06.04.1933
Neðri deild: 46. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (3033)

94. mál, vigt á síld

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

F. h. sjútvn. hefi ég fátt að flytja annað en það, sem fram kemur í áliti hennar á þskj. 327. Málið er í sjálfu sér einfalt og ekki mikils um vert. Það er aðeins lítilfjörleg breyt. á l: frá 1930 um vigt á bræðslusíld. Í frv. er gert ráð fyrir, að fortakslaust verði boðið að vega síldina, hvernig sem á stendur.

N. lítur svo á, að þetta geti þó því aðeins staðizt, að síldin sé afhent á landi, en ekki á sjó. Það hefir að vísu ekki tíðkazt hér ennþá, að bræðslusíld væri afhent á sjó úti eða í bræðsluskip, en það er alls ekki óhugsandi, að svo geti orðið síðar, t. d. að hingað til lands komi fljótandi bræðslustöðvar, eins og Norðmenn hafa nú.

Það er alveg augljóst, að vigtun á síld í skipum, sem ef til vill liggja á kvikum sjó, getur ekki verið öruggari en mæling, nema síður sé. N. vill því gera þá breyt. á fyrirmælum frv., að heimilt sé að mæla bræðslusíld, þegar afhending fer fram á skipsfjöl eða þar, sem nothæf vog er eigi tiltæk.

Þetta er í raun og veru sú aðalbreyt., sem n. leggur til, að gerð verði á frv. Hún hefir þó einnig gert till. um að breyta sektarákvæðunum í 2. gr. og færa þau nokkuð niður. N. virðist sem þau ákvæði, er nú gilda eftir l. frá 1930, séu hófleg og leggur því til, að 2. gr. verði breytt þannig, að í staðinn fyrir 200-20000 kr. sekt komi 50-5000 kr. sekt. Virðist n. þau sektarákvæði hæfileg til varnaðar brotum á þessum l. En sé að ræða um brot á þessum lagafyrirmælum í sviksamlegum tilgangi, þá koma slík brot til álita í sambandi við önnur l. og verða þá að sjálfsögðu metin misjafnlega saknæm eftir fyrirmælum þeirra laga.

Fleira sé ég ekki ástæðu til að taka fram fyrir hönd n. og álít líka, að málið sé svo einfalt, að um það þurfi ekki lengi að deila.