenfélög hafa fengið styrki. Í n. voru mjög skiptar skoðanir viðvíkjandi þessum styrk, en hún sá ekki ástæðu til að fella niður styrk til þessa sérstaka kvennasambands og tekur hann þess vegna með, þessar 250 kr.

Til vinnumiðstöðvar kvenna er lagt til, að veittar verði 1600 kr., gegn því að bæjarfélagið leggi til jafnt á móti. Þetta skilyrði fannst n. rétt að setja, vegna þess að þetta er fyrst og fremst fyrir bæinn gert.

Þá telur n., að ekki sé bein ástæða til að styrkja skinnhanzkagerð að svo komnu, en leggur til, að liðurinn um það falli niður, með því að n. er ekki ljóst, að hér sé um iðnað úr íslenzkum afurðum að ræða.

Þá kom stórtemplar til n. með ósk um, að samþykkt um sérstaka ráðstöfun fjvn. á styrk til stórstúkunnar falli niður, en lýsti því yfir, að á meðan hann hefði þann starfa við stórstúkuna, mundi hann telja sér skylt að nota þennan mann, sem styrkurinn er sumpart miðaður við, meira og minna í þarfir stúkunnar. En hann taldi óviðkunnanlegt, að helming af þeim styrk, sem stórstúkunni er ætlað að fá, væri ráðstafað af fjvn., því að þá yrði ekki annað en nafnið tómt að láta stórstúkuna fá styrk.

Þá er lagt til, að í stað þess, sem ákveðið er um sjúkrastyrkveitingu til Verklýðsfélags Akureyrar, verði sá 300 kr. styrkur veittur að helmingi til hvors félags, þess og Verkamannafélags Akureyrar. N. sá ekki beina ástæðu til að gera upp á milli þessara félaga.

Þá er lagt til, að bætt verði við 18. gr., að hækka skuli styrk til Elínar Briem Jónsson um 300 kr., upp í 600 kr., og að bætt verði við einni prófastsekkju, sem veittar verði 300 kr. Elín Briem Jónsson hefir sem kunnugt er unnið langt og merkilegt æfistarf í þágu alþjóðar, sem vert er að sýna viðurkenningu. Auk þess mun fjárhagur hennar nú vera orðinn mjög þröngur.

Þá er lagt til, að lítilsháttar breyt. verði gerð á 22. gr., þar sem ríkisstj. er heimilað að kaupa íbúðarhús sýslumannsins í Borgarnesi. N. lítur svo á, að eðlilegt sé, að dómkvaddir menn meti það til verðs, heldur en að ríkisstj. fjalli um það.

Þá hefir það verið lagt til að verða við kröfum nokkurra manna um endurgreiðslu úr lífeyrissjóði barnakennara og embættismanna á því fé, sem þeir hafa lagt í sjóðinn, án vaxtagreiðslu. N. var að vísu nokkuð skipt um þetta, en meiri hl. lagði til, að þetta yrði gert.

Þá er lagt til að fella niður heimild til að verja af ágóða viðtækjaverzlunarinnar 25000 kr. til að koma upp hleðslustöðvum til þess að greiða fyrir útvarpsnotum í sveitum. Þetta gæti verið dálítið til hagræðis fyrir einstöku afskekkta sveit, en virðist þó svo litlu skipta, að n. þótti sjálfsagt að spara ríkissjóði þessi útgjöld, þegar svo erfitt er árferði. Enda hefir mjög verið greitt fyrir útvarpsnotendum með því að á síðasta hausti var rafhlöðuverðið sett niður verulega.

Þá er hér lagt til að heimila ríkisstj. að ábyrgjast allt að 30 þús. kr. lán fyrir rannsóknastofu háskólans. Eins og menn muna, voru fyrir nokkrum árum sett lög um rannsóknastofu í þarfir atvinnuveganna. En því miður hafa þau enn ekki getað komið til framkvæmda, vegna húsnæðisleysis. Þjóðverjar voru svo myndarlegir að gefa okkur vönduð tæki handa slíkri stofnun í tilefni af alþingishátíðinni 1930, og er leiðinlegt að geta ekki notað þau. Góðan mann höfum við einnig til að starfa á þessu sviði.

Rannsóknarstofan hefir allmiklar tekjur, svo líklegt er að hún geti staðið straum af slíku láni. Sjálf hefir hún um 40 þús. kr. til að leggja í byggingu, en þarf þetta 30 þús. kr. lán til viðbótar til þess að geta komið húsinu upp. N. álítur sjálfsagt að veita heimild til þessarar ábyrgðar, þar sem hér er um hið mesta nytjafyrirtæki að ræða.

Þá leggjum við að síðustu til, að gerð sé lítilsháttar orðabreyting á ábyrgðarheimildinni fyrir Eimskipafél. Ísl. N. hafa borizt upplýsingar um, að félagið hafi þegar fengið loforð fyrir láni í Englandi, en það sé gert að skilyrði, að skip félagsins séu sett að veði fyrir láninu á undan ríkisábyrgðinni. Áður var gert ráð fyrir, að ríkisábyrgðin ein kæmi til greina gagnvart lánveitanda, en ríkissjóður hefði aftur veðrétt í skipunum. N. taldi þetta engu máli skipta, og finnst sjálfsagt að breyta ábyrgðarheimildinni til þess að Eimskipafélagið verði ekki af þessu lánstilboði.

Ég hefi þá gengið í gegnum þær brtt., sem nefndin hefir flutt. Ég vona, að hv. d. virði viðleitni hennar til að minnka greiðsluhallann á fjárlagafrv., en reyna þó jafnframt að fullnægja þeim þörfum, sem mest kalla að. Ef till. n. verða samþ., minnkar tekjuhalli frv. um 50 þús. kr. Það er að vísu of lítið, en n. hefir ekki treyst sér að ráðast í meiri breyt. Þó á hún eftir að taka ákvörðun um nokkra liði og mun hún athuga þá fyrir 3. umr.

Um brtt. einstakra þm. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða, a. m. k. ekki fyrr en talað hefir verið fyrir þeim.