06.04.1933
Neðri deild: 46. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (3039)

94. mál, vigt á síld

Vilmundur Jónsson:

Hv. frsm. láðist að skýra frá því, hvaða afstöðu hann og n. hefir til brtt. minnar, og eins, hvað n. á við með orðunum „heimilt skal þó að mæla bræðslusíld - þar, sem nothæf vog er ekki tiltæk“. Hvort n. eigi við það, að vog skuli nota alstaðar nema á skipsfjöl, eða hvort ef til vill eigi að skilja þessi orð svo, eins og sumir halda, að vog þurfi ekki að nota þar, sem hún er ekki til nú eins og stendur. - Ég skal ekki neita því afdráttarlaust, að ástæða geti verið til að undanskilja skipin í þessu efni, en hinsvegar finnst mér, að slík lagasetning geti beðið, unz eftir henni er kallað. Enn eru hér við land engar fljótandi bræðslustöðvar, og reyndar ekki miklar líkur til, að þær komi, á næstunni a. m. k. Hinsvegar er á það að líta, að allar verksmiðjur hér á landi, nema ein, hafa vog, og deilan stendur því í raun og veru um það, hvort þessari einu verksmiðju eigi að gefa möguleika til þess áfram að skjóta sér undan þessari kröfu um að hafa vog, kröfu, sem n. þó sjálf telur sanngjarna, og enda einu trygginguna, sem hægt er að hafa í þessum efnum. Ég geri það ekki að kappsmáli, að brtt. n. verði felld, en ég vil brýna það fyrir d. að samþ. brtt. mína, svo að það sé tryggt, að undanþágan nái aðeins til skipa, sem taka við síld úti á sjó. - Sektarákvæðin skal ég ekki heldur gera að kappsmáli, en ég get þó ekki neitað því, að mér finnst það vera hótfyndni úr n. að vera að gera till. um að lækka hið lága sektarlágmark, sem ég hafði sett, enda hefir dómari það í hendi sinni að ákveða, hvað sektirnar skuli miklar í hverju einstöku tilfelli. Með tilliti til þess, að skakkað getur tugum þúsunda vegna sviksamlegrar notkunar á vog og mæli við afhendingu síldar, vil ég hinsvegar segja það, að mér sýnist ekki mega minna vera en að sektirnar séu ákveðnar háar við slíkri misnotkun. - Ef veita á undanþágu frá að vega síld, þarf og auðvitað jafnframt að setja í 1. ákvæði um eftirlit með mælingunum, eins og er um eftirlit með vigtun með ákvæðum gildandi l. um vigt á síld. Ákvæði 1. mæla svo fyrir, að löggiltir eiðsvarnir vigtarmenn, svo margir sem þörf er á, séu jafnan til taks til þess að hafa eftirlit með síldarvigtuninni, og ef veita á heimild til að mæla síldina, verður að setja tilsvarandi ákvæði um eftirlit með mælingunum, sem löggiltir, eiðsvarnir mælingamenn hafi á hendi. Er slíkt engin hæfa, að strangari ákvæðum sé beitt við vigtun, sem er tiltölulega auðvelt að gera rétt, en við mælingu, sem er erfitt, ef ekki ókleift að gera rétt. Ég beini því þess vegna til n., að hún taki það til athugunar fyrir 3. umr., hvort ekki sé rétt að setja ákvæði í frv. um þetta, ef undanþágan skyldi verða samþ.

Ég vil svo að lokum beina því til hæstv. stj., hvað Hesteyrarmálinu líði, hvort stj. ætli ekki að áfrýja málinu til hæstaréttar, eða hvort þegar sé búið að því. Almenningur hefir fylgt þessum málum með mikilli athygli, og er æskilegt að fá upplýsingar um þetta frá hæstv. ráðh.